134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:25]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það telst til pólitískra stórtíðinda að þessi tillaga skuli hafa náð fram að ganga og það er frækilegt verk hjá hæstv. félagsmálaráðherra að koma þessari tillögu svo hratt og vel til þings og nefndinni inn í þingið aftur.

Hér er um að ræða mörg af mikilvægustu og brýnustu verkefnum okkar samfélags og okkar stjórnmálamanna. Hér er um að ræða hækkun barnabóta, að námsgögn í framhaldsskólum verði nemendum að hluta til að kostnaðarlausu, lengingu á fæðingarorlofi, sérstakar aðgerðir vegna barna með þroskafrávik og geðraskanir sem er eitt mikilsverðasta atriði þessarar tillögu, þ.e. að börn með geðraskanir fái greiningu og meðferð strax og að biðlistarnir skammarlegu á BUGL heyra sögunni til. Hér er um að ræða gagngerar breytingar á aðstæðum þessara barna sem lakast standa í samfélaginu, barna með þroskafrávik og geðraskanir, og því ber sérstaklega að fagna.