134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[11:35]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Meiri hluti allsherjarnefndar leggur til breytingu á 3. gr. frumvarpsins sem verið er að greiða atkvæði um. Upphaflega greinin fól í sér að svigrúm starfsmanna Stjórnarráðsins til að færast á milli ráðuneyta er aukið. Gert er ráð fyrir að með því móti verði bæði hægt að auka sveigjanleika á þeim vinnustað, gefa mönnum betri kost á að þróast í starfi og öðlast hugsanlega framgang með skilvirkari hætti en verið hefur.

Breytingartillagan sem meiri hlutinn leggur til gengur út á að forsætisráðherra skuli setja reglur um hvernig greinin er framkvæmd. Það er til að svara athugasemdum sem fram hafa komið um að gagnsæi væri ekki fyrir hendi varðandi ákvarðanir sem eru teknar á þeim grundvelli (Forseti hringir.) og meiri hlutinn er þeirrar skoðunar að áhyggjur sem fram hafa komið að um einhverjar geðþóttaákvarðanir yrði að ræða samkvæmt þessu ákvæði eru (Forseti hringir.) ástæðulausar og reglurnar samkvæmt breytingartillögunni eru til þess fallnar að tryggja að svo verði.