135. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2007.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:56]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Mótvægisaðgerðir hafa nú litið dagsins ljós. Sjómenn og fiskvinnslufólk munu ekki hafa lyst á að borða malbik eða drekka málningu. Aðgerðir upp á 10,5 milljarða á þremur árum eru ekki fyrir fólkið sem á þeim þarf að halda. Alvöruaðgerðir hefðu verið að setja allan fisk á fiskmarkað og þá hefðu tekjur sjómanna hækkað. Þá hækka útsvarstekjur sveitarfélaganna, þá hækka skatttekjur ríkissjóðs og þá hækka hafnargjöld sem kemur sveitarfélögunum til góða. Allur fiskur á markað tryggir öllum fiskvinnslum sama aðgang að auðlindinni. Fiskvinnslur án útgerðar eru líklega best reknu fyrirtækin í sjávarútvegi. Þessi fyrirtæki eru oftast að selja hverja einingu á hæsta verði og eru þannig arðbærust fyrir samfélagið. Að aðskilja veiðar og vinnslu væri líka af því góða til framtíðar litið.

Herra forseti. Forsendur þessa mikla niðurskurðar á þorskkvótanum eru ekki réttar. Sjómenn hafa gert athugasemdir við togararall Hafrannsóknastofnunar. Togaraskipstjórarnir sem skipulögðu togararallið í upphafi, þ.e. 1984, eru allir sammála um að rallið sé ekki marktækt til stofnstærðarmælinga á þorski sem og öðrum tegundum. Á þessu almanaksári verður sett Íslandsmet í skyndilokunum út af smáfiski. Hafró hefur haldið því fram að nýliðun á þorskinum væri svo léleg eða í sögulegu lágmarki. Þetta stemmir bara alls ekki. Hvað með Grænlandsgöngur eða fiskigöngur annars staðar frá? Það er staðreynd að það eru margir þorskstofnar við Ísland sem þýðir að við verðum að endurskoða öll vinnubrögð okkar í hafrannsóknum.

Herra forseti. Hvað rekur stjórnvöld til þess að verja þetta óréttláta kvótakerfi út í eitt? Af hverju vilja alþingismenn viðhalda þessu brjálaða gjafakvótakerfi þrátt fyrir að 85% þjóðarinnar séu á móti því? Fólkið í landinu vill breytingar. Gjafakvótinn er 900 milljarða kr. virði. Er það vegna þessara miklu auðæfa sem þingmenn virka sem stengjabrúður sægreifanna, eða hvað?

Félagslegur þáttur kvótakerfisins hefur ekki verið mikið í umræðunni, hrakfarir einstaklinga og fjölskyldna, gjaldþrot og skilnaðir, fjölskyldur sundraðar og líf margra í rúst. Þegar Tony Blair komst til valda borgaði breska ríkisstjórnin sjómönnum og afkomendum þeirra bætur vegna þess að þeir fengu ekki lengur að veiða á Íslandsmiðum. Við Íslendingar færðum landhelgi okkar út í 200 mílur. Hér hafa menn misst atvinnurétt sinn af mannavöldum og þar bera alþingismenn alla ábyrgðina. Af hverju ekki skaðabætur til handa sjómönnum?

Það er engin atvinnugrein í hinum vestræna heimi sem er jafnmikið ríkisstyrkt og íslenskur sjávarútvegur en það eru bara útgerðarmenn sem njóta þess. Þeir geta leigt, selt og veðsett veiðiheimildir en aðrir í greininni, sjómenn, fiskvinnslufólk og fiskvinnslur án útgerðar, geta étið það sem úti frýs. Það þarf ekki að minnast á stöðu byggðanna, sveitarfélaganna.

Kostnaður við þetta kerfi er mikill. Á nýjum fjárlögum er gert ráð fyrir að Fiskistofa fái 840 milljónir en fíkniefnalögreglan aðeins u.þ.b. 320.

Nú er evran í umræðunni og aðild að ESB. Svokallaðir jafnaðarmenn tala hæst um aðild að ESB. Það er hægt að skoða aðildarumsókn en jafnaðarmenn, svokallaðir, skulu átta sig á einu, það væru landráð að ganga í ESB með óbreytt framseljanlegt kvótakerfi.

Herra forseti. Ég vænti þess að fram fari málefnaleg umræða á Alþingi í vetur og af henni leiði góð og vönduð lagasetning til hagsbóta fyrir landsmenn alla með það að leiðarljósi að gæta heildarhagsmuna en ekki sérhagsmuna. — Lifið heil.