134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:08]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp við 3. umr. en það er þó alveg tilefni til að fara aðeins yfir það þegar það kemur hér til lokaumfjöllunar og þessi málapakki ríkisstjórnarinnar er að renna sitt skeið á enda á þessum síðasta þingdegi. Það er nægur tími enn til kvölds og okkur er ekkert að vanbúnaði að ræða þau mál sem enn er efni til að ræða í einhverjum tilvikum og við gerum það auðvitað eins og venjulega fyrir tómum ráðherrabekkjunum því að það er eins og við manninn mælt þegar mál er tekið hér á dagskrá að þá spýtast allir hæstv. ráðherrar úr salnum.

Það sem vekur auðvitað sérstaka athygli við þetta mál sem á að vera einhvers konar fáni eða fyrsta mál ríkisstjórnarinnar hvað varðar velferðarmálasviðið og er beinlínis kynnt þannig í greinargerð að með því sé verið að stíga eitt skref af mörgum, eins og það er orðað, í átt að þeim vilja ríkisstjórnarinnar að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja að því er varðar bætur almannatrygginga.

Þetta er allt hárrétt, hverju orði sannara. Þetta er eitt skref og eina skrefið, því að þetta er eina efnislega breytingin á sviði velferðarmála sem tekur strax gildi sem hefur efnisáhrif frá og með því að það er samþykkt. Annað sem hér hefur verið á dagskrá eru falleg fyrirheit í markmiðskenndum ályktunum. Þá vekur auðvitað sérstaka athygli hvert þetta eina skref er, skrefið, með ákveðnum greini. Það væri auðvitað sérstaklega gaman ef talsmenn Samfylkingarinnar hefðu lagt eitthvað til umræðunnar að þessu leyti, og þá er ég í sjálfu sér ekki að tala bara um nefndarformenn eða aðra slíka sem hafa unnið málið innan þings heldur forustumenn Samfylkingarinnar sem við höfum ekki séð mikið af hér á þinginu undanfarna klukkutíma og sólarhringa.

Þetta er skrefið og það er hrátt kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins og ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum. Punktur og basta. Það er framlag ríkisstjórnarinnar að þessu leyti, hið eina efnislega sem á að afgreiða á þessu fyrsta þingi stjórnarinnar og snýr að þessum málaflokki. Sumir feðra þetta þannig að hv. þm. Pétur H. Blöndal eigi að þessu höfundarrétt sem tillögumaður á landsfundum Sjálfstæðisflokksins. Nú veit ég það ekki en löngum var það talið athyglisvert þegar sá mikli talsmaður Sjálfstæðisflokksins í velferðarmálum gladdist yfir hlutum hér, að þá væri kannski ástæða til að hafa varann á því að þá væri hann að ná sinni frjálshyggju fram í þeim efnum.

Það er sérstaklega merkilegt, ekki síst í ljósi fallegra fyrirheita í stjórnarsáttmálanum, að þetta skuli vera skrefið sem ríkisstjórnin stígur, hrátt kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins um að þeir sem eru orðnir eldri en sjötugir megi halda öllum sínum launatekjum og greiðslur úr almannatryggingakerfinu haldist óskertar, þannig að menn sem kunna að hafa milljónir eða milljónatugi í tekjur annars staðar frá fái óskertar greiðslur úr almannatryggingakerfinu.

Það er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að ekkert er gert fyrir aðra hópa og er það þá sú forgangsröðun sem t.d. jafnaðarmannaflokkurinn mikli, Samfylkingin, er stolt af, að það sé ekkert gert fyrir tekjulága eða tekjulausa öryrkja og aldraða á milli 67 ára og sjötugs og aldraða sem ekki hafa aðstæður til eða heilsu til að bæta stöðu sína með vinnu. Því það er auðvitað hárrétt, svo aftur sé vitnað í talsmann ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum, hv. þm. Pétur H. Blöndal, að þetta lagar ekki stöðu þeirra. (Gripið fram í.) Það er hárrétt, en það er ekkert hreyft við öllu hinu. (Gripið fram í: Það kemur.) Það kemur, já, kannski kemur það með haustskipunum. Það segir sína sögu á hverju er byrjað. Og það er athyglisvert að Samfylkingin sem er með formann samtaka aldraðra, 60 plús, innan Samfylkingarinnar — hann situr nú á þingi, a.m.k. var sá ágæti maður, hv. þm. Ellert B. Schram, í forsvari þar, ef ég man rétt, og getur kannski staðfest að svo sé enn, hann er hér — stendur að þessu.

