135. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:51]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Góðir áheyrendur. Stefnuræða forsætisráðherra var að mínu mati afskaplega flöt. Sumir hefðu orðað það þannig að hún væri rýr í roðinu eða jafnvel snautleg. Hafi ég tekið rétt eftir sagði forsætisráðherra meira í Valhöll en hér á þingi. Við upplifum mjög skýrt að þenslan og tekjur henni samfara eru þenslutekjur og auka tekjur ríkissjóðs. Í Stór-Reykjavík er byggt sem aldrei fyrr. Hagkerfi Stór-Reykjavíkur er allt annað en landsbyggðar að undanskildu Miðausturlandi nú um stundir. Bygging tónlistar- og ráðstefnuhúss fyrir 13–14 milljarða þykir engin sérstök atvinnuaðgerð í Reykjavík, en smáverk úti á landi telja menn sértæk verkefni fyrir landsbyggðina, jafnvel nauðsynlegar vegaframkvæmdir.

Hin svokallaða frjálslynda umbótastjórn setti sér markmið 23. maí sl. Þar sagði meira en í þeirri stefnuræðu sem hér var flutt, m.a. þetta í fyrstu málsgrein stjórnarsáttmálans, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að jafnrétti í reynd verði leiðarljós í allri stefnumótun hennar og stefnir að því að skapa jöfn tækifæri allra landsmanna, óháð kyni, búsetu, uppruna og félagslegri stöðu. ... Hún mun vinna að víðtækri sátt í samfélaginu um aðgerðir á sviði efnahags- og félagsmála, um náttúruvernd og auðlindanýtingu og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Ríkisstjórnin mun leitast við að eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi og standa vörð um sjálfstæði Alþingis og eftirlitshlutverk þess.“

Þessi orð voru úr stjórnarsáttmálanum.

Þingmenn Frjálslynda flokksins munu veita ríkisstjórninni aðhald með málflutningi sínum og ef þessi markmið sem ég vitnaði til úr stjórnarsáttmálanum, en forsætisráðherra nefndi ekki í ræðu sinni, verða flutt inn í Alþingi kann að fara svo að frjálslyndir og ríkisstjórnin verði samstiga í sumum málum.

Þingflokkur Frjálslynda flokksins fylgir eftir stefnu sinni og áherslum nú í upphafi 135. þings með eftirfarandi málum:

Þingmenn Frjálslynda flokksins hafa af því miklar áhyggjur að enn frekar dragi í sundur í lífskjörum milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins vegna þeirrar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra að fara algjörlega að tillögu fiskifræðinga og skera niður í 130 þús. tonna þorskafla. Fyrir þessari furðulegu niðurstöðu eru ekki haldbær rök að okkar áliti.

Í svokölluðum mótvægisaðgerðum ríkisstjórnar, þótt viðleitni sé, er alls ekkert sem bætir fyrir þá röngu ákvörðun gagnvart sjávarbyggðunum að skera þorskaflann niður um 60 þús. tonn. Sjómenn og fiskverkafólk eru sniðgengin. Í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu okkar að auka þorskaflann um 40 þús. tonn eru rakin ýmis fiskifræðileg rök fyrir því að Alþingi ákveði að auka þorskaflann á yfirstandandi fiskveiðiári, auk þess sem sagt hefur verið um að verja þurfi lífskjör fólks á landsbyggðinni og stöðva fólksfækkun þar með markvissum aðgerðum.

Kvótakerfið sjálft sem stelur atvinnuréttindum fólksins er algjörlega óásættanleg framtíð og í algjörri andstöðu við lög sem segja að tryggja skuli trausta atvinnu og byggð í landinu skv. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Um það þjófamark verður aldrei sátt sem rænir fólkið lífsbjörginni.

Það næsta sem virðist blasa við í eignarhaldi auðlinda að óbreyttu er vatnið og orkuréttindin. Frjálslyndi flokkurinn mun ekki ljá þeirri stefnu lið að færa þau verðmæti á fárra manna hendur eða til erlendra auðmanna. Þjóðin getur ekki látið ræna sig verðmætum sínum. Auðlindir okkar eiga að vera fyrir fólkið sem byggir þetta land. Aðgengi okkar og sameignarréttur á m.a. að tryggja hér góð lífskjör og jöfn tækifæri.

Styrkir það byggðir landsins að greiða fólki fé fyrir að flytja þaðan? Svarið hlýtur að vera nei. Nær væri að jafna lífskjörin, m.a. með því að lækka flutningskostnað og orkuverð ásamt því að leggja akfæra heilsársvegi. Við leggjum til að launamenn sem kosta miklu til í ferðalög til atvinnusóknar fái að draga þann kostnað frá tekjum áður en skattar eru lagðir á atvinnutekjur þeirra. Það eykur rauntekjur launafólks og er raunhæf aðgerð til betri afkomu.

