135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[14:05]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Mér þótti það sérkennilegt og tíðindum sæta að hæstv. utanríkisráðherra skyldi gera sérstaka athugasemd við að ágreiningur væri meðal stjórnarandstöðuflokkanna sem kæmi fram og kristallaðist í þessum umræðum. Á sama tíma birtist okkur ágreiningur milli stjórnarflokkanna í afstöðunni til gjaldmiðilsins. Hæstv. forsætisráðherra sagði að íslenski gjaldmiðillinn væri ekki sérstakt böl. Það eru ekki margir dagar síðan hæstv. viðskiptaráðherra lét hafa eftir sér að þetta væri það mikið böl að það kostaði meðalfjölskylduna í kringum 700 þús. kr. á ári. Það er talsvert mikið böl.

Hæstv. utanríkisráðherra segir að við séum í vítahring með gjaldmiðilinn þar sem um er að ræða háa vexti, hávaxtastefnuna sem er afleiðing þess að Seðlabankinn reynir að halda sig innan við verðbólgumarkmið sem hafa verið sett. Það leiðir til þess að við erum með erlendan gjaldmiðil á útsölu sem leiðir síðan aftur til þess sem bent var á í umræðunum að við erum með sívaxandi stórkostlegan viðskiptahalla og erum meðal skuldugustu þjóða í heimi.

Hæstv. utanríkisráðherra talar um að nauðsynlegt sé að taka umræðu um íslenska gjaldmiðilinn og hvert beri að stefna. Að sjálfsögðu er það hárrétt hjá hæstv. utanríkisráðherra. Á sama tíma lætur hæstv. forsætisráðherra í það skína að allt sé í himnalagi með þennan ágæta gjaldmiðil, þrátt fyrir að þetta sé minnsti sjálfstæði gjaldmiðill á markaðsgengi, og íslenskan krónan sé eins og korktappi í ólgusjó. Minnstu hræringar á erlendum gjaldeyrismörkuðum geta leitt til þess að heimilin í landinu verði fyrir gríðarlegum búsifjum, jafnvel þannig að horft geti til fjölda gjaldþrota ef veruleg gengisfelling veður vegna aðstæðna sem koma íslenskum efnahagsmálum kannski í sjálfu sér lítið við vegna þess hve tengd þau eru orðin alþjóðaefnahagsmálum. Þar af leiðandi þurfum við að sýna sérstaka aðgát.

Sú hækja sem íslenska krónan styðst við, þ.e. verðtrygging útlána, er hætta sem vofir yfir öllum heimilum í landinu. Það er brýnasta hagsmunamál unga fólksins í landinu að við búum við sambærileg lánakjör og annars staðar á Norðurlöndunum en ekki gjaldmiðil sem þarf að reiða sig á hækju verðtryggingar eins og við höfum í dag. Það er grundvallaratriði að gjaldmiðillinn sé það traustur að hann geti verið lögeyrir í öllum viðskiptum manna en ekki bara þegar um er að ræða viðskipti með kartöflur og mjólk. Hann á líka að vera lögeyrir í lánaviðskiptum.

Það eru mörg hættumerki á ferðinni, viðskiptahallinn er eitt það alvarlegasta. Alvarlegasta atriðið, sem sett getur tálma fyrir fyrirtækin í landinu, tálma á þá möguleika, þá útrásarmöguleika og sköpunarmátt sem býr með ungu fólki og framtakinu í landinu, er að ríkisstjórnin ætlar að efna til meiri veislu en nokkrum hefur áður dottið í hug, að hækka fjárlög frá þeim sem lögð voru fram á síðasta ári um 20%. Af því gætu orðið alvarlegar afleiðingar.

Hæstv. forseti. Ég tel að þar séu komin rök (Forseti hringir.) fyrir því að við þurfum virkilega að gæta að okkur og skera niður ríkisútgjöld frekar en að bæta við.