Það er ástæða til að ræða hér þá stefnumörkun eða þá skírskotun sem í þessari aðferðafræði er fólgin og ég tek undir margt það sem sagt var hér í umræðunum, bæði við 1. og 2. umr., um það efni. Auðvitað getur það vel komið til greina sem fyrirkomulag að við einhver tímamörk hætti menn með öllu að taka tillit til utanaðkomandi tekna þegar menn eru orðnir ellilífeyrisþegar. Hvort sú tala á að vera við sjötugt eða eitthvað ofar er útfærsluatriði. En það er svo bersýnilega ósanngjarnt að gera þetta svona nema á undan sé gengið eitthvert tímabil þar sem menn mega hafa umtalsverðar tekjur án skerðinga, þ.e. að umtalsvert frítekjumark væri þá í gildi gagnvart öðrum, þeim sem yngri eru og öryrkjum. Hér er verið að mismuna svo gróflega þessum hópum eftir stöðu þeirra eða aldri að það hálfa væri nóg.

Ég vil taka fram að við vinstri græn höfum ekki útilokað það og gerum ekki í okkar áherslum á þessu sviði að við einhver tímamörk verði hætt að horfa til atvinnutekna en það verður að vera í samhengi við áherslur í þessum málaflokki í heild sinni. Það sem þarf að innleiða hér er auðvitað aukinn sveigjanleiki. Það er ekki verið að gera það, heldur er verið að negla þetta niður við 70 ára aldursmörkin. Það var undarlegt að heyra hv. þm. Pétur Blöndal fara hér mikinn og skammast út í aldursmörk í gildandi lögum, sem flokkur hans hefur reyndar haft 16 ár til að breyta, en horfa fram hjá því að hér er verið að negla inn ný aldursmörk og það er við sjötugt, þannig að aldraðir á bilinu 67–70 ára eru í annarri og verri stöðu en þeir sem eru orðnir sjötugir. Er það mjög rökrétt?

Ef markmiðið er að auðvelda þessu fólki að halda áfram á vinnumarkaði, því sem hefur heilsu og aðstöðu til, þá er ekki gáfulegt að hafa fyrsta tímann sem í hlut á frá því að menn samkvæmt skilgreiningu teljast aldraðir og öðlast þessi réttindi, við 67 ár aldursmörkin og fram að sjötugu, svona úr garði gerð með, hvað það er, 30 þús. kr. frítekjumark sem er auðvitað eins og hver annar brandari. Ég tek því eindregið undir það að sú útfærsla sem stjórnarandstaðan flytur hér tillögur um er auðvitað að miklum mun gáfulegri.

Ef við veltum því fyrir okkur hverjir eru í mestri þörf fyrir úrlausn sinna mála, þó að við höfum fullan skilning á þessu sjónarmiði að það sé gott fyrir báða aðila, vinnumarkaðinn og samfélagið annars vegar og hina öldruðu hins vegar, að nýta starfskrafta þeirra ef þeir hafa heilsu og aðstöðu til. Ég tek innilega undir það og það voru einmitt rök okkar í stjórnarandstöðunni þegar við mæltum fyrir tillögu okkar síðastliðið haust um 75 þús. kr. frítekjumark. Hvar er nú einurð Samfylkingarinnar í því máli? Af hverju gufaði það svona harkalega upp allt saman sem stjórnarandstaðan þáverandi sameinaðist um að leggja hér til sem mikilvægustu og brýnustu verkefnin á sviði velferðarmála á síðastliðnu hausti? Þar var alveg kjarnapunktur að taka upp 75 þús. kr. frítekjumark fyrir alla, öryrkja og aldraða. Þarna er horfið frá því og þessi eini hópur valinn út úr. Hvernig skyldu aðstæður hans vera borið saman við aðra sem standa höllum fæti og þurfa að reiða sig á framfærslu með greiðslu úr hinu opinbera tryggingakerfi? Þetta er af augljósum ástæðum langbest setti hópurinn af þeim öllum vegna þess í fyrsta lagi að hann hefur heilsu til að vinna — annars reynir ekki á það — og hefur þar af leiðandi ekki útgjöld eða erfiðleika sem því eru samfara að stríða við heilsubrest og skerta eða enga starfsorku, og hann verður síðan í aðstöðu til að vinna og hafa góðar tekjur, með öðrum orðum best setti hópurinn. Þetta er augljóslega best setti hópurinn af öllum sem þarna á undir, það liggur í hlutarins eðli. Hann er tekinn hér fram fyrir alla og hann einn fær úrlausn sinna mála þegar ríkisstjórnin loksins lætur eitthvað gerast í þessum efnum. (Gripið fram í.) Já, ég segi loksins vegna þess að ríkisstjórninni var í lófa lagið að taka hér fleira með ef hún hefði svo kosið.

