134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[11:56]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að gera grein fyrir því að í nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar á þskj. 36 var prentvilla og er verið að prenta nefndarálitið upp. Þar var í 4. mgr. vísað til 16. gr. þar sem átti að vera 5. gr. Nefndarálitið verður sem sagt prentað upp.

Ég skila minnihlutaáliti um frumvarp til laga um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings Switzerland Ltd. um álbræðslu við Straumsvík. Í lok þess álits kemur fram að ég tek ekki afstöðu til frumvarpsins.

Afstaða mín byggist á því, herra forseti, að málið er að mínu mati vanbúið þrátt fyrir mjög langan aðdraganda, allt frá 28. maí 2003 þegar Alcan óskaði eftir því að skattaumhverfinu yrði breytt með tilvísun í ákvæði 33.03 í aðalsamningi.

Ríkið hefur samið um gildistíma þessa samkomulags við Alcan fyrir sitt leyti, um að hann taki gildi frá 1. janúar 2005. En jafnframt hefur ríkið samið um gildistímann gagnvart Hafnarfjarðarbæ, greinilega í óþökk Hafnfirðinga og að því mér virðist þvert á þau ákvæði sem ég nefndi áður, þ.e. ákvæði 33.03 í aðalsamningi. En einnig hefur ekki verið uppfyllt nægilega vel sú ráðslagsskylda sem greint er frá í 5. gr. samnings milli ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar um framleiðslugjaldið frá 16. nóvember 1995. Af þessu leiðir að uppi er veruleg óvissa varðandi stöðu og fjárhag Hafnarfjarðarbæjar í viðskiptum og samningum fram í tímann við álbræðsluna í Straumsvík, við Alcan Holdings Switzerland Ltd., eins og það heitir nú.

Ég vil herra forseti, að það komi skýrt fram, að ég geri ekki athugasemdir við breytingarnar sem slíkar. Það er að Alcan, eða álbræðslan í Straumsvík fari með öllu inn í íslenskt skattaumhverfi. Það er óumdeild heimild fyrir slíku í aðalsamningnum að við því skuli verða ef óskað er eftir slíku af hálfu Alcan. Það hefur verið gert og ég geri ekki athugasemdir við það.

Hins vegar hlýt ég að gera vinnubrögðin, að því er lýtur að Hafnarfjarðarbæ og hagsmunum sveitarfélagsins sem ég hlýt að gera verulegar athugasemdir við. Því þar eru gríðarlegir hagsmunir í húfi. Þetta eru tvö atriði, virðulegi forseti, sem þetta snýst um. Það er annars vegar hvað varðar gildistímann.

Þannig er að samkvæmt því ákvæði sem ég áður nefndi, 33.03, í aðalsamningi milli Íslands og álbræðslunnar í Straumsvík, er ljóst að geri Alcan kröfu um að fara inn í almenn íslensk skattalög að þá skuli fyrir 1. júní ár hvert sú breyting taka gildi frá og með 1. janúar á næsta almanaksári. Það er óvefengt að beiðnin barst frá Alcan 23. maí, sem sagt fyrir tilskilinn frest skal því samkvæmt þessu ákvæði breytingin taka gildi frá 1. janúar 2004.

Nú stöndum við frammi fyrir því að í þessum samningum hefur verið samið um að láta breytinguna taka gildi ári síðar. Eins og ég sagði áðan er ríkið ekki aðeins að semja fyrir sig, heldur einnig fyrir Hafnarfjarðarbæ. Ég leyfi mér að efast um, hæstv. forseti, að það sé gerlegt, að það standist í raun lög. Ég hef a.m.k. ekki fengið tæk rök fyrir því að þetta rétt vinnubrögð þannig að ég treysti mér til að styðja þau. Við skulum athuga að munurinn á gildistíma upp á eitt ár skiptir Hafnarfjarðarbæ hátt í 100 millj. kr. Það eru milli 90 og 100 millj. kr. sem Hafnarfjarðarbær tapar beint vegna ákvörðunar ríkisins um að semja við Alcan um breyttan gildistíma frá því er segir í samningnum sem slíkum.

Hafnfirðingar hafa mótmælt þessu kröftuglega. Ítrekað hafa þeir bæði sent bréf til iðnaðarráðuneytis, ein þrjú á þessu ári, en einnig kom fram á fundi hv. iðnaðarnefndar mikil andstaða og jafnframt, eins og kemur fram í báðum álitunum, kom fram að Hafnfirðingar munu reyna að leita samninga við ríkið beint vegna greiðslna fyrir árið 2004. Það er sem sagt viðbúið, tel ég, að ríkið þurfi að bæta Hafnfirðingum þá tekjuskerðingu upp á tæpar 100 millj. kr. sem í þessum samningi felst.

