135. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:07]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Forsætisráðherra hefur boðað okkur betri tíð með blóm í haga. Nægir peningar í ríkiskassanum, 30 milljarðar sem flóa þar út yfir á næsta ári, 30 milljarðar umfram þarfir, afgangur er það kallað. Og skuldirnar eru minni en í öðrum OECD-ríkjum og minni en annarra Evrópuríkja. Á sama tíma er upplýst að tveir Íslendingar hafa nú sett Norðurlandamet. Þeir voru hæst launuðu stjórnendur hlutafélaga á Norðurlöndunum öllum og var hvor um sig með um 800 millj. ísl. kr. í árslaun. Næstur á eftir þeim kom forstjóri símarisans Nokia og var hálfdrættingur á við þá félaga.

Ef aðeins er litið á þessar staðreyndir mætti ætla að fréttir af kreppunni í samfélagsþjónustunni og af atvinnubrestinum í byggðunum væru frá einhverju allt öðru landi, einhverju landi sem er langt utan Evrópu og alla vega langt utan OECD, en því er ekki svo farið. Þrátt fyrir mikinn tekjuafgang ríkissjóðs og hagstæða skuldastöðu er samfélagsþjónustan í svelti. Hvert sem litið er blasir við mannekla, atgervisflótti og ómanneskjulegt álag á stundum. Fjölmiðlarnir flytja okkur daglega fréttir þessu til staðfestingar. Börn á leikskólum eru send heim, sjúkradeildum er lokað, spítalagangarnir eru fullir af rúmliggjandi sjúku fólki, sérhæft starfsfólk í skólunum er tekið úr sínum starfa og sett í bekkjarkennslu, biðlistar eftir félags- og heilbrigðisþjónustu lengjast og lengjast, veikt fólk veigrar sér við að leita til læknis og kaupa lyf vegna kostnaðar. Þetta er Ísland í dag. Verkamaðurinn er nú 50 ár að vinna sér inn mánaðarlaun forstjórans og bráðum 60 því að kaup forstjóranna tveggja hafði hækkað um 1.600% á fjórum árum meðan meðallaunin í landinu hækkuðu um 21%. Bilið breikkar, misskiptingin vex.

Hvað er það sem veldur? Ég vil nefna hér tvennt. Það er kynjamisréttið annars vegar og markaðshyggjan hins vegar. Kynbundinn launamunur er meiri á Íslandi en í nálægum ríkjum. Nýjasta dæmið er um 30 þús. kr. aukagreiðslu sem hefðbundin karlastétt lögreglumanna fékk á dögunum vegna aukins álags og manneklu. Ég er ekki að gagnrýna þá hækkun, lögreglumenn eru vel að henni komnir en ég vil benda á hverjum er ætlað að sitja hér utan garðs. Það eru kvennastéttirnar, það eru hjúkrunarfræðingarnir, það eru sjúkraliðarnir og það eru umönnunarstéttirnar sem á undanförnum árum hafa mátt búa við vaxandi álag og svo mikla manneklu að hundruð stöðugilda eru ómönnuð í þessum störfum. Félag hjúkrunarfræðinga hefur fengið blákalt nei frá heilbrigðisráðherra, bæði fyrrverandi og núverandi, við sanngjörnum kröfum sínum um aukagreiðslu samkvæmt þessum sama kjarasamningi. Þetta er lýsandi dæmi fyrir það kynjamisrétti sem viðgengst á Íslandi, störf hefðbundinna kvennastétta eru enn ekki metin að verðleikum þegar til launanna kemur.

Menn reiða sig á ábyrgðarkennd kvenna, treysta því að þær yfirgefi ekki sökkvandi skip, hlaupi ekki út frá veikum sjúklingi, að þær lagi sig að aðstæðum, var nefnt hér áðan. En svo lengi má brýna deigt járn að bíti. Umönnunarstéttir á Íslandi, skipaðar konum upp til hópa, hafa fengið nóg og það er skýringin á því að svo marga vantar til starfa í þessi dýrmætu störf í samfélagi okkar. Það þolir enga bið að hækka grunnlaunin í samfélagsþjónustunni, á sjúkrahúsunum, á öldrunarstofnunum, í skólunum og í leikskólunum. Öðruvísi verður hvorki hægt að kalla aftur til starfa það sérfróða og reynda starfsfólk sem þegar hefur horfið til annarra verkefna né heldur laða að ungt fólk sem nú er að ljúka námi í þessum greinum.

Herra forseti. Það var ekkert um þetta að finna í stefnuræðu forsætisráðherra sem talaði samt um heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Þess í stað boðar hann lækkun skatta á þá sem betur mega sín og fyrirtækin. Þegar forsætisráðherra boðar jafnframt víðtækar breytingar í heilbrigðismálum í ætt við stefnu Sjálfstæðisflokksins, eins og það var orðað, þá vitum við hvað það þýðir: Enn frekari markaðsvæðingu og aukna misskiptingu.

Við vinstri græn segjum: Nú er lag. Það á að nýta tekjuafgang ríkissjóðs til þess að bæta heilbrigðisþjónustuna en ekki brytja hana niður í búta og bjóða út á markað fyrir fjárfesta til þess að græða á. Það eru nógir peningar í þessu landi, meira að segja Morgunblaðið er búið að átta sig á því og um það fjallar leiðari blaðsins einmitt í dag. Það er lag að bæta almannaþjónustuna og það þarf að ljúka því verki sem hófst 1961 með setningu laga um jöfn laun karla og kvenna.

Herra forseti. Eitt það versta við myndun þessarar ríkisstjórnar var að Samfylkingin skyldi afhenda Sjálfstæðisflokknum heilbrigðisráðuneytið. Það er ljóst að forsætisráðherra býst ekki við mikilli andstöðu við áform sín úr þeirri átt, því miður. En þeim mun meiri verður andstaðan að vera hér innan þings hjá stjórnarandstöðunni á þinginu og líka hjá ykkur sem haldið uppi samfélagsþjónustunni í landinu. Við vinstri græn heitum liðsinni okkar í varðstöðu um velferðarsamfélagið á sama tíma og við munum auðvitað veita öllum góðum málum brautargengi. — Góðar stundir.