134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[14:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er sömuleiðis aðeins stutt ræða um þetta mál af minni hálfu við lokaumfjöllun þess. Það ber vel í veiði og ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra er genginn í salinn.

Þetta mál tengist öðru sem afgreitt var fyrr á þinginu, breytingum á þingsköpum Alþingis. Bæði málin eru söguleg á vissan hátt vegna þess að aðdragandi þeirra og það hvernig þau eru borin fyrir þingið er mjög óhefðbundið. Satt best að segja eru þar rofnar áratugahefðir, hefðir sem hafa gilt allan lýðveldistímann. Ástæða er til að hnykkja á því við lokaafgreiðsluna og fá það inn í þingtíðindi að hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, brýtur í blað í þessum efnum sem forsætisráðherra ríkisstjórnar hvað varðar samskipti þings og framkvæmdarvalds, hvað varðar samskipti þings og ríkisstjórnar í báðum þessum tilvikum.

Varðandi þingsköpin er það auðvitað fáheyrt og hefur aldrei gerst að breytingar á þingskapalögum séu fluttar af stjórnarflokkum án tilraunar til samráðs við stjórnarandstöðuna og knúnar í gegn jafnvel með afbrigðum, eins og hér var gert. Og að framkvæmdarvaldið hlutist þannig um innra verkskipulag þingsins er auðvitað mjög óeðlilegt. Það eru mjög vond skilaboð um virðingu manna eða skort á henni öllu heldur varðandi þrískiptingu valdsins og sjálfstæði valdþáttanna í samfélaginu. Það er ólýðræðislegur þankagangur sem í því er fólginn að ákveða úti í bæ að breyta skuli skipulagi Alþingis og flytja síðan um það frumvarp án þess að svo mikið sem gera tilraun til pólitísks samráðs um það. Mætti meira um það segja en því skal sleppt hér.

Varðandi Stjórnarráðið er hið sama upp á teningnum. Þar er málið enn neyðarlegra fyrir Sjálfstæðisflokkinn því hann er gjarnan hreykinn af arfleifð síns fyrrum foringja, Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra og ráðherra, þingmanns og borgarstjóra og hvað það nú var allt saman.

Það er nákvæmlega þannig að Bjarni Benediktsson, sem var virtur lögspekingur, átti merka sögu í því að endurskoða skipulag Stjórnarráðsins. Hann flutti á Alþingi, þá sem stjórnarandstæðingur, tillögu — um að gera hvað? Að kjósa þverpólitíska nefnd til að reyna að vinna að samkomulagi að breytingum á skipulagi Stjórnarráðsins. Það var gert. Það var undanfari þess að lög voru sett árið 1969 um breytingar á Stjórnarráðinu sem tóku gildi árið 1970.

Arfleifð Bjarna Benediktssonar er því ekki sýndur mikill sómi af núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, þaðan af síður hefðum um að leita þverpólitísks samkomulags um mikilvæg mál af þessu tagi. Kannski hefur þetta verið gert í hugsunarleysi. Kannski hefur nýju ríkisstjórninni legið svo á. Kannski er þetta afleiðing af því að menn byrja á öfugum enda. Menn ákveða fyrst að búa til ríkisstjórn og svo semja menn um hvað hún skuli vera. Menn ákveða fyrst að breyta Stjórnarráðinu og svo fara þeir að velta því fyrir sér hvernig þeir eigi að gera það og hvað eigi að koma út úr því.

Það er mjög merkilegt að hæstv. forsætisráðherra er ekki einu sinni trúr eigin frumkvæði og eigin málafylgju á þessu sviði frá fyrri tíð. Það er t.d. til á prenti ótal sinnum að hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, er þeirrar skoðunar að fækka eigi ráðuneytum, að fækka eigi ráðuneytum en ekki fjölga þeim. Ég veit ekki betur en báðir stjórnarflokkarnir hafi reyndar ályktað um það.

En þegar þessi sami hæstv. ráðherra, þá hv. þm. Geir H. Haarde, hamaðist gegn því að stofnað yrði umhverfisráðuneyti þá var ein meginröksemdin sú að fækka ætti ráðuneytum en ekki fjölga þeim. (Forsrh.: Ég tók aldrei til máls í þeirri umræðu.) Það er þá líklegt að það hafi ekki verið. Ég veit ekki betur en í umræðum á Alþingi, 18. apríl 1989, hafi Geir H. Haarde talað. Svo eitthvað skjöplast minni hans eða þá að þingtíðindin eru rangt færð. Hvoru skyldum við nú trúa betur?

