134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[12:11]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kann að vera rétt hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að ekki sé ágreiningur um staðreyndir. Málið bar einfaldlega ekki þannig að. Misvísandi gögn voru lögð fyrir nefndina trekk í trekk á þeim mörgu fundum sem voru haldnir vegna málsins. Það gafst í raun ekki tóm til að fá endanlega og skriflega eina niðurstöðu í málið. Þess vegna er notað orðalagið álit meiri hlutans, um skilning nefndarinnar að höfðu samráði við iðnaðarráðuneytið.

Á sama fundi var dreift plaggi sem er undirritað af hafnarstjóra Hafnarfjarðarbæjar, Má Sveinbjörnssyni, dagsettu 12. júní, þar sem fram kemur sá skilningur að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi ekki fjallað um málið. En sá skilningur er þar skriflegur að munað geti um 40 millj. kr., hér segir 39 millj. kr., eftir því hver afdrifin verða eftir árið 2014 á þessu 0,1% vörugjaldsákvæði.

Ég endurtek bara það sem ég sagði áðan. Að sjálfsögðu hefði ríkið átt að leysa úr þessum ágreiningsefnum gagnvart sveitarfélaginu. Þetta eru annars vegar 100 millj. kr. en hins vegar getur munað 40 millj. á ári eftir árið 2014. Það leyfi ég mér, herra forseti, að kalla vanbúið, að koma með málið svona inn. Ég sé ekki, eftir allan þann drátt sem orðinn er, að það hefði skipt sköpum eða skaðað hagsmuni nokkurs aðila að málinu að geyma það fram til haustsins.