134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[12:13]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við tökum fram í nefndaráliti meiri hlutans að skort hafi á samráð í öllu ferlinu. Um það er ekki deilt á milli okkar nefndarmanna og hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður dregur fram, sem er hárrétt, bréf frá hafnarstjóra, Má Sveinbjörnssyni. Þar er deilumál sem við í nefndinni ræddum ítarlega um, þ.e. túlkun á hafnar- og lóðasamningnum og því hvað gerist eftir 2014. Það er akkúrat kjarni málsins. Þegar þetta álitamál kom upp fór nefndin af stað og reyndi að skoða hvað mundi gerast eftir 2014. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni. Þetta kom upp í nefndinni.

Eftir yfirferð og eftir að hafa fengið að heyra frá Hafnarfjarðarbæ að það væri álitamál hvað gerðist eftir 2014 komumst við að þeirri niðurstöðu að þessi samningur mundi þá fallinn úr gildi og þar með 0,1% reglan.