135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[13:46]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. málshefjanda varð tíðrætt um eitt atriði í heildarefnahagsmynd okkar Íslendinga, þ.e. stöðu þjóðarbúsins út á við og viðskiptahallann. Ég geri ekki lítið úr því að 25% viðskiptahalli eins og var á síðasta ári er vandamál. Það er reyndar gert ráð fyrir því að hann verði 15% á þessu ári og lækki síðan á næstu árum. En þingmaðurinn lét algjörlega hjá líða að útskýra með hvaða hætti þessi halli er til kominn og hvaða greinarmun verður að gera á fjármálum hins opinbera og hvaða áhrif þau hafa á viðskiptahallann og svo það sem einkafyrirtækin í landinu gera og er auðvitað í okkar tilviki langstærsta skýringin á þeim halla sem um er að ræða í viðskiptum við útlönd.

Hv. þingmaður verður að gera sér grein fyrir því eins og allir aðrir að hér ríkir frelsi á fjármagnsmarkaði og fjármálastofnanir og fyrirtæki hafa leyfi til þess að flytja inn fjármagn til þess að fjármagna starfsemi sína, það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að setja tálma á nýjan leik á fjármagnsflutninga á milli landa. Það eru því fyrirtækin í landinu og fjármálastofnanirnar sem hafa stofnað til þeirra skulda sem hv. þingmaður var að fjalla um, vegna þess að allir vita og ég hygg meira að segja að hv. þingmaður viðurkenni það að staða ríkissjóðs að þessu leyti er allt önnur. Það kemur mjög vel fram bæði í fjárlagafrumvarpi og í heftinu um þjóðarbúskap hér, hver staða opinberra fjármála er og með hvaða hætti aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum hefur verið stillt upp við hliðina á peningamálastefnu Seðlabankans. Það verður að gera þennan greinarmun, ríkissjóður er búinn að vera að borga bæði innlendar og erlendar skuldir í mjög ríkum mæli. Hann hefur verið að styrkja stöðu sína og hann hefur notað sitt svigrúm til þess að styrkja og efla Seðlabankann þannig að hann geti brugðist við með öflugri hætti ef á reynir. Þetta hafa menn verið að gera með skipulegum hætti á undanförnum missirum, tekið gjaldeyrislán til þess að efla bankann og lagt honum til aukið eigið fé auk þess sem ríkissjóður hefur byggt upp miklar innstæður í bankanum.

Þetta vita allir sem kynna sér staðreyndir eins og hv. þingmaður sagði, staðreyndir sem hægt er að finna í hagskýrslum og tölum. Það þýðir ekki að skoða bara eitthvert eitt tiltekið atriði og láta eins og önnur atriði skipti ekki máli. Það er staðreynd að hér hefur verið mikill hagvöxtur á undanförnum árum og innlend eftirspurn hefur verið með mesta móti ef við tökum bara undanfarin þrjú ár eða svo. Undanfarin þrjú ár hefur hagvöxturinn í landinu samtals verið um 20%. Svo halda menn að það taki ekkert í, að það reyni ekki á hagkerfið við slíkar aðstæður, 20% hagvöxtur og reyndar meiri, töluvert meiri raunaukning í þjóðarútgjöldunum.

Ég tel hins vegar mjög athyglisvert hvernig okkur hefur tekist að komast áfallalaust í gegnum þessar miklu breytingar og miklu hræringar án teljandi skakkafalla. Eða telja menn það ekki einhvern árangur að meðan aðrar þjóðir hér í nágrannalöndum og víða um heim berjast við böl atvinnuleysisins skuli atvinnuleysi á Íslandi vera nánast ekki neitt? Það er auðvitað vegna þess að hér hefur gengið vel í efnahagsmálum, við höfum þurft að flytja inn vinnuafl í stórum stíl eins og allir þekkja.

