134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

verðbréfaviðskipti.

7. mál
[11:38]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mikilsvert mál sem lengi hefur verið unnið að í viðskiptaráðuneytinu og er ástæða til að þakka starfsfólki þar fyrir sérstaklega vel unnin störf. Eins og fram kom í meðferð nefndarinnar á dögunum hefur víðtækt samráð verið haft við þá sem að þessu máli koma. Hér er um að ræða inntak þeirra frumvarpa þriggja sem greidd eru atkvæði um núna í röð og eru um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki, verðbréfaviðskipti og kauphallir. Þetta er hluti af sérstakri aðgerðaáætlun Evrópusambandsins sem miðar að því að skapa skilvirkan innri markað um fjármálaþjónustu, svo sem styttri viðbragðstíma, skilvirkara eftirlit og öflugri neytendavernd. Markmiðið með tilskipuninni er að skapa skilvirkari innri markað fjármálafyrirtækja en verið hefur um fjármálaþjónustu og samræmdar reglur um fjármálafyrirtæki. Því fylgir margt afar jákvætt eins og sérstaklega öflugt hlutverk fjármálaeftirlits og slíkra eftirlitsstofnana. Þessi mál hafa því mjög margt jákvætt í för með sér og fagna ég því að þau nái fram að ganga.