134. löggjafarþing — 9. fundur,  13. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[12:23]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla örlítið að blanda mér í umræðuna og lengja hana því að hér er búið að segja ýmislegt í framhaldi af viðamikilli umræðu sem við áttum sl. fimmtudag, í 1. umr. um þetta mál. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég er ánægður með hvað hv. 11. þm. Reykv. s., Álfheiður Ingadóttir, er orðinn mikill talsmaður Hafnarfjarðarbæjar í málunum og hvernig hún í raun ber mál sitt fram í þessum efnum. Ég hef bent á að menn þurfi að gæta þess á Alþingi að tala vel til sveitarfélaganna og horfa á að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga sé mál sem þurfi að taka upp. Ég geri mér grein fyrir að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er væntanlega að vísa til þess í umfjöllun sinni að þetta mál sé þannig vaxið að það tengist tekjuauka eða tekjubreytingu sveitarfélagsins Hafnarfjarðarbæjar. Þar af leiðandi get ég tekið undir ýmislegt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur sagt í ræðu sinni en ég ætla hins vegar ekki að fara yfir þá hluti heldur vísa til nokkurra atriða sem ég benti á síðasta fimmtudag. Að vísu var umræðan þá mjög víðfeðm, eins og kom kannski fram í andsvörum áðan, að farið var að tala um orkusamninga og umhverfismál, orkufyrirtæki og stóriðju vítt og breitt um landið.

Það er skemmtilegt til þess að hugsa að dagsetningin, þ.e. árið 2014, er nákvæmlega sú sama og gildistaka á núverandi samningum sem álverið í Straumsvík hefur við Landsvirkjun varðandi núverandi framleiðslu. Það má því kannski segja að öll sú umræða sem verið hefur í morgun segir okkur að menn horfi til þess að álverið í Straumsvík verði með starfsemi sína í Hafnarfirði ekki bara fyrir 2014 heldur líka eftir 2014 þar sem áherslan er á að búið sé að semja um ákveðin atriði er lúta að hafnarstjórn og hafnarmannvirkjunum eftir þann tíma, enda hef ég fulla trú á að álverið í Straumsvík muni ganga inn í það fyrirkomulag sem nefndarálit meiri hluta iðnaðarnefndar gerir ráð fyrir, þ.e. að eftir 2014 verði hægt að taka upp nýjan samning og/eða þá að menn gangi einfaldlega inn í gjaldskrárákvæði Hafnarfjarðarhafnar á þeim tíma.

Vandamálið kannski við þetta mál frá því að það birtist fyrst — og er rétt að geta þess að það voru forsvarsmenn álversins í Straumsvík sem vöktu á því athygli í kjölfarið af skattbreytingum sem urðu á meðal fyrirtækja í landinu og ýttu af stað öðru máli sem tengist sveitarfélögunum, svo ég víki að því og hef vikið að því, en það er fjölgun einkahlutafélaga hér á landi sem er mjög af hinu góða. Sveitarfélögin hafa hins vegar talið að í þeirri gríðarlegu fjölgun hafi þau borið svolítið skarðan hlut frá borði má segja í sköttum þannig að útsvar sem þó hefur hækkað á milli ára líkt og skattar af fyrirtækjum, útsvarsgreiðslur frá einstaka aðilum, séu lægri en ella ef við hefðum verið í hinu gamla umhverfi. Ég held að þetta sé atriði og ég finn fyrir því á þinginu að þetta eru atriði sem menn vilja skoða í alvöru og hætta í sjálfu sér að ræða um það heldur að líta frekar á það þannig að tekjustofnar sveitarfélaganna styrkist.

Ég tek alveg undir að það var má segja gleðiefni og þjóðþrifamál að fara fram með umræddar skattbreytingar á sínum tíma gagnvart íslenskum fyrirtækjum. Ég fann fyrir því á þeim tíma hversu mikið það skipti máli. Það skipti miklu máli að búa það umhverfi til fyrir fyrirtæki hér á landi að þau gætu starfað til jafns við aðra því að við erum þó að horfa á þetta í alþjóðlegu samhengi. Þetta hefur þýtt að ýmis fyrirtæki sem voru að hugsa um að flytja starfsemi sína úr landi hafa haldið henni uppi hér á landi og það hefur orðið þó nokkuð mikill vöxtur í atvinnulífinu á undanförnum árum og þarf enginn að deila um slíkt.