Það hefði verið sjónarmið út af fyrir sig ef ríkisstjórnin hefði sagt: Við ætlum ekkert að gera í þessum efnum fyrr en í haust, við ætlum að koma þá með málin undirbúin og klár, í staðinn fyrir að henda inn þessum frumvörpum og halda hálfgert sýndarmennskuþing sem út úr kemur nánast ekki neitt nema nafnbreytingar á ráðuneytum og staðfesting á fallegum fyrirheitum úr stjórnarsáttmála í velferðarmálum og þetta eina atriði. Um þennan forgangshóp ríkisstjórnarinnar, þann hluta aldraðra sem orðinn er sjötugur og er við svo góða heilsu að hann getur bætt stöðu sína með því að vinna áfram. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu, staddur eins og hann er gagnvart þessu kerfi að öllu öðru leyti.

Öryrkjarnir, þeir sem hafa skerta eða enga starfsorku eða eru þannig settir af einhverjum ástæðum, búsetulega eða fjölskyldulega, að þeir geta ekki unnið, eru skildir eftir. Allir hóparnir sem í raun og veru af einum eða öðrum ástæðum standa augljóslega lakar að vígi en þessir sem geta nýtt sér þetta. Ég tek aftur fram að við erum ekki að leggjast gegn því sem slíku að þessi hugsun sé höfð með, að það sé æskilegt að nýta krafta þessa fólks. Ég er eindregið þeirrar skoðunar og það er hollt fyrir samfélögin og það er reyndar gert í þó nokkrum mæli fyrst og fremst á landsbyggðinni. Þar er þetta fólk í þó nokkrum mæli að hjálpa til á hinum almenna vinnumarkaði, t.d. í verstöðvunum. Í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum eru hjón sem vinna fullan vinnudag, konan er 77 ára og karlinn áttræður. Þau eru meðal bestu starfsmanna þess fyrirtækis og það er glæsilegt.

Við erum síður en svo á móti því að skoða það að fólk sem hefur lagt svo mikið af mörkum á langri starfsævi fái að njóta þess, m.a. í því að halda sínum greiðslum úr samtryggingarkerfinu. En það má þó velta því fyrir sér hvort það eigi að vera án nokkurs þaks. Á að hverfa að öllu leyti frá tekjujöfnunarhugsuninni þegar þetta á í hlut? Verða menn ekki að átta sig aðeins á því hvers konar almannatryggingakerfi við ætlum að hafa hér? Grunnurinn að hinu norræna samtryggingarkerfi hefur verið lengi þannig að það er ákveðin ótekjutengd samtrygging í kerfinu sem er auðvitað annað aðalsmerki hinna norrænu velferðarsamfélaga. Það tryggir að allir eiga hagsmuna að gæta í því og standa vörð um það. Það auðveldar þverpólitíska samstöðu um það og hefur alltaf gert. En það hefur líka alltaf verið þannig að ofan á þann grunn koma viðbótarráðstafanir gagnvart þeim sem lakast eru settir og þær eru gjarnan með einhverri hliðsjón af tekjum eða fjölskylduaðstöðu, eðlilega. Þannig næst síðan jöfnunin fram.