Hér kemur fram að Geir H. Haarde hafi tekið til máls og sagt sem svo að honum finnist undarlega staðið að málum í sambandi við þetta frumvarp, sem var frumvarp til laga um stofnun umhverfisráðuneytis. Og vitnaði þar til þess að í gangi væri vinna að heildarendurskoðun á Stjórnarráðinu og þannig ætti auðvitað að vinna að þeim hlutum. Með leyfi forseta, sagði núverandi hæstv. forsætisráðherra, þáverandi stjórnarandstæðingur, Geir H. Haarde:

„Forsætisráðherra upplýsti í framsöguræðu sinni að sú endurskoðun“ — þ.e. endurskoðun á skipulagi Stjórnarráðsins — „sem hafin var 1983 stæði enn yfir að þessu leyti til og væru menn á hans vegum að vinna að henni. Hins vegar hefði borið brýna nauðsyn til að flytja sérstakt frumvarp um tvö atriði. Hið fyrra er um hið ráðgerða umhverfismálaráðuneyti og hið síðara er um að búa til sérstaka stöðu aðstoðarráðuneytisstjóra í ráðuneytunum.

Varðandi fyrra atriðið vildi ég eingöngu taka undir með mínum félögum úr Sjálfstæðisflokknum sem hér hafa talað í kvöld um það mál. Ég tel að ef eitthvað er þá eigi að fækka ráðuneytunum en ekki að fjölga þeim og það sé röng stefna að taka eitt slíkt mál og búa til utan um það nýtt ráðuneyti án þess að því fylgi þá heildarendurskoðun alls Stjórnarráðsins. Ég tel að rangt sé að taka þetta mál úr því skipulagslega samhengi sem stjórnarráðslögin eiga að vera í.“

Með öðrum orðum var hv. þm. Geir H. Haarde að tala fyrir svona heildstæðri nálgun og heildstæðum og vönduðum vinnubrögðum í þessum efnum. Akkúrat tala gegn vinnubrögðum af því tagi sem hér eru nú ástunduð. Síðar í sömu ræðu, sem er svo gleymd hæstv. ráðherra að hann mundi ekki eftir að hafa talað í málinu, sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Mér þykir þetta heldur kyndugt og ekki góð vinnubrögð þegar verið er að fjalla um jafnmikilvægan lagabálk og stjórnarráðslögin. Slík lög á að sjálfsögðu að setja í heilu lagi en ekki að vera að kroppa í þau hingað og þangað eftir atvikum á hverjum tíma.“

Hvað er nú verið að gera, hæstv. forsætisráðherra, annað en að kroppa í stjórnarráðslögin hingað og þangað eftir atvikum á hverjum tíma? Það sem hentaði til að koma ríkisstjórninni saman er orðið að fullboðlegri ástæðu að mati sama manns og talaði svona fallega 1989, til þess að kroppa akkúrat í stjórnarráðslögin hér og þar, með handarbakavinnubrögðum af því tagi sem við höfum orðið vitni að, að stjórnarflokkarnir hafi í raun ekki komið sér saman um neitt nema nafnbreytingar á ráðuneytum og eiga eftir að útfæra hvað í því felst þegar kemur að sundurdrætti viðfangsefna. En eitt gátu þeir þó komið sér saman um. Það var að fækka ekki ráðuneytum. Vegna þess að það mátti ekki. Það hentaði ekki samningunum um myndun ríkisstjórnar. Og þá var gripið til enn hallærislegra ráðs en að stofna nýtt ráðuneyti um mikilvæg viðfangsefni eins og umhverfismál auðvitað eru. Ég held að engum dytti í hug í dag, í ljósi mikilvægi þess málaflokks, að mæla gegn því að umhverfismálin verðskulda ráðuneyti. Það má hrósa framsýni þeirra sem stofnuðu umhverfisráðuneytið 1989 í því ljósi. Nei, hæstv. ríkisstjórn fór enn hallærislegar í þetta núna. Hún skipti upp einu minnsta ráðuneyti Stjórnarráðsins vegna þess að það varð að útvega tvo stóla. Það varð að búa til tvo stóla úr einum. Saga varð einn ráðherrastólinn í sundur og draga hann inn í tvö herbergi. Á öðrum helmingnum situr hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, og hefur örugglega skotið kókkassa undir til að stóllinn velti ekki á tveimur fótum, en á hinum helmingi stólsins situr hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson. Þeir sitja með sína 15 starfsmenn hvor eða svo í því sem fyrir var, í einu minnsta ráðuneyti Stjórnarráðsins. Það er nú öll málafylgjan. Það eru innstæðurnar gagnvart því að ekki eigi bara að halda ráðuneytafjölda óbreyttum, heldur fækka þeim. Eins og sömu flokkar, sömu hæstv. stjórnmálamenn hafa ítrekað sagt á undanförnum árum og ályktað um að landsfundum sínum og svarað fyrir í fjölmiðlum.