Það sem hins vegar gerðist var að forsvarsmenn álversins í Straumsvík settust niður við reiknilíkanið sitt og sáu einfaldlega að sú samkeppni sem þeir voru komnir í við önnur álfyrirtæki hér á landi, miðað við það skattaumhverfi sem þeim var boðið, leiddi til þess að þeir voru bundnir við það í samningnum að bera skarðan hlut frá borði. Þess vegna lýstu þeir því yfir strax þegar umræddar skattbreytingar fóru í gegn, að þeir mundu sækjast eftir því að taka upp samninginn. Það var gert strax 2001–2002. Þá hófst vinna hjá Hafnarfjarðarbæ að meta allar fasteignir álversins í Straumsvík. Það var gríðarlega mikil vinna því það var eitt af lykilatriðunum að ef álverið færi inn í íslenskt skattaumhverfi mundi það um leið fara að borga fasteignaskatta til Hafnarfjarðarbæjar og hætta að greiða svokallað framleiðslugjald. Þessi vinna var á endapunkti á haustdögum árið 2002 og álverið var ekki sátt við niðurstöðu fasteignamatsins og kærði það til yfirfasteignamatsnefndar en á vordögum 2003 sættist álverið á niðurstöðuna, enda í raun ekki annað hægt. Og eins og komið hefur fram í umræðum óskuðu þeir eftir því formlega í maí 2003 að fara inn í nýtt íslenskt skattaumhverfi — eða ekki nýtt, í raun og veru það umhverfi sem önnur álfyrirtæki og önnur fyrirtæki eru í.

Síðan má segja að sá tími sem hefur liðið frá maí 2003 til dagsins í dag sé allt of langur miðað við þetta verkefni og það hefur auðvitað ýmislegt þvælst þarna inn á milli. Það urðu m.a. eigendaskipti í álverinu á sama tíma og önnur stór verkefni sem álverið vann að sem voru sett á forgangslistann.

Hafnarfjarðarbær stóð í þeirri meiningu að hann mundi koma að þessari samningsgerð á einn eða annan hátt. Taka má undir ýmislegt sem sagt hefur verið í umræðunni, t.d. að samningstæknin gekk út á það að halda Hafnarfjarðarbæ upplýstum um það sem var að gerast en ekki það að vera beinn samningsaðili, enda er frumvarpið sem hér er til umræðu um viðaukasamninginn, þetta er tvíhliða samningur. Hafnarfjarðarbær á ekki beina aðild að samningnum. Niðurstaða mín í málinu er því einfaldlega sú að það hefði mátt vera víðtækara samráð. Eins og kom fram hjá hæstv. viðskiptaráðherra í morgun var viðamikið samráð þegar verið var að vinna lög um verðbréfaviðskipti, kauphallir og fjármálafyrirtæki, en víðtækara samráð hefði mátt vera í þessum efnum. Hins vegar eins og ég sagði áðan verðum við að horfa til þess að umræddur viðaukasamningur er á milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings Switzerland um álbræðsluna í Straumsvík. Hafnarfjarðarbær er ekki beinn aðili að þeim samningi. Ég geri því fastlega ráð fyrir að þegar umrædd lög hafa tekið gildi muni sveitarfélagið Hafnarfjörður óska eftir, eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta, þar sem segir:

„Fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar sem komu fyrir nefndina greindu frá því að þeir mundu reyna að leita samninga við ríkið beint vegna greiðslna fyrir árið 2004.“

Þetta er í raun annað atriði sem ég vík að. Ég er einfaldlega að segja að ég hafi minni áhyggjur af þessu varðandi hafnarmálin en ég hef meiri áhyggjur af því sem ég nefndi og geri því fastlega ráð fyrir að Hafnarfjarðarbær muni, líkt eins og önnur sveitarfélög á Íslandi mundu líklegast gera, fara þess á leit við ríkið að endurgreiða þær tekjur sem sveitarfélagið hefur á beinan og óbeinan hátt misst vegna þess að gildistakan er ekki þann 1. janúar 2004 eins og bæjarfélagið stóð í trú um.

Við skulum ekki gleyma því í umræðunni að ríkið er þá kannski ekki að missa neinn spón úr aski sínum að því leytinu til að við það, hv. þingmenn, að Alcan tekur ákvörðun um að semja um það 1. janúar 2005 hefur ríkið fengið vegna ársins 2004 hátt í 350 millj. kr. meira en ella. Þó að ríkið mundi ganga fram og ná samningum við Hafnarfjarðarbæ um greiðslu á vangoldnum fasteignagjöldum vegna 2004 eða einhvers konar mismununar, þá mun ríkið alltaf halda eftir um 200–250 milljónum. Það er trú mín að þeir aðilar af hálfu ríkisins sem munu fara fram með þetta verkefni og leita samninga við Hafnarfjarðarbæ munu gera það á sanngjarnan hátt og ég held að þetta mál endi farsællega.