Mér finnst vera horfið frá þessu hér að vissu leyti, sérstaklega þegar þetta er gert með þessum hætti, þegar í raun og veru er byrjað á öfugum enda, byrjað á hópnum sem er best settur eða verður best settur á komandi árum. Þetta hefði gjarnan mátt koma síðast þegar menn voru búnir að gera það vel við alla þá aðra, öryrkja og aldraða, sem standa miklu lakar að vígi, hafa ekkert nema tryggingarnar, eru ekki heilsuhraustir eða eru það fatlaðir að þeir hafa enga starfsorku og geta ekkert bætt stöðu sína með þessum hætti. Þegar búið væri að taka myndarlega á þeirra málum hefði mátt skoða að klára svo verkið með þessu, að draga einhvers staðar viss mörk og segja: Þegar menn eru komnir yfir tiltekinn aldur ætlum við hins vegar að leyfa þeim að leggja sitt af mörkum, ef þeir geta, til samfélagsins án þess að það hafi nein áhrif á bætur þeirra. Hvort það hefði átt að miðast við 70 eða jafnvel hærri aldur í ljósi þess hvernig okkar líffræðilega mynd er að þróast, það má ræða slíkt.

Þetta vildi ég gera að umtalsefni, virðulegi forseti, við lokaumræðu þessa máls. Ég sakna þess reyndar dálítið að ekki skuli meira hafa verið rætt um hvernig menn sjá fyrir sér þróunina að þessu leyti á Íslandi í heild varðandi sveigjanleg starfslok, möguleika fólks til að fara að draga úr vinnu en halda áfram störfum eftir því sem heilsa þeirra, aðstæður og áhugi leyfa. Það er það sem menn eru að leita eftir alls staðar í löndunum í kringum okkur en við á Íslandi höfum afar lítið komist áfram með. Í kerfinu eins og það er úr garði gert eða virkar hjá okkur eru þessi skil allt of skörp. Það er alls ekkert í samræmi við aðstæður og áhuga fólks nú um stundir að gera þetta þannig. Þess vegna hefði auðvitað þurft að spila þetta saman við skynsamlegar ráðstafanir sem væru hluti af því að gera þetta æviskeið sveigjanlegra fyrir fólk, að það gæti betur nýtt krafta sína og aðstæður og notið lífsins í bland, eins og alls staðar er keppikefli manna og ég hygg að flestir vilji gera þegar þeir komast á þennan aldur, að sjá það gjarnan fyrir sér að geta farið að hafa eitthvað hægara um sig og eiga meiri frítíma án þess þó að vera kastað til hliðar eins og ónýtu gagni akkúrat við einhver tiltekin tímamörk. Þessi hugsun er ákaflega blind í þessu máli og ekki til bóta nema síður sé að búa til þessa aðgreiningu á öldruðum eftir því hvort þeir eru 67 eða 70 ára gamlir. Þess vegna held ég að þetta mál hljóti að þurfa að endurskoðast.

Ég veit ekki hvort það stendur í stjórnarsáttmálanum, þetta klassíska sem staðið hefur í 30 ár, að það beri að endurskoða almannatryggingalögin í heild. Ég held að það hafi í verið í eiginlega öllum stjórnarsáttmálum svo lengi sem ég man og eitthvað lengur, enda vita allir að þau eru ákaflega bætt löggjöf sem búið er að klastra í með ýmsum hætti og það væri mikið þarfaverk ef tækist að fara í almennilega heildstæða endurskoðun og upp að vissu marki einföldun á þeim lagabálki. Það mætti alveg horfa til hinna Norðurlandanna í þeim efnum þar sem slík einföldun og endurskoðun hefur víða farið fram. Ég veit ekki hvort maður er sérstaklega spenntur fyrir því að það gerist í tíð núverandi ríkisstjórnar í ljósi þess hvernig hún byrjar. Ég verð að segja að upphafið lofar ekki góðu. Það gerir það ekki ef það eina sem hér skuli konkret vera gert og eiga að afgreiðast á þessu þingi og hefur bein efnisleg áhrif og fer að virka strax, skuli vera þetta hráa fjrálshyggjukosningaloforð Sjálfstæðisflokksins.