135. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:14]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, Þingvallastjórnin, hefur setið sitt fyrsta sumar og nú þegar er farið að gæta áhrifa jafnaðarmanna og jafnaðarstefnunnar á stjórn landsmála, ekki síst í velferðarmálunum. Endurreisn velferðarþjónustunnar er forgangsmál okkar í hinu nýja ríkisstjórnarsamstarfi.

Tryggja verður jafnræði í heilbrigðisþjónustunni og jafnan aðgang allra að góðri þjónustu óháð efnahag, eins og hæstv. forsætisráðherra lagði áherslu á í máli sínu. Stytta þarf biðlista verulega eftir hjúkrunarrými, eftir aðgerðum á spítölum, eftir úrræðum fyrir geðsjúka og geðfatlaða svo eitthvað sé nefnt. Samfylkingin lagði ríka áherslu á velferðarmálin í kosningunum í vor, við lögðum fram vandaða og vel útfærða barnastefnu, Unga Ísland, sem varð hluti af stjórnarsáttmálanum. Strax á sumarþinginu var samþykkt aðgerðaáætlun í málefnum barna og hefur félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, fylgt henni vel eftir í sumar, m.a. með fjárveitingum til barna- og unglingageðdeildarinnar og til Greiningarstöðvarinnar svo að eyða megi þeim óviðunandi biðlistum sem hrannast höfðu upp.

Nýlega var mikil umræða um hið mikla óréttlæti sem gætir í afstöðu hins opinbera til foreldra langveikra barna. Lagasetningin um greiðslur til þeirra síðastliðinn vetur var verulega óréttlát svo ekki sé meira sagt, lögin mismunuðu foreldrum þannig að ef börn þeirra höfðu greinst alvarlega veik fyrir tiltekinn tíma var stuðningurinn enginn. Lýsing á stöðu foreldra við þær aðstæður kom vel fram á dögunum í Morgunblaðsgrein móður sem missti litla dóttur sína eftir langvarandi veikindi nú í sumar. Hún féll ekki undir lögin með barnið sitt og hvatti til breytinga á þeim svo aðrir foreldrar þyrftu ekki að búa við sömu aðstæður. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra brást strax við og hefur boðað frumvarp til breytinga á þessu óréttlæti nú í upphafi þings.

Í síðustu viku sat ég áhrifaríkan fræðslufund Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna þar sem móðir lýsti þrautagöngu sinni og eiginmanns síns með alvarlega veikt barn og tvö eldri systkini þess. Þar kom svo sterkt í ljós hve dyggur stuðningur við foreldrana er mikilvægur á meðan á veikindum barna þeirra stendur. Ekki síður þarf að huga að stuðningi eftir langvarandi veikindi barna, margs konar eftirköst koma fram síðar hjá börnunum sjálfum, foreldrum þeirra og systkinum eins og móðirin lýsti svo vel. Velferðarkerfi sem ekki styður við fjölskyldur langveikra barna á erfiðum tímum er að bregðast þeim sem síst skyldi. Á því viljum við ráða bót.

Málefni lífeyrisþega voru í brennidepli í kosningunum í vor. Nú eru í undirbúningi ýmsar breytingar í þá veru að auka þjónustu og stuðning við þá. Farið verður í löngu tímabæra endurskoðun á almannatryggingunum í heild til að gera kerfið einfaldara og réttlátara. Það er eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar á næsta ári að endurreisa þær svo að almannatryggingarnar geti staðið undir nafni sem ein meginstoð velferðarþjónustunnar í landinu.

Endurskoðunin er vandasamt verk. Reglurnar verða að vera skýrar svo að öllum sé ljós réttur sinn. Kerfi sem aðeins örfáir skilja, eins og kerfið er nú eftir fjölmargar bútasaumsbreytingar, stendur vart undir velferðarnafninu. Lagabálkurinn er eins og gatslitin og stagbætt flík enda ekki verið endurskoðaður heildstætt í áratugi. Nú eru reglurnar svo flóknar og oft óréttlátar að lífeyrisþegi getur tapað hundruðum þúsunda kr. á ári ef hann bætir kjör sín um nokkrar krónur. 68 ára gamall maður sem tók að sér létt verk fyrir kunningja sinn og fékk fyrir það 10 þús. kr. missti allar greiðslurnar frá Tryggingastofnun sem hann hefði fengið áfram hefði hann ekki tekið að sér þetta viðvik, grunnlífeyririnn féll og þá féllu allir aðrir tengdir bótaflokkar. Svona eru reglurnar orðnar galnar og þeim verður að breyta.

Hæstv. forseti. Ég get ekki lokið máli mínu án þess að ræða hér stuttlega um málefni sem mér eru mjög hugstæð, stöðu geðsjúkra og geðfatlaðra. Átaksverkefni í málefnum geðfatlaðra var sett á laggirnar í kjölfar sölu Símans til þess að rétta hlut þeirra sem höfðu algjörlega setið eftir í þjónustu og búsetu. Ástandið í málaflokknum hefur hindrað eðlilega útskrift á geðdeildum og bitnað á þeim sem hafa lokið meðferð og endurhæfingu og eru fastir inni á stofnunum. Nú þegar hefur átakið breytt stórkostlega lífi þeirra sem komist hafa í eigið húsnæði og þjónustu vegna þess, en þeir eru enn of fáir. Átaksverkefnið er mikilvægt en stuðningur við þennan hóp verður að vera samfelldur eins og við aðra sem þurfa stuðning velferðarþjónustunnar. Inni á geðdeildum dvelja enn tugir manna við takmörkuð lífsgæði, sem hægt væri að útskrifa út í lífið með stuðningi og nægum úrræðum.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Það er verk að vinna í velferðarmálunum og ég treysti þessari ríkisstjórn til þess að skila þeim farsællega í höfn. — Góðar stundir.