Um inntak þessa stjórnarráðsfrumvarps hefur það auðvitað verið rækilega rætt og í nefndaráliti minni hlutans er farið mjög vel yfir það og ég hef ekki margt um það að segja eða mörgu við það að bæta sem kemur þar fram. Ég vil þó staldra við eitt atriði og hefði verið gaman ef hér hefði náð að vera í salnum eins og einn hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar. Hvar er hæstv. utanríkisráðherra? Er hægt að fá hana hér til fundar áður en þessu lýkur til að svara fyrir um afstöðu Samfylkingarinnar í þeim efnum? Eða er hæstv. félagsmálaráðherra, ráðherra vinnumarkaðsmála, til staðar? Ég veit að málið heyrir ekki undir viðkomandi ráðherra en það er engu að síður þannig að venjan hefur verið sú ef menn vilja beina spurningum til fleiri ráðherra sem mál varða eða til forustumanna stjórnarflokka er hægt að fá þá til að mæta til umræðunnar, enda eiga þeir að gegna þingskyldum sínum ef þeir hafa ekki lögmæt forföll.

Ég hefði áhuga á að fá að heyra forustumenn Samfylkingarinnar, helst hæstv. utanríkisráðherra, ef ekki þá hæstv. félagsmálaráðherra, svara aðeins fyrir um ákvæði 3. gr. frumvarpsins um breytingar á lögum um Stjórnarráðið. Ég vil fá að heyra Samfylkinguna svara því hvort þetta sé það upphaf á samskiptum hennar við stéttarfélögin og verkalýðshreyfinguna sem hún sé stolt af. Hér á að fara að afgreiða þetta mál gegn háværum mótmælum, hörðum mótmælum heildarsamtaka opinberra starfsmanna, BSRB og BHM.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill upplýsa hv. þingmann um að báðir hæstv. ráðherrar sem hv. þingmaður óskaði eftir eru með fjarvist, bæði hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra. Þau eru hvorug á landinu. Hér með er hv. þingmaður upplýstur um það.)

Ég þakka fyrir þær upplýsingar. Það er bagalegt en það má kannski spyrja hvort einhver gegni ekki embættum fyrir þessa hæstv. ráðherra úr því þeir eru úr landi farnir. Þá væntanlega er einhver af öðrum ráðherrum Samfylkingarinnar starfandi utanríkisráðherra eða starfandi félagsmálaráðherra í dag.

Mér finnst mjög slæmt, virðulegi forseti, að þessari umræðu ljúki öðruvísi en að sá sem ber ábyrgð á þessum málum fyrir hönd Samfylkingarinnar í dag, einhver sem er starfandi ráðherra á viðkomandi sviðum, gegnir fyrir hæstv. utanríkisráðherra og formann Samfylkingarinnar eða gegnir fyrir hæstv. félagsmálaráðherra, komi hér og svari þessari einföldu spurningu.

Hverju sætir það að Samfylkingin ætlar að láta frumvarpið fara í gegn svona? Með þessum laumufarþega, þessu smyglgóssi, sem á ekkert erindi inn í málið að öðru leyti, á að fella niður skyldu til að auglýsa störf innan Stjórnarráðsins, sem er mjög varhugavert ákvæði. Í umræðunum hafa verið færð fram mjög sterk rök gegn því og þetta gengur náttúrlega gjörsamlega á skjön við allt sem Samfylkingin vill í orði kveðnu hafa. Eða er það svo að ekkert sé að marka tal Samfylkingarinnar, t.d. um að hún vilji reyna að standa þannig að málum á vinnumarkaði að það bæti stöðu kvenna? Þetta er augljóslega mjög háskalegt ákvæði hvað það varðar. Enginn vafi er á því að fráhvarf frá auglýsingum á stöðum og gagnsæi í þessum efnum er háskalegt, hvað varðar t.d. möguleika kvenna á framvindu í starfi og að keppa þá að minnsta kosti á sæmilegum jafnræðisgrundvelli um stöður innan Stjórnarráðsins og ætli veiti nú af.

