134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[15:37]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur spurt mig um nokkur atriði varðandi 3. gr. frumvarpsins. Ég vil byrja á að taka það fram að markmiðið með þessari grein er nú síst af öllu það að draga úr möguleikum kvenna til að ná framgangi í Stjórnarráðinu eða bregða fæti fyrir eðlilega þróun í jafnréttisátt á þeim vinnustað. Það er auðvitað alveg fráleitt að gera því skóna.

Markmiðið með þessari breytingu er að auka hreyfanleika innan Stjórnarráðsins, gera starfsmönnum kleift að afla sér starfsreynslu á fleiri en einum stað innan Stjórnarráðsins og líta á Stjórnarráðið sem einn og sama vinnustaðinn að þessu leyti til. Ég held að allir geti verið sammála um að það sé til góðs og mér þykir miður hvað búið er að gera mikið veður út af þessu máli.

Ég sé það á umsögnum að bæði BSRB og BHM hafa tekið mjög einarða afstöðu gegn þessu. Ég tel að sú afstaða sé á misskilningi byggð. Við munum auðvitað fara yfir þá reynslu sem af þessu fæst, ef þessi frumvarpstexti verður að lögum, og fylgjast með því hvort þetta gefur góða raun eða ekki.

Þeirri breytingartillögu sem kemur frá meiri hluta allsherjarnefndar er auðvitað ætlað að koma til móts við gagnrýni sem fram hefur komið á þetta, þannig að forsætisráðherra setji reglur um hvernig haga eigi auglýsingum innan Stjórnarráðsins um laus störf og önnur atriði sem varða þetta mál. Hvenær slíkar reglur taka gildi er ekki ákveðið en vonandi getur það orðið hið fyrsta og eigi síðar en um áramót.