135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[14:26]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í fjarlagafrumvarpi næsta árs er nú gert ráð fyrir betri afkomu en áður voru áætlanir um. Þannig hefur raunþróun verið undanfarin ár að vegna þenslu hafa tekjur ríkissjóðs vaxið mikið. Viðbótin er hreinar þenslutekjur að langmestu leyti. Viðskiptahallinn var 25% árið 2006 en þá var spáð 12% viðskiptahalla. Hann varð sem sagt helmingi meiri en gert hafði verið ráð fyrir.

Varasamt er að trúa því nú að viðskiptahallinn lækki eins og spáð er fyrir næstu ár. Þenslan er til staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu og alls ekki fyrirséð að þar hægi á á næstu árum. Mikil eftirspurn er eftir erlendum verkamönnum, einkum í byggingarvinnu og engin merki um að þar dragi úr aðstreymi erlends vinnuafls. Jafnvel er talið að hátt í 2.000 manns séu í vinnu hér á landi óskráð.

Bankarnir lýsa því að þeir hafi nægt fé til lánveitinga og lausafjárstaða þeirra sé næg án nýrra langtímalána í eitt ár. Væntanlega ætla bankarnir að lána það fé til ávöxtunar og þar komum við að mikilli þenslu í húsbyggingum, einkum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það er sem sagt fátt sem bendir til þess að úr þenslunni dragi á þessu svæði.

Í blöðunum í morgun er m.a. umfjöllun eftir Björn Rúnar Guðmundsson, forstöðumann greiningardeildar Landsbankans, sem segir í fyrirsögn: Ekkert hlé í augsýn. Og þegar kíkt er í þessa grein segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hagspá Landsbankans fyrir næstu þrjú ár gerir ráð fyrir því að þegar á næsta ári aukist fjárfesting á nýjan leik eftir mikinn samdrátt á þessu ári. Ekki aðeins er reiknað með áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum heldur liggur fyrir að fjárfesting í íbúðarhúsnæði verður áfram mikil auk þess sem umfangsmiklar opinberar framkvæmdir standa fyrir dyrum. Þessu til viðbótar má nefna stór verkefni á vegum einkaaðila sem koma til með að standa yfir allt spátímabilið. Það er því ekki að sjá að mikill samdráttur verði í vinnuaflseftirspurn á næstu árum …“ segir hér.

Þetta er alls ekki í samræmi við það sem ríkisstjórnin er að spá um að það hægi á þenslunni.

Þessu er hins vegar öfugt farið á landsbyggðinni. Þar ákveður ríkisstjórnin hörkusamdrátt með vanhugsuðum niðurskurði þorskaflans sem bitnar harkalega á aðalatvinnuveginum, fiskveiðum og -vinnslu með tekjusamdrætti upp á 20 milljarða í atvinnugrein sem er yfirskuldsett.

Einnig var fjallað um skuldir sjávarútvegsins í blöðunum í morgun. Í Morgunblaðinu segir að skuldir sjávarútvegsins hafi vaxið sem aldrei fyrr og stefni í 300 milljarða kr. á sama tíma og aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu taka niður tekjur sjávarútvegsins um 20 milljarða kr. Við erum sem sagt að horfa á það að aðalatvinnuvegur landsbyggðarinnar mun veikjast mjög á komandi árum. Þetta eru mikil hættumerki í þjóðfélagi okkar. Það eru mikil hættumerki þegar annars vegar eru allar horfur á því að þenslan haldi áfram á fullri ferð hér á ákveðnu svæði landsins en annars staðar dragi verulega saman og aðalatvinnuvegur landsbyggðarinnar haldi áfram að safna skuldum. Sýnist mönnum e.t.v. að kvótakerfið hafi eflt byggðina eða sé að því og að því eigi að stefna? Ég held að ríkisstjórnin ætti að fara að hugsa sinn gang almennt í þessum málum.