Þetta gengur gegn anda þeirrar hugsunar að menn eigi að standa jafnt að vígi. Það á alltaf að vera öllum ljóst ef stöður eru í boði og það er gert með auglýsingum, opinberum auglýsingum, ekki einhverju laumuspili innan Stjórnarráðsins eða einhverjum feluleik, eins og aðeins hefur borið á að menn hafi gert. Skotið inn auglýsingu í Lögbirtingablaðið sem fáir lesa til þess í raun að geta ráðið síðan næstum samstundis í stöðuna þá sem búið var að ákveða að fengju hana, eins og vill nú brenna við t.d. innan utanríkisráðuneytisins. Mér er nær að halda að ef þetta verður gert muni það miða við það sem praktíserað hefur verið þar á bæ heyra sögunni til, að stöður verði auglýstar t.d. í utanríkisráðuneytinu og munar þá um minna ef þessi leið verður farin. Því þar hefur nú því miður sá plagsiður viljað vera dálítið áberandi að skáka mönnum eftir öðrum leikreglum en þeim sem flokkaðar yrðu undir gagnsæi eða að menn vildu endilega tryggja að hæfustu einstaklingar í samfélaginu sem væru á lausu á vinnumarkaði á hverjum tíma og kynnu að hafa áhuga á starfinu, ættu kost á að fá það.

Virðulegi forseti. Er það svo að enginn sé hér sem gegnir fyrir Samfylkinguna og ráðherra hennar þannig að þeir geti komið í salinn?

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill upplýsa hv. þingmann um að hann hefur gert ráðstafanir til þess að fá staðgengil a.m.k. félagsmálaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, sem er hér í húsinu. Það er verið að sækja hann.)

Ég þakka fyrir þessi mikilsverðu tíðindi að hæstv. viðskiptaráðherra sé hér í húsinu og vonandi líður þá að því að hann komi í salinn og geti svarað þessari spurningu.

Rétt til að minna á það, virðulegi forseti, sem kemur fram í umsögnum BSRB sem birt er sem fylgiskjal með nefndaráliti minni hlutans, að þau samtök, stærstu heildarsamtök opinberra starfsmanna, leggjast alfarið gegn 3. gr. frumvarpsins sem felur í sér að afnumin verði sú skylda að auglýsa störf innan Stjórnarráðsins. BSRB varar við því að hróflað verði við auglýsingaskyldunni og telur mikilvægt að fólki séu gefin jöfn tækifæri til starfa og starfsframa innan Stjórnarráðsins. Þar er líka áréttað í áliti BSRB að þetta er gert, ekki bara til þess að tryggja jöfn tækifæri, heldur einnig til að hæfasti einstaklingur sem völ er á hverju sinni verði ráðinn til starfans. Jafnframt er minnt á að gagnsæi við ráðningar í störf sé mikilvægt og það dragi úr svigrúmi til ómálefnalegra vinnubragða við ráðningar.

Það er mikið í húfi. Einhvern tímann hefði maður nú haldið að á góðum degi gæti Samfylkingin tekið undir þetta, að mikilvægt væri að haga vinnulöggjöfinni þannig að hún væri sem gagnsæjust, að hún tryggði jöfn tækifæri og jafna möguleika og dragi úr svigrúmi fyrir ómálefnaleg vinnubrögð. Hvar er Samfylkingin? Hvar eru svör hennar við þeirri gagnrýni? Hvernig stendur á því að Samfylkingin ætlar að láta sig hafa það engu að síður að láta þetta frumvarp fara svona í gegn? Hvað segir formaður samtakanna 60 plús? Er hann sáttur við þetta? Ég spyr. (Gripið fram í: Gaman að heyra í þér.) Já.

Bandalag háskólamanna er með mjög hliðstæðar röksemdir í niðurstöðu sinni. Það sendir alþingismönnum bréf 12. júní og vitnar þar til samþykktar miðstjórnar samtakanna, með leyfi forseta, sem er svohljóðandi:

„Miðstjórn BHM varar eindregið við því að auglýsingaskylda starfa verði afnumin innan Stjórnarráðs Íslands. Miðstjórnin telur ekki að nein rök sé hægt að færa fyrir því að gefa Stjórnarráðinu þessa sérstöðu og telur jafnframt hættu á að þetta verði fyrsta skrefið til að afnema auglýsingaskyldu vegna starfa hjá hinu opinbera almennt.“

Er það kannski í vændum? Liggur á bak við sá vilji, sá áhugi, sú hugsun Sjálfstæðisflokksins, sem augljóslega ræður hér ferðinni einu og öllu? Því verður ekki trúað að óreyndu að Samfylkingin hafi barist fyrir þessu. Það verður að segja manni það tvisvar eða þrisvar. En hún ætlar samt að láta sig hafa það. Hún tekur við þessu eins og öðru frá Sjálfstæðisflokknum. Það er greinilegt. Hún tekur við þessu eins og kosningaloforði Sjálfstæðisflokksins um að horfa ekki til tekna eldri en 70 ára. Landsfundarsamþykktir Sjálfstæðisflokksins ganga inn í frumvörp ríkisstjórnarinnar og Samfylkingin kyngir því og fær ekkert annað af áherslumálum sínum í gegn.

