135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[14:31]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þakka þátttöku í henni og hæstv. forsætisráðherra fyrir svör eða ræður skulum við segja, ég man nú ekki hvort þar var miklu svarað.

Ég vil segja við hv. þm. Ragnheiði Árnadóttur að þjóðhagsspáin 2005 spáði því líka að fram undan væru betri tímar og jafnvægi og að þenslan mundi fara minnkandi og viðskiptahallinn minnkandi strax á næsta ári. Tveimur árum síðar stöndum við frammi fyrir því að þróunin varð þveröfug, viðskiptahallinn varð tvöfalt meiri en spáð var. Hvað segir okkur að sömu aðilar geti ekki gert sömu mistökin nú? Gæti verið að við stöndum frammi fyrir krónískri tilhneigingu fjármálaráðuneytisins til að fegra myndina eftir að svo fór að Þjóðhagsstofnun, sem átti að vera sjálfstæð og óháð matsstofnun á þessu sviði, var lögð niður og við verðum aðallega að reiða okkur á þá hluti hvað spár varðar sem koma frá fjármálaráðuneytinu, að minnsta kosti þangað til önnur gögn koma fram síðar í haust.

Ég vil búa við þannig aðstæður að innstæður séu fyrir því sem við eyðum, að við séum ekki að halda veislu núlifandi kynslóða í landinu sem við ætlum börnunum okkar að borga, að vöxturinn sé sjálfbær. Og ég get fullvissað hv. þm. Árna Pál Árnason um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur verið með tillögur sínar um aðgerðir á þessu sviði á hreinu. Við höfum ein flokka undanfarin þrjú ár flutt hér á Alþingi tillögur um beinar aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, þar á meðal stóriðjustopp sem Samfylkingin tók upp á arma sína fyrir um ári. Hvar er það núna, hv. þingmaður?

Við hæstv. utanríkisráðherra vil ég segja, sem hóf mál sitt á því að ræða um misstemmingar innan stjórnarandstöðu sem kemur úr ólíkum áttum: Af mikilli tillitssemi við fortíð hæstv. utanríkisráðherra minntist ég ekki einu orði á málflutning Samfylkingarinnar um efnahagsmál á fyrra kjörtímabili. Þar eru margar ræðurnar til sem gaman væri að rifja upp.

Hæstv. forsætisráðherra talar um að ekki megi einblína á einn hlut, þ.e. viðskiptahallann. Hann segir að vísu að hann viðurkenni að viðskiptahalli upp á 25% sé vandamál. Ég held að hann hafi ekki sagt „visst vandamál“ en hann gerði ekki mikið úr því að það væri vandamál, og ræddi svo um að ekki mætti einblína á hann og gera yrði greinarmun á hlut hins opinbera og einkaaðila í því. Vissulega. En 25% viðskiptahalli eða þaðan af meira er kominn langt út fyrir öll mörk sem þýðir að ræða um að geti verið sjálfbært.

Hinn frægi viðskiptahalli Bandaríkjanna, hver er hann? Hann hefur verið frá 1% og upp í 6% undanfarin ár, svona að meðaltali 2–4%. Þar er hrein staða Bandaríkjanna innan við 30% af vergri landsframleiðslu í skuldum. Þar ræða menn um hvort þessi viðskiptahalli geti verið sjálfbær en það þýðir ekki hér. Það segir okkur meira að brjóta viðskiptahallann upp og skoða hvað eru fjárfestingar og kaup á framleiðslutækjum og hvað er eyðsla, neysla. Þá kemur í ljós að því miður er aðeins 1/3 hluti þessa gríðarlega viðskiptahalla undanfarin ár fjárfestingar í arðgefandi framleiðslutækjum og fjárfestingum til framtíðar. Afgangurinn er eyðsla þjóðarbúsins umfram það sem verið er að afla. Það er veisla hverrar reikning er verið að senda á framtíðina, það blasir við okkur og þýðir ekki að neita því.

Ég var að vona að einhver svör kæmu frá hæstv. ríkisstjórn um það hvers væri að vænta af hennar hálfu í efnahagsmálum. Hún hefur skilað auðu hingað til. Mín niðurstaða er því miður sú af þessari umræðu að algjör ringulreið ríki á stjórnarheimilinu hvað varðar viðhorf (Forseti hringir.) til þessara mála. Flokkarnir tala út og suður í gjaldeyris- og peningastefnumálum (Forseti hringir.) og ég fékk engan botn í það að ríkisstjórnin sé að ná sér saman um nokkurn skapaðan hlut.