134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[12:17]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs í umræðunni um frumvarp til laga um lagagildi viðaukasamnings milli íslenska ríkisins og Alcans sem snýr að skattalegri meðferð fyrirtækisins.

Eins og fram hefur komið í umræðunni hafa skattamál fyrirtækisins verið sérstök að því leytinu til að um þau hefur verið fjallað í sérstökum samningi sem upprunalega var gerður fyrir rúmum 40 árum þegar fyrirtækið eða forveri þess hóf starfsemi hér á landi. Í stað þess að greiða gjöld samkvæmt almennum íslenskum skattalögum hefur fyrirtækið greitt sérstakt framleiðslugjald. Í samningum þess við íslenska ríkið hefur frá upphafi verið ákvæði þess efnis að fyrirtækið geti, ef það svo kýs, óskað eftir því að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að um það gildi almenn íslensk skattalög. Fyrirtækið ákvað eins og kunnugt er árið 2003 að nýta sér þetta ákvæði og hófu samningsaðilar þá viðræður sem lauk með viðaukasamningi þeim sem við munum væntanlega lögfesta síðar í dag.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu og tel að öll meginefnisatriði hennar séu komin fram. Ég vek samt athygli á því sem ég tel vera stóru fréttina í þessu máli, og er mjög gleðileg að mínum dómi, þá að fyrirtæki eins og Alcan sem getur rekið fyrirtæki sitt hvar sem er í heiminum sjái sér hag í því að láta af hendi sérsamninga til 40 ára til að fara yfir í almennt íslenskt skattaumhverfi. Fyrirtækið tekur ekki þá ákvörðun nema vegna þess að íslenskt skattaumhverfi er á heimsmælikvarða eftir þær gagngeru breytingar sem gerðar hafa verið á því á undanförnum árum. Þær breytingar urðu hins vegar ekki af sjálfu sér, heldur voru þær afrakstur pólitískrar hugmyndafræði og markvissrar stefnumótunar sem oft hefur verið tekist á um, sérstaklega í þessum sal.

Stefna um lækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki og einföldun kerfisins alls hefur skilað ótvíræðum árangri og verið sannkölluð innspýting fyrir íslenskt atvinnulíf. Það sést vel á því hvernig skatttekjur ríkisins hafa stóraukist frá því að skatthlutfallið var lækkað á sínum tíma úr 30% niður í 18%. Hæstv. forsætisráðherra sagði eftirfarandi í ræðu á viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands í vor, með leyfi forseta:

„Jákvæð reynsla okkar af skattbreytingum á undanförnum árum styrkir mig í þeirri trú að ef við göngum enn lengra í þessum efnum munum við ná meiri árangri við að byggja hér upp öflug fyrirtæki sem aftur skila miklum skatttekjum. Við eigum ekki að vera í samkeppni við skattaparadísir um illa fengið fé. En íslensk stjórnvöld eiga að setja sér það markmið að vera með eitt samkeppnishæfasta skattaumhverfi í heimi og ganga helst aldrei skemur en samkeppnisþjóðir okkar í umbótum. Ef við náum árangri í að laða hingað fjármagn skjótum við sterkari stoðum undir hinn opinbera rekstur og tryggjum öflugt velferðarkerfi þjóðarinnar.“

Ég tek heils hugar undir þessi orð hæstv. forsætisráðherra og hvet okkur öll sem hér erum til að halda áfram á þessari braut og tryggja að hér verði áfram samkeppnisfært umhverfi fyrir fyrirtækin í landinu til að starfa í. Þannig náum við að halda í góð og öflug fyrirtæki eins og það sem hér er til umfjöllunar í dag en náum vonandi einnig fleiri slíkum hingað til lands til hagsbóta fyrir okkur öll.