Ég vék örlítið að því í ræðu minni á fimmtudaginn, þriðja atriðinu í þessu máli, sem tengist má segja mengun og mengunarvörnum og er samningurinn um það frá 1966, þ.e. grunnsamningurinn. Mengunarvarnir álversins í Straumsvík hafa gerbreyst á þeim tíma og auðvitað batnað bæði varðandi flúor- og brennisteinstvíoxíð en á þeim tíma, árið 1966, var sett í lög svokallað svæði takmarkaðrar ábyrgðar. Það svæði takmarkaðrar ábyrgðar er lögfest eins og ég sagði í þessum samningi og það tryggir í raun og veru að álverið og starfsemi þess hefur takmarkaða ábyrgð gagnvart mengun á svæði sem umlykur álverið. Þetta svæði er nokkuð stærra en svokallað þynningarsvæði álversins en þynningarsvæðið er síðan fest í aðalskipulag Hafnarfjarðarbæjar. Hafnarfjarðarbær hefur lagt til við álverið og aðra að þessi tvö svæði séu sett í sömu línu, séu jafnstór að stærð þannig að þau kyssist í rauninni, og þar af leiðandi þarf á einhverjum tímapunkti, og ég vona að iðnaðarnefnd skoði það mál, að taka það upp á þingi að minnka þetta svæði takmarkaðrar ábyrgðar.

Nú lá líka ljóst fyrir í deiliskipulagi sem nokkuð var til umræðu á vormánuðum og hv. þingmenn muna eftir enda kom það fram í umræðum á fimmtudaginn í síðustu viku, að umrætt deiliskipulag sem gerði ráð fyrir stækkuðu álveri í Straumsvík gerði ráð fyrir enn minna þynningarsvæði en nú er sýnt í aðalskipulagi Hafnarfjarðarbæjar. Ef það deiliskipulag hefði verið samþykkt eða farið til auglýsingar hefði komið enn ríkari krafa frá Hafnarfjarðarbæ gagnvart álverinu og ríkisstjórninni að svæði takmarkaðrar ábyrgðar mundi minnka sem því næmi. En ljóst er að umrætt þynningarsvæði verður a.m.k. ekki minnkað á næstunni vegna þess að deiliskipulagið náði ekki fram að ganga á þeim tíma, en þetta er þá líka verkefni sem við horfum fram á og við verðum að horfa á það að þegar umrætt svæði takmarkaðrar ábyrgðrar var sett í lög 1966 var viðhorf okkar til umhverfismála allt annað, auk þess sem tæknin við mengunarvarnir var allt önnur. Það skiptir því miklu máli fyrir sveitarfélagið að umrætt svæði verði minnkað en vissulega verðum við líka að horfa á það að fyrirtækið hefur ákveðinna hagsmuna að gæta og er auðvitað með þetta svæði lagabundið og þar af leiðandi þyrfti að taka þann samning upp líkt eins og hér er verið að gera.

Ég mun greiða þessum lögum síðar í dag atkvæði mitt á jákvæðan hátt. Ég mun hins vegar gera grein fyrir atkvæði mínu en ég verð að gera það líklegast í styttra máli en ég hef gert núna. Ég vil sérstaklega taka undir ýmislegt sem hér hefur verið sagt, t.d. það sem hv. 9. þm. Suðvest., Ragnheiður E. Árnadóttir, nefndi, að vissulega er fagnaðarefni að Alcan, álverið í Straumsvík, sé að fara inn í íslenskt skattaumhverfi, sé að lækka í raun tekjuskattsprósentu sína úr 30% í 18%. Það er fagnaðarefni að fyrirtækið sækist eftir því að fara inn í sama umhverfi og önnur fyrirtæki því ef umhverfið væri ekki með þeim hætti þá hefði fyrirtækið líklegast ekki viljað taka samninginn upp. Á sama hátt má segja að hv. iðnaðarnefnd sé búin að ná niðurstöðu varðandi hafnarmálin og hvað verður um þau eftir 2014. Í þriðja lagi er nokkuð ljóst að Hafnarfjarðarbær hefur gert grein fyrir því að hann mun sækja um endurgreiðslu vegna ársins 2004 og ég hef farið yfir það að ég geri ekki ráð fyrir öðru en að þeir aðilar sem koma að því af hálfu ríkisins muni taka því jákvætt. Í fjórða lagi hef ég minnst á að næsta verkefni varðandi þessa samningsgerð sem á rætur að rekja til ársins 1966, er að taka upp svæði takmarkaðrar ábyrgðar og ná að minnka það til jafns við svokallað þynningarsvæði eins og það er sýnt í aðalskipulagi Hafnarfjarðar.