135. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:41]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Forseti Alþingis. Góðir Íslendingar. Ég ætla ekki að halda því fram að ný ríkisstjórn vilji ekki vel á ýmsum sviðum. Ég kem til með að styðja aðgerðaáætlun í málefnum barna, endurreisn almannatryggingakerfisins, ýmis góð áform í húsnæðismálum svo fremi að góð markmið ríkisstjórnarinnar náist og að við sjáum að hugur fylgi máli. Við vinstri græn munum styðja þessa ríkisstjórn til góðra verka en við munum líka veita henni aðhald þegar hún lendir á röngu spori og á villigötum. Mér segir svo hugur að í nokkuð mörgum málum geti orðið þörf fyrir aðhald okkar.

Mun ríkisstjórnin t.d. af alvöru takast á við kynbundinn launamun á þessu kjörtímabili — Sjálfstæðisflokkurinn sem var nú ekki hlynntur jafnréttisfrumvarpi nefndarinnar sem Guðrún Erlendsdóttir stýrði í fyrra? Koma heyrnarlausir til með að fá aðgang að samfélaginu, aukinni túlkaþjónustu eða aukinni textun í sjónvarpi? Mun ríkisstjórnin takast á við neyðarástandið sem ríkir í fangelsismálum, setja fjármuni í nýtt fangelsi á Hólmsheiði? Eða mun hún einungis finna fjármuni til þess að byggja upp ígildi hers undir verndarvæng ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar?

Verða störf kennara — sem við ætlumst til að ali upp börnin okkar af því að við höfum ekki tíma til þess, við erum upptekin við annað — metin að verðleikum og munum við sjá það í komandi kjarasamningum? Eða störf umönnunarstéttanna á sjúkrahúsunum og í þjónustu við aldraða? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að tryggja velferð þeirra sem lögðu grunninn að því samfélagi sem fóstrar okkur í dag? Hvernig ætlum við að þakka því fólki fyrir þrautseigjuna og fórnfýsina?

Verður gripið til raunhæfra aðgerða varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, verður dregið úr losun? Það mátti skilja á máli hæstv. utanríkisráðherra hér áðan að slíkt væri í bígerð. Ekki seinna vænna, góðir Íslendingar, að gripið sé í taumana því að um þessar mundir losum við Íslendingar sem nemur tólf tonnum af koltvísýringi á ári á mannsbarn. Það er sennilega ívið meira en meðaltalið í Evrópusambandinu og þegar búið verður að gangsetja álverið í Reyðarfirði verðum við komin upp í 17 tonn, langt yfir Evrópumeðaltalið.

Hvað með eignarréttinn á vatninu? Verða vatnalögin afnumin og verður komið í veg fyrir að vilji orkufyrirtækjanna nái fram að ganga varðandi eignarhald auðlindanna eða umráðaréttur vatnsauðlindanna færður yfir til iðnaðarráðuneytisins? Það vilja orkufyrirtækin, þau telja ekki nauðsynlegt að hitaveiturnar okkar séu háðar einkaleyfum og þau sjá engan tilgang í því að þær séu í meirihlutaeign sveitarfélaganna. Samtök atvinnulífsins telja veiturnar okkar vera einkaréttarlegs eðlis og ekkert sem mæli gegn því að einkaaðilar hafi alla þessa þætti á sinni könnu.

Góðir Íslendingar. Veruleg hætta er á því að þessi ríkisstjórn feti braut forkólfanna í atvinnulífinu, talsmanna einkaeignarréttar á náttúruauðlindum. Við vinstri græn munum koma til með að berjast af hörku fyrir því að auðlindir þjóðarinnar verði áfram í eigu þjóðarinnar og að það teljist áfram til samfélagslegrar þjónustu að sjá almenningi fyrir neysluvatni, fyrir rafmagni og fyrir hita.

Tekist er á um auðlindanýtingu og hnattvæðingu úti um allan heim. Eignarhald á auðlindum og ásókn stórfyrirtækja í auðlindir er harðlega gagnrýnd alls staðar. Stórfyrirtækin keppast við að grænþvo sig með því að ná eignarhaldi á endurnýjanlegum orkugjöfum. Við þekkjum dæmin. Við þekkjum dæmið um Hitaveitu Suðurnesja, sölu hluta ríkisins í hitaveitunni, sem mátti ekki selja til fyrirtækja eða aðila sem voru í opinberri eigu heldur bara til einkaaðila. Við þekkjum dæmið um vatnsréttindin í Þjórsá. Við vitum að fyrri ríkisstjórn afhenti Landsvirkjun 93% vatnsréttindanna í Þjórsá og við spyrjum: Hvers mega sín þá landeigendur og bændur sem eiga sjö prósentin sem upp á vantar? Ætli það verði ekki hákarlarnir sem á endanum gleypi? Mér segir svo hugur að það þurfi að standa í ístaðinu og þörf verði fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í stjórnarandstöðu á þessu þingi. Við munum ekki láta okkar eftir liggja. Ég get lofað því að við berjumst fyrir því að auðlindir þjóðarinnar, sjávarauðlindin, orkuauðlindin og loftslagsauðlindin, verði verndaðar. Þær auðlindir eru í hættu í höndum þessarar ríkisstjórnar.

Við vinstri græn ætlum að standa í lappirnar og lofum því að sterk og málefnaleg stjórnarandstaða verði rekin á því þingi sem nú er að hefjast.