134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[15:27]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú óþarfi hjá hv. þingmanni að vera að gera lítið úr þeim svörum sem ég hef borið hér fram, það var gert með málefnalegum hætti og í samræmi við þá sannfæringu og skoðun sem ég hef á þessu máli.

Ég get ómögulega séð að þetta geti bitnað frekar á konum en körlum ef út í það er farið. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af að konur gjaldi fyrir þá breytingu á lögunum sem nú er verið að gera. Ef einhver geldur fyrir hana bitnar það jafnt á báðum kynjum, geri ég ráð fyrir.

Ég vek athygli hv. þingmanns á því að í raun og veru er sannleikurinn sá að hvort sem starfið er auglýst eða ekki hefur verið tiltölulega auðvelt í praxís að ráða það fólk sem menn vilja kannski að eigin geðþótta hafa í starfinu. Hver þekkir ekki þá aðferð að þegar starf losnar er einhverjum boðið að taka við því í eitt ár eða svo og svo er það auglýst? Ég meina, þetta er einfaldur leikur fram hjá öllum leikreglum.

Við verðum að horfast í augu við þessar staðreyndir meðfram því sem við tölum um breytingar á lögunum og átta okkur á því að eitt er kannski lög og annað er framkvæmd þeirra. Ég held að sú breyting sem nú á sér stað þurfi ekkert að leiða eitthvað verra af sér en núgildandi lög hafa gert í raun og veru.