135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[13:56]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Síðasta ríkisstjórn skilaði af sér góðu búi. Viðsnúningur náðist í efnahagslífinu, efnahagsstjórnin var sterk og menn meðvitaðir um að íslenskt efnahagslíf þyrfti að ná magalendingu eftir mikið hagvaxtarskeið. Umsnúningurinn hefur verið slíkur að ríkissjóður er rekinn með miklum afgangi ár eftir ár, kaupmáttaraukning landsmanna er sú mesta og samfelldasta frá lýðveldisstofnun, hagvöxtur hefur verið mikill, landsframleiðslan hefur tekið stórt stökk fram á við samhliða skattalækkunum og nánast útrýmingu atvinnuleysis.

Skuldir ríkissjóðs hafa einnig verið greiddar niður og nú er svo komið að vaxtatekjur ríkissjóðs eru hærri en vaxtagjöld. Þegar framsóknarmenn settust í ríkisstjórn voru vaxtagjöld þriðji hæsti útgjaldaliður ríkisins. Svona mætti lengi halda áfram og það deilir enginn um að árangurinn hefur verið glæsilegur eins og staða ríkisfjármála gefur glöggt til kynna.

Því miður vekja ýmis ummæli forkólfa ríkisstjórnarinnar þann ugg í brjósti mér að á komandi missirum eigi að blása til mikillar veislu og eyða miklu á skömmum tíma. Hvað svo tekur við getur hins vegar orðið önnur saga og öllu óskemmtilegri. Þjóðin þarf síst af öllu á því að halda að tala sig út og suður um mikilvæg efnahagsleg mál. Það að tala íslensku krónuna út í óvissuna, eins og hæstv. viðskiptaráðherra stundar nú, gerir ekkert annað en að valda óvissu á fjármálamörkuðum og veikja annars hina sterku stöðu íslensks fjármálalífs á erlendum vettvangi. Íslenskt efnahagslíf þarf miklu frekar á því að halda að rætt sé um krónuna á faglegan og yfirvegaðan hátt.

Það sem mest kom á óvart eftir síðustu kosningar var hinn nýi Sjálfstæðisflokkur sem mætti til leiks, flokkurinn sem ásamt Framsóknarflokknum sigldi Íslandsskútunni af festu og öryggi hefur nú leyst landfestar án þess að nokkur merki sjáist um mannaferðir um borð. Hæstv. fjármálaráðherra hefur fullyrt að það sé venja að veita forstöðumönnum ríkisstofnana ótakmarkaða yfirdráttarheimild þegar engin heimild finnst í fjárlögum fyrir útgjöldum stofnunarinnar. Nú er boðað í nýjum fjárlögum að sömu forstöðumenn geti fengið lán hjá ríkissjóði ef fjárlagaheimildir duga ekki fyrir rekstri stofnunarinnar. Ekki er getið um hvaða vaxtakjör eiga að vera á þeim lánum og hvað þá viðurlög ef stofnunin endurgreiðir ekki lánið. Gera menn sér fyllilega grein fyrir á hvað er verið að opna í þessum efnum?

Þá koma einnig á óvart órökstuddar fullyrðingar hæstv. forsætisráðherra um að þenslan í íslensku efnahagslífi sé á undanhaldi. Um leið boðar hann hátt í 20% útgjaldaaukningu frá síðasta fjárlagafrumvarpi, skattalækkanir og lausatök í ríkisfjármálunum.

Þjóðin þarfnast ekki miðilshæfileika þegar kemur að því að stjórna þjóðarskútunni heldur styrkrar framsýnar á hvert hún ætlar sér að sigla. Þau umskipti í efnahagslífinu sem gerðust í ríkisstjórnartíð okkar framsóknarmanna gerðust ekki af sjálfu sér heldur eru þau afleiðing mikillar og markvissrar baráttu frá því að við settumst í ríkisstjórn fyrir 12 árum og síðasta ríkisstjórn íhalds og krata lét af störfum.

Það þarf hins vegar sterk bein til að þola góða daga og það er auðvelt að glutra góðum árangri niður á skömmum tíma. Menn þurfa því að hafa það í huga að ganga hægt um gleðinnar dyr og sýna forsjálni.