Ég hygg, eins og ég sagði í stefnuræðu minni í gærkvöldi, að fram undan sé aukinn stöðugleiki sem m.a. birtist í því að viðskiptahallinn fer minnkandi og leitar jafnvægis, en það mun auðvitað taka nokkur ár að koma honum í fullt jafnvægi. Hv. þingmaður býsnaðist yfir því að á undanförnum 10 eða 15 árum hefði aðeins eitt ár verið afgangur á viðskiptajöfnuði. Ég held að menn verði nú aðeins að kynna sér hagsögu Íslands ef þeir ætla að fara að tala á þessum nótum vegna þess að Íslendingar hafa í gegnum öll ár verið innflytjendur á fjármagni, þeir hafa ekki haft úr nógu miklu að spila hér og þurft að taka lán í útlöndum til þess að byggja sig upp og fjármagna ýmsar fjárfestingar í landinu, þannig að það er ekkert einsdæmi. Það er algjör undantekning, örfá ár síðustu áratugina sem við höfum verið með jákvæðan viðskiptajöfnuð. Auðvitað má segja að það hefði verið æskilegt ef við hefðum verið með það fleiri ár. Við vorum með það 1978, 1984 ef ég man rétt og svo þau ár sem hv. þingmaður nefndi. En almenna reglan er sú að vegna uppbyggingarinnar í þjóðfélaginu og efnahagskerfinu höfum við ekki getað byggt upp afgang á viðskiptajöfnuði nema sem undantekningu.

Ég vildi nefna það hér vegna þess að það skiptir líka mjög miklu máli og það mun koma betur fram á morgun í umræðum um fjárlagafrumvarpið að staða ríkissjóðs er nú með þeim hætti að allir hljóta að fagna því, nema þeir sem af einhverri sérstakri meinbægni sjá ekki ástæðu til þess, að okkur hefur tekist að grynnka þannig á skuldum að nettóstaða ríkissjóðs er orðin þannig að hann á nú eignir í stað skulda. Nettóstaðan er neikvæð hvað varðar skuldirnar og samanlagður afgangur á ríkissjóði á árunum 2004–2008 nemur tæplega 300 milljörðum kr. hvort sem reiknað er með óreglulegum liðum eða ekki, það jafnast út yfir þetta tímabil. Þessi staða hygg ég að sé nær einsdæmi í Evrópu og sýnir að vel hefur verið staðið að málum hér að þessu leyti til á undanförnum árum. (Gripið fram í.) Þessi mikli árangur hefur verið notaður til þess að byggja upp eiginfjárstöðu Seðlabankans auk þeirra eigna sem ríkissjóður á þar inni.

Auðvitað segir það sig sjálft að þetta hefur aukið aðhald í hagstjórninni og stutt við það aðhald sem peningamálastefna veitir. Og ef við tökum áhrif hagsveiflunnar út úr afkomutölum ríkissjóðs er afgangurinn samt 3–5% af landsframleiðslu á árunum 2005–2007. Þess vegna er þetta tal um það — sem er nú frekar hvimleitt — að ríkissjóður og ríkisfjármálin leggi ekki nægilega mikið af mörkum í hagstjórn í landinu, það tal styðst ekki við rök. Og það er alltaf frekar hlægilegt að hlusta á pólitíska aðila sem sí og æ gera kröfur um aukin útgjöld á aðra höndina, koma síðan á hinn bóginn og segja: Það vantar hérna aðhald, það vantar meira aðhald af hálfu ríkisins, það vantar meiri samdrátt í ríkisútgjöldum o.s.frv. Þetta er ekki trúverðugt, svo maður noti nú það orð sem hv. þingmaður notaði hér áðan.

Hins vegar get ég tekið undir ýmislegt af því sem fram kom hjá hv. þingmanni í gærkvöldi hvað varðar íslenska gjaldmiðilinn og kaflann í ræðu hans um það efni. Það er auðvitað ekki hægt að gera því skóna að íslenski gjaldmiðillinn sé eitthvert sérstakt böl í hagkerfi okkar. Ef menn skoða sveiflurnar á honum miðað við sambærilega hávaxtagjaldmiðla eru þær mjög líkar, t.d. á þessu ári. Menn gleyma því alltaf að það eru miklar sveiflur í öðrum gjaldmiðlum, dollari og evra sveiflast hvort á móti öðru og það á við um alla gjaldmiðla, þannig að sú umræða er að mörgu leyti á villigötum að mínu mati.

Aðalatriðið er það, að hvað sem líður viðskiptahalla þá er grunnstaða íslenska þjóðarbúsins alveg gríðarlega sterk og hefur ekki áður verið betri. Það á við um flesta þætti í efnahagsmálum og þess vegna höfum við getað leyft okkur að ráðast í mjög öflugt átak til að byggja upp innviði samfélagsins í samgöngum og á mörgum öðrum sviðum eins og við höfum rætt og farið iðulega yfir hér í sölum Alþingis og því mun verða haldið áfram. Og það er sérstök ástæða til þess núna við þær aðstæður sem uppi eru í sjávarútveginum að halda áfram slíku átaki til þess að byggja upp atvinnutækifærin víða um landið.