135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

mótvægisaðgerðir.

[14:40]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt í upphafi þings að þingið eigi þess kost að ræða við hæstv. forsætisráðherra sem fer með efnahagsstjórnina í ríkisstjórninni og ber þess vegna mikla ábyrgð. Hér hefur farið fram mikil umræða, bæði í gærkvöldi og í dag, um hið þanda hagkerfi og þær hættur sem blasa við og mikilvægt að menn takist á við þá erfiðleika.

Hitt er kannski enn stærra mál sem ég ætla hér að taka upp, það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í sumar um niðurskurð á þorskveiðikvótanum og ákveðnar mótvægisaðgerðir sem síðar voru kynntar. Ég er þar að tala um byggðir sem hafa orðið fyrir gríðarlegu áfalli vegna ástandsins á þorskstofninum og þess mikla niðurskurðar sem ákveðinn var. Það eru byggðarlög sem búa ekki við neinn hagvöxt í stærsta stíl. Þau búa ekki við hagvöxt, þar er ekki þensla, þar getur eitt lítið högg, ein lítil ákvörðun, ráðið úrslitum um framtíð fjölskyldunnar á staðnum, um framtíð byggðarlagsins. Þessu gerðu menn sér grein fyrir þegar hið alvarlega ástand þorskstofnsins blasti við. Hins vegar róaði hin góða staða ríkissjóðs menn í byggðunum, hinar miklu tekjur, en fyrst og fremst voru það miklar og stórar yfirlýsingar af hálfu hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni.

Hæstv. forsætisráðherra dáðist að sjávarútvegsráðherra að taka þessa ákvörðun en gat þess gjarnan að ríkisstjórnin mundi fara mjög vel yfir mótvægisaðgerðir til þess að draga úr þessu höggi og byggðirnar gætu beðið eftir stækkandi þorskstofni og gaf útgerðinni fyrirheit um að veiðigjaldið yrði skorið niður í tvö ár, sem ber að þakka hér.

Það var engin spurning að sjávarútvegsráðherra, sem tók verulega stóra ákvörðun, bæði fyrir sína hönd og íslenskrar þjóðar, batt greinilega vonir við að samstaða yrði í ríkisstjórn sinni um marktækar mótvægisaðgerðir.

Með leyfi forseta, sagði hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, hinn 23. júlí:

„Hún [þ.e. ríkisstjórnin] ætlar að koma til móts við þau landsvæði þar sem tekjusamdrátturinn verður mestur og við það verður staðið. Þetta er ekki flóknara en það.“

Sannleikurinn er sá að við í stjórnarandstöðunni höfum ekki búið til hin stóru lýsingarorð um aðgerðir ríkisstjórnarinnar frá 12. september þegar mótvægisaðgerðirnar birtust. Það eru stór lýsingarorð sem koma bæði frá fiskverkafólki, sjómönnum, útgerðarmönnum, sveitarstjórnarmönnum úr öllum flokkum í sjávarbyggðum sem hafa lýst mestu vonbrigðum í lífi sínu með þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti. Og sannleikurinn er sá að þær eru auðvitað fyrst og fremst háðulegar, ég hef sagt: Fjallið tók jóðsótt og það fæddist mús. Hvergi var komið til móts við sjómennina, sem í stórum stíl eru að tapa vinnu sinni, og að litlu leyti gagnvart fiskverkafólkinu. Útgerðin stendur lömuð því að það er mikið tekjufall að missa 15–20 milljarða út úr atvinnuveginum. Við sjáum það í Morgunblaðinu síðast í morgun að sjávarútvegurinn er kannski ekkert mjög vel búinn til að takast á við þessa erfiðleika. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna hafa aukist á tíu árum um 200 milljarða, skuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna eru á fjórða hundrað milljarða þannig að þar blasa erfiðleikar við.

Ég vil í upphafi aðeins fara yfir stöðu þorskstofnsins. Hæstv. forsætisráðherra fór upp í Valhöll sl. laugardag til þess að lýsa því yfir að hann hefði ekki getað gengið í þessar harkalegu aðgerðir ef Framsóknarflokkurinn hefði setið í ríkisstjórn. Þetta er hárrétt. „Það hefði verið ófært að skera niður með Framsókn,“ segir hæstv. forsætisráðherra. Við vildum ekki ganga svo langt sem ríkisstjórnin gerði og það er af ákveðnum ástæðum. Hins vegar lá það fyrir í öllum stjórnmálaflokkum, meðal allra vísindamanna og útgerðarmanna að menn töldu miðað við stöðu þorskstofnsins óhjákvæmilegt að ganga til mikils niðurskurðar á fiskveiðiheimildum. Það vildum við líka gera en með öðrum hætti.