Herra forseti. Þar með er ekki allt upp talið. Með því að taka inn í 3. gr. samningsins, án samráðs við Hafnarfjarðarbæ, ákvæði um hafnargjöld, virðist sýnt að Hafnfirðingar geti orðið af um 40 millj. kr. á ári beint í hafnargjöld eftir árið 2014, með samningnum sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, formaður iðnaðarnefndar, gerði grein fyrir áðan.

Í nefndaráliti mínu bendi ég á að hagsmunir Straumsvíkurhafnar, sem er hluti af Hafnarfjarðarhöfn og hagsmunir Hafnarfjarðarhafnar þar með, geti verið í verulegri óvissu og jafnvel uppnámi vegna þessa, þótt í meirihlutaálitinu segi að skilningur nefndarinnar, eftir samráð við iðnaðarráðuneytið, sé að staðan árið 2014 verði þannig að búið verði að breyta aðalsamningnum og áðurnefndur hafnar- og lóðarsamningur verði fallinn úr gildi. Þá standa í fyrsta lagi eftir lögin eins og þau þá verða á þeim tíma og í öðru lagi réttur Hafnarfjarðarbæjar og Alcans til að semja. Það er minn skilningur að skilningur nefndarinnar á þessu hafi ekkert lögformlegt gildi. Það er mikill munur á lögum og því að lýsa skilningi nefndarinnar. Það lýsir í rauninni því að það er ekki vissa, engin staðfesting, að við höfum ekki fengið tóm til þess að leita endanlegrar niðurstöðu í þessu efni.

Ég ítreka, herra forseti, að málið er vanbúið að þessu leyti. Þarna hefur greinilega orðið ágreiningur milli iðnaðarráðuneytis og Alcans um gildistímann. Hafnfirðingar líta svo á að drátturinn á samningsgerðinni, sem átti að hefjast eftir 23. maí 2003 en lauk ekki fyrr en mörgum árum síðar, sé alfarið á ábyrgð ráðuneytisins og Alcans og eigi þess vegna ekki að bitna á Hafnarfjarðarbæ. Ég verð að taka undir það sjónarmið, herra forseti. Í gögnum frá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að þar vísar hvor á annan, Alcan og ráðuneytið, um hver beri þar ábyrgð. En það er sem sagt skoðun Hafnarfjarðarbæjar að samkvæmt aðalsamningi hafi Alcan átt að greiða lóðarleiguna og fasteignagjöld til Hafnarfjarðar frá 1. janúar 2004.

Það kann vel að rætast, sem er skilningur nefndarinnar, að Hafnarfjarðarbær verði í stöðu til að semja aftur um hafnargjöld eftir árið 2014. En þá spyr maður sig: Hver verður samningsstaðan, herra forseti? Það læðist svolítill grunur að manni um að hún verði kannski ekki jafngóð og jafnvel verri en hún er í dag. Eins og við vitum hafa heyrst fréttir um yfirtöku á Alcan. Það er ekki víst að samningsaðilinn til 40 ára verði sá sami. Það glittir ekki aðeins í Alcoa í gegnum þá gátt heldur er Rio Tinto þar líka á biðilsbuxum.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég hefði talið rétt, eins og segir í nefndarálitinu, að ríkið leysti úr þessum ágreiningi áður en samningurinn yrði lagður fyrir þingið. Ég sé ekki að neinir þeir hagsmunir séu fyrir borð bornir, hvorki ríkisins, Alcans né Hafnarfjarðarbæjar, með því að vinna þetta mál betur og taka aftur upp á næsta þingi. Ástæðan fyrir því að ekki tókst að ná samkomulagi á milli þessara aðila var einfaldlega tímaskortur og sú staðreynd að nú er hásumar og bæði starfsmenn iðnaðarráðuneytis og starfsmenn Alcans fjarverandi.

Það er ekki gott fordæmi, herra forseti, miðað við gerða samninga eins og gert hefur verið við bæjarfélagið Hafnarfjörð, á milli ríkis og Hafnarfjarðarbæjar allt frá árinu 1995 þar sem í 5. gr. segir skýrt að óski Ísal og Alcan eftir endurskoðun á þessum samningum og að flytjast inn í íslenskt skattaumhverfi þá skuli Hafnarfjarðarbær eiga fulla aðild að þeim samningaviðræðum. Þótt einhver samskipti hafi verið á milli Hafnarfjarðarbæjar og ríkisins í þessu efni þá er langt í frá að þetta ákvæði hafi verið uppfyllt. Því er það, virðulegi forseti, að við teljum málið vanbúið og munum ekki geta stutt það.