Þingmenn Frjálslynda flokksins hafa einnig lagt til breytingar á lögum um almannatryggingar, að atvinnutekjur maka skerði ekki bætur, og einnig að séreignarsparnaður lífeyrisþega skerði ekki fjárhæð bóta og að atvinnutekjur elli- og örorkulífeyrisþegans skerði ekki bætur hans.

Að þessu uppfylltu væri viðmiðunaraldur færður úr 70 árum, eins og samþykkt var í vor, niður í 67 ár, sem sagt að allir sætu við sama borð í þessum efnum. Við leggjum til að Alþingi álykti að fela viðskiptaráðherra að leita leiða til að koma skipan á lánamál til húsnæðislána og lán til neytenda í svipað horf og annars staðar á Norðurlöndunum þannig að verðtrygging verði afnumin og samkeppni á lánamarkaði fyrir neytendur tryggð, gjaldtaka lánastofnana verði svipuð og annars staðar á Norðurlöndunum og að láta fara fram skoðun á því hvað veldur því að lánakjör til neytenda eru óhagstæðari á Íslandi en annars staðar í okkar heimshluta.

Ítrekað hefur komið fram í samanburðarkönnunum milli Íslands og hinna Norðurlandaþjóðanna á lánakostnaði einstaklinga og fjölskyldna að kostnaður einstaklinga og fjölskyldna hér á landi er til muna hærri en gerist í okkar heimshluta. Þar munar mestu um að við höfum sérstaka verðtryggingu sem miðast við tilbúna reiknieiningu, vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Áfallinni vísitölu er bætt við höfuðstól lánanna samkvæmt ákveðnum reglum og vextir eru ekki línulegir, heldur miðaðir við uppfærða vísitölu á gjalddaga. Kostnaður lántakenda hér á landi við endurgreiðslu lána er til muna hærri en annars staðar á Norðurlöndunum.

Ljóst er miðað við skuldastöðu heimilanna í dag að miklir erfiðleikar verða innan skamms tíma vegna ofurvaxta lánastofnana og verðtryggingar sem veldur því að lánakjör eru hér mjög óhagstæð.

Við viljum að frelsi til handfæraveiða á eigin bát verði leyft frá apríl til október og að fisktegundum bundnum í kvóta verði fækkað sem fyrst svo að atvinnufrelsi aukist við fiskveiðar.

Kjarasamningar verða lausir um áramót og alls ekki er fyrirséð hvernig þeim málum verður ráðið til lykta. Láglaunafólk vill eðlilega kjarabætur eins og aðrir.

Harðar deilur hafa verið um fjárreiður ríkisins og heimildir fjármálaráðherra í þeim efnum. Deilurnar um Grímseyjarferjuna sýna að margt má bæta í verkferlum hjá því opinbera og í meðferð fjárheimilda. Við í Frjálslynda flokknum leggjum til að 33. gr. laga um fjárreiður ríkisins verði felld brott. Öllum ætti að vera ljóst að óbreytt ástand er ekki á vetur setjandi.

Þingmenn Frjálslynda flokksins leggja til að sérstakur persónuafsláttur verði tekinn upp og tryggi að þeir sem hafa minni tekjur en 1,8 millj. kr. í árslaun greiði hvorki tekjuskatt né útsvar. Hér er sérstaklega hugað að því að bæta hag lágtekjufólks, aldraðra og öryrkja með minna en 150 þús. kr. í mánaðarlaun.

Góðir áheyrendur. Athugun okkar þingmanna Frjálslynda flokksins á tillögum Hafrannsóknastofnunar til margra ára, allt frá svörtu skýrslunni 1973, hefur leitt í ljós að á nokkurra ára fresti síðan þá er komið með tillögur þaðan um hrun í þorskstofnum okkar. Þess á milli er lagður til aukinn þorskafli. Nú eru Hafró-menn í einu svartsýniskastinu án þess að hrun sé yfirvofandi eins og ráðherrar vilja vera láta. Aðgerðir sjávarútvegsráðherra vega að grunni byggðar í landinu og búa til enn frekari samþjöppun kvótans á fáar hendur. Hverjir skyldu vilja það? Er það einnig stefna Samfylkingarinnar? Eða var þörf á þessu til þess að finna rök fyrir því að auka enn á þenslu á Stór-Reykjavíkursvæðinu og e.t.v. stóriðju á suðvesturhorninu? Hvað gengur stjórnarliðum til í raun? Vilja menn borgríki? Er það framtíðarsýnin sem núverandi ríkisstjórn horfir til? Ég vænti þess að svo sé ekki, hæstv. forseti, ég vænti þess að menn vilji halda öllu landinu í byggð og tryggja kjör fólks í þessu landi á sem jafnastan hátt. — Góðar stundir.