135. löggjafarþing — þingsetningarfundur

minning Jónasar Jónssonar.

[14:31]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Jónas Jónsson, fyrrverandi alþingismaður og búnaðarmálastjóri, andaðist 24. júlí, sjötíu og sjö ára að aldri.

Hann var fæddur í Ystafelli í Köldukinn 9. mars 1930. Foreldrar hans voru hjónin Jón Sigurðsson bóndi þar, rithöfundur og skólamaður, sonur Sigurðar Jónssonar, alþingismanns og ráðherra, og Sigfríður Helga Friðgeirsdóttir húsmóðir.

Jónas lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1952, búfræðiprófi frá Hólum 1953 og kandídatsprófi frá landbúnaðarháskólanum á Ási í Noregi 1957. Eftir það stundaði hann framhaldsnám við breskar jurtakynbótastöðvar og háskóla 1961–1962. Jónas vann í Gunnarsholti sumrin 1960–1963, var kennari við bændaskólann á Hvanneyri 1957–1963, sérfræðingur við Rannsóknastofnun landbúnaðarins í Reykjavík 1963–1966 og jarðræktarráðunautur Búnaðarfélags Íslands 1966–1971, starfsmaður Búnaðarfélagsins sem ritstjóri 1974–1980 og búnaðarmálastjóri 1980–1995.

Jónas Jónsson varð ungur að árum áhugasamur um stjórnmál og gekk til liðs við Framsóknarflokkinn. Hann var í framboði fyrir flokkinn í Norðurlandskjördæmi eystra 1967 og 1971 og aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra 1971–1974. Við fráfall Gísla Guðmundssonar alþingismanns í nóvember 1973 varð Jónas Jónsson þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra og sat á því þingi uns það var rofið 9. maí 1974. Áður hafði hann tekið sæti sem varamaður á árunum 1969 til 1973 og sat samtals á fimm þingum. Jónas Jónsson átti sæti í mörgum nefndum og stjórnum á sviði landbúnaðarmála sem hann var ýmist kjörinn til eða skipaður í eftir að hann kom heim frá námi og hóf að nýta þekkingu sína íþágu íslensks landbúnaðar. Það verður ekki talið hér. Áhugi hans beindist í margar áttir en landnýting og landgræðsla skipuðu þar stóran sess. Hann var í forustu Skógræktarfélags Íslands um áratugaskeið og formaður þess 1972–1981. Jónas var ritfær og afkastamikill við ritstörf. Hann ritstýrði meðal annars og var aðalhöfundur að sögu æðarræktar á Íslandi og vann ásamt fleirum síðustu árin að samningu heildarrits um sögu íslensks landbúnaðar frá öndverðu til okkar tíma. Jónas Jónsson var af þingeyskum bændum kominn langt aftur í ættir og æskuslóðir hans voru þar sem vagga samvinnuhreyfingarinnar stóð. Þeim hugsjónum, sem þessari arfleifð tengdust, var hann trúr til hinstu stundar.

Ég bið þingheim að minnast Einars Odds Kristjánssonar alþingismanns og Jónasar Jónssonar fyrrverandi alþingismanns með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]

 

[Strengjakvartett flutti lagið Ísland ögrum skorið. ]