Miðstjórn BHM bendir á að afnám auglýsingaskyldu getur reynst alvarlegt skref aftur á bak í réttindabaráttu opinberra starfsmanna, sérstaklega hvað varðar jafnréttismál. Hvar er jafnréttismálaráðherrann? Hvað segir hæstv. félagsmálaráðherra, starfandi félagsmálaráðherra um þessa gagnrýni, að þetta sé mjög varhugavert ákvæði sérstaklega hvað varði réttindabaráttu opinberra starfsmanna á sviði jafnréttismála?

Enn fremur segir:

„Miðstjórn bendir enn fremur á að þessi ráðstöfun gengur þvert á þá þróun sem stefnt hefur verið að varðandi gegnsæi í stjórnsýslu á Íslandi og lýsir undrun sinni á að reynt skuli að færa klukkuna aftur á bak á þennan hátt.“

Það er auðvitað það sem væri verið að gera. Þetta er skref aftur á bak en ekki áfram hvað varðar réttindi starfsmanna og alveg sérstaklega baráttu á jafnréttissviðinu og möguleika kvenna sem ekki veitir nú af að styrkja frekar en hitt til þess að standa jafnt að vígi í framvindu í starfi hjá hinu opinbera. Á að slá þennan tón?

Ég vil fá að heyra einhver svör Samfylkingarinnar við þeim rökum sem flutt eru hér af hálfu talsmanna heildarsamtaka opinberra starfsmanna. Ég vil fá útskýringar á því af hverju Samfylkingin stendur að frumvarpinu svona. Nema Samfylkingin hafi misst málið og enginn sem treysti sér til að svara fyrir hana. Þá er það auðvitað niðurstaða í sjálfu sér. Að meira að segja hinn vígreifi hv. þm. Helgi Hjörvar sem hefur nú hjólað hér upp að undanförnu ýmsa daga, sérstaklega þegar hann telur sig hafa færi á því að sparka í undirritaðan, þá hefur hann málið. En hvar er hann núna? Hvar er málið núna, hv. þm. Helgi Hjörvar? Hvar er málsvörn Samfylkingarinnar gagnvart þessu? Eru þetta þau samskipti við verkalýðshreyfinguna, við stéttarsamtökin, sem í vændum er af hálfu ríkisstjórnarinnar? Upphafið veldur miklu. Það segir sína sögu um hvað menn setja í forgang, fyrir hverju menn berjast, eða kannski öllu heldur fyrir hverju menn berjast ekki. Það segir kannski miklu meira um það sem menn eru ekki, þegar á hólminn er komið ef Samfylkingin lætur þetta yfir sig ganga og stendur að afgreiðslu frumvarpsins (Gripið fram í.) gegn mjög hörðum mótmælum stéttarfélaganna sem í hlut eiga.

Þykist ekki Samfylkingin samt vera týpískur norrænn krataflokkur sem vinni þétt með verkalýðshreyfingunni að hagsmunamálum hennar og baráttumálum og standi á réttindum hennar? Einhvern tímann hefði maður haldið það en það fer lítið fyrir því að því er virðist. (Gripið fram í.)

Ég held að ég geti ekki hamrað betur á þessu, frú forseti, en ég hef gert. Ég hef komið spurningum mínum á framfæri. Það er búið að gera Samfylkingunni viðvart um að við óskum eftir að heyra svör hennar. Ég bíð líka spenntur eftir að heyra hvað hæstv. forsætisráðherra segir um það sem ég fór yfir í upphafi ræðu minnar og hvernig hann lítur á bæði eigin arfleifð og ekki síður fyrrverandi foringja þeirra sjálfstæðismanna, Bjarna Benediktssonar, í þessum efnum og hverju þessi nýju vinnubrögð sæta. En auðvitað dreg ég ekki menn í ræðustólinn með handafli. Þeir verða að vilja það sjálfir ef þeir telja sig hafa einhverja málsvörn. Ef þeir hafa hana ekki og kjósa að þegja þá er það líka niðurstaða í sjálfu sér.