134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:55]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Í umræðum í morgun tók til máls hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Lúðvík Bergvinsson. Hann taldi sig hafa orðið varan við mikinn og alvarlegan misskilning hjá stjórnarandstöðunni, sem sé þann að stjórnarandstaðan léti sem svo að við stjórnarmyndun hefðu þessir tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, runnið saman í einn. Hann taldi ástæðu til að vekja athygli á því að þetta væru enn þá tveir flokkar.

En hvers vegna skyldu menn halda og fá það á tilfinninguna að Samfylkingin hefði runnið í heilu lagi inn í Sjálfstæðisflokkinn og verið innbyrt þar með manni og mús? Hvers vegna er það, frú forseti, að hér er fyrsta verk ríkisstjórnarinnar sem í framkvæmd fer stefnumál einungis eins flokks, annars stjórnarflokksins, Sjálfstæðisflokksins, og hvers vegna er það, frú forseti, sem hér tala engir fyrir málinu aðrir en fulltrúar eins flokks, þ.e. Sjálfstæðisflokksins, að undanskildum hv. þm. Ellerti B. Schram sem sagði að um þetta hefði verið samið, punktur og basta? Ég held að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og aðrir þurfi ekki að vera hissa á því að einhverjum detti í hug að Samfylkingin hafi horfið í heilu lagi inn í Sjálfstæðisflokkinn við þessa ríkisstjórnarmyndun. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er einmitt merki um að svo sé.