Það er engin spurning að þorskstofninn er í alvarlegri stöðu og það þarf að byggja hann upp. Það er stórt og mikið verkefni sem okkur ber að fara í og við erum sammála um. Við vorum lengi að veiða 300–400 þús. tonn, hér var Bretinn inni á miðunum, og við höfum tekið upp verndarkerfi sem er kvótakerfi sem við teljum að sé þannig upp byggt að menn viti hvað þeir eru að gera og taki ekki meira af stofninum þannig að hann verði sjálfbær. En það er mjög alvarlegt hvernig samdrátturinn hefur orðið, hvernig lífsstofn þorsksins hefur minnkað í gegnum áratugina. En auðvitað kemur þetta til með að reyna á kvótakerfið sem við höfum stuðst við. En það er ekki stóra málið í þessu. Við framsóknarmenn töldum að það væri mjög mikilvægt nú um leið og menn skæru niður að þeir áttuðu sig á því að þetta yrði erfitt fyrir sjómennina, fiskverkafólkið, útgerðirnar og byggðirnar og að fara niður í 130 þús. tonn hefði mikil áhrif, ekki bara á þorskstofninn heldur líka á ýsu og ufsa. Þær þrjár tegundir eru á sömu slóð á miðunum og það hefði verið heiðarlegra af hálfu sjávarútvegsráðherra að skera þá niður á móti í þeim tegundum. Þetta getur kallað á brottkast á nýjan leik sem væri mjög alvarleg staða. Sem betur fer hefur á síðustu árum dregið úr umræðunni um brottkastið.

Við framsóknarmenn vildum styðjast við þá ráðgjöf sem Norður-Atlantshafsfiskveiðiráðið lagði til, um 150 þús. tonna niðurskurð. Við töldum það raunhæfan möguleika. Við styðjumst því í tillögum okkar líka við vísindin og teljum að þetta hefði verið miklu heppilegra, bæði út frá þorskstofninum, að síður komi til brottkasts, og líka út frá ýsustofninum og ufsanum. Ég orða það því svo að tillögur okkar voru um skynsamlegan niðurskurð til þess að byggja þorskstofninn upp, kannski á örlítið lengri tíma en þær voru mjög raunhæfar.

Ég tel líka mjög mikilvægt að fara yfir þær mótvægisaðgerðir sem kynntar voru og ná ekki tilætluðum árangri. Ég ætla ekki að minnast á lýsingarorðin sem komu frá byggðunum. Það eru mikil vonbrigði og þegar er farið að segja upp hundruðum starfsmanna og hundruð sjómanna munu missa starf sitt, það verður mikill samdráttur. Menn munu selja skip frá byggðunum og sjá ekki að tillögur ríkisstjórnarinnar muni leysa vandann.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort til greina komi að endurskoða þessar aðgerðir, marka þær betur, til hverra þær fari og til hvers því að margt er enn ósagt í þeim efnum af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig úthlutun er varið.

Ég vil enn fremur spyrja hæstv. forsætisráðherra því að allir eru sammála um að meira fjármagn þurfi til hafrannsókna: Deilt er um togararallið, sjómenn töldu á síðasta vetri að það væri mikill þorskur í sjónum og benti margt til þess að þorskstofninn væri stækkandi. Þetta kom þeim því á óvart og því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji að í mótvægisaðgerðunum eigi ekki að leggja meiri áherslu á vísindin og rannsóknirnar. Deilt er um ákvörðun Hafrannsóknastofnunar. Frá 1984 hefur togararallið verið á sama stað og sama tíma. Sjómennirnir segja að fiskurinn sé farinn af þeirri slóð og annars staðar. Menn sjá nýjar tegundir þorsks í sjónum, eða að þorskurinn sé fleiri en ein tegund, þannig að ég hefði talið eðlilegt að Háskóli Íslands, (Forseti hringir.) með líffræðiþekkingu og verkfræðiþekkingu, kæmi inn í hafrannsóknirnar. Ég spyr (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra hvort hann vilji stuðla að því. Enn fremur spyr ég hvort hann telji ekki mikilvægt við þessar aðstæður að stórefla þorskeldi á Íslandi og hvort ríkisvaldið með sína góðu stöðu eigi ekki að koma inn í það með atvinnulífinu (Forseti hringir.) til að efla framtíðina á landsbyggðinni og forustuhlutverk íslenskrar þjóðar.