134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[15:41]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands og sérstaklega um 3. gr. þess, sem fjallar um hvernig haga skuli mannaráðningum innan Stjórnarráðsins. Það er verið að skapa þá hugsun og hefð að litið verði á Stjórnarráðið sem einn vinnustað og horfa til þess að fólk sem lengi hefur starfað í ráðuneytunum hefur aflað sér reynslu, ekki endilega kannski mikillar háskólamenntunar og hárra gráða, en engu að síður öðlast menntun og reynslu í störfum sínum. Að minni hyggju er með frumvarpinu horft til þessa fólks og því gefið tækifæri á framgangi í starfi.

Við höfum orðið vör við að menn horfa mikið á hversu margar gráður og mörg próf menn hafa. Það hefur oft verið á kostnað þeirra sem hafa aflað sér menntunar og reynslu með vinnu sinni og eljusemi í störfum. Við höfum oft horft upp á í slíkt í samfélaginu þegar störf eru auglýst, að þá er oft einhver tekinn utan úr bæ, sem er kannski með einhverja svakalega flotta og glæsilega háskólagráðu og hann á að fá starfið af því að hann telst hæfastur, af því að hann hefur svo mikið af doktorsprófum og slíku. Menn horfa þar með fram hjá þeim aðila sem mikið hefur lagt á sig í vinnu og þjónustu fyrir viðkomandi stofnun, en hann getur því miður ekki komist að af því að hann hefur ekki tilskilin próf eða slíkt að mati ýmissa.

En samfélagið er því miður þannig þó við köllum eftir jafnrétti og réttlæti í alls konar stofnunum. Hvernig er það í stjórnmálaflokkum þegar verið er að raða t.d. á lista? Hvernig fara menn í það? Er handraðað, fá flokksfélagar almennt að taka þátt í því hvernig raðað er á listana eða er það fámenn klíka sem ákveður þetta? Auðvitað er gott að þessi umræða skuli fara fram, við eigum náttúrlega að vera vakandi í þessu öllu saman. Hvernig er það þegar fólk er valið í nefndir eða til að vera fulltrúar tiltekins hóps? Það er vandinn sem við stöndum frammi fyrir í þessu samfélagi, þ.e. réttlætið og hvernig á að gera þessa hluti.

Fjöldi fólks hefur unnið ákveðinn tíma í ráðuneytunum og sér að það er laus staða. Þá fer viðkomandi að hugsa: Það væri nú gott fyrir mig að komast í þessa stöðu en ég á enga möguleika af því að það eru svona og svona reglur sem ákveða hæfi manna. Þess vegna get ég ekki fengið starfið af því að ég hef bara verið að vinna þessa vinnu. Við verðum líka að horfa á þetta með jákvæðum augum, með tilliti til þeirra sem hafa verið að vinna störfin og hafa lagt hart að sér.

Ég geri ráð fyrir því að fólkið sem vinnur í ráðuneytunum hér á landi sé bara venjulegt íslenskt, heiðarlegt fólk og njóti einhver þess að fá flutning í starfi úr landbúnaðarráðuneytinu yfir í viðskiptaráðuneytið eða öfugt þá losnar staða viðkomandi einnig, sem maður gerir ráð fyrir að yrði auglýst. Ekki hugsum við dæmið þannig að allir sem starfa í Stjórnarráðinu eigi eftir að starfa þar til eilífðar, það losna náttúrlega stöður, fólk eldist og hættir að starfa, fer annað o.s.frv. Þetta er ekki lokaður hringur sem einhver einn ráðherra stjórnar þannig að þessi þarna og þessi þarna. Hér er einfaldlega verið að gefa ráðherra heimild, eða þeim sem stjórnar, til að flytja fólk til í starfi á jákvæðan hátt. Ég lít þannig á þetta.

Við lögðum reyndar til að bætt yrði við greinina, við frumvarpið, að störfin yrðu auglýst innan Stjórnarráðsins til að fá meira gagnsæi. Auðvitað er best að réttlætið ráði. Við skulum bara skoða það þegar verið er að auglýsa stöður hvar sem er. Svo segja sumir: Af hverju fékk ekki sá hæfasti starfið? Svo fara menn að ræða: Hver er sá hæfasti? Er það sá sem hefur besta prófið? Er það sá sem er búinn að starfa lengst? Er það karl eða er það kona? Svona má lengi spyrja.

Ég mun greiða atkvæði með frumvarpinu á þeim forsendum sem ég hef verið talað um. Ég lít á að þetta sé fremur möguleiki fyrir fólk innan ráðuneytisins til að komast áfram og fá jákvæðan framgang frekar en að þetta sé hugsað til þess að hæstv. ráðherra ætli að beita kúgunarvaldi til þess að ráða vini og vandamenn. Það er alltaf hægt að og er ekki hægt að gera það hvort sem er, hvort sem það er auglýst eða ekki?