135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

mótvægisaðgerðir.

[14:50]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Aðeins út af þessum síðustu spurningum hv. þingmanns liggur það fyrir að það er hluti af mótvægisaðgerðunum að efla Hafrannsóknastofnun, það er verið að setja meira fjármagn í þorskeldi og það er verið að setja meira fjármagn í samkeppnissjóði til að fleiri geti lagt stund á nauðsynlegar rannsóknir á þessu sviði. Ég veit ekki annað en að samstarfið milli Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar um þessi mál sé mjög gott, auk þess sem leitað er reglulega út fyrir landsteinana eftir ráðgjöf sem hefur í hvívetna staðfest niðurstöður Hafrannsóknastofnunar varðandi ástand þorskstofnsins. Það er einmitt ástæðan fyrir því að sjávarútvegsráðherra tók þá ákvörðun með fullum stuðningi ríkisstjórnarinnar að draga úr heimildum í þorskveiðum um þriðjung á næsta ári. Vissulega var það sársaukafull og erfið ákvörðun. Hún hefur verið rökstudd ítarlega af hans hálfu og okkar í ríkisstjórninni og ég ætla ekki að fara nánar yfir þau mál en hugmyndin með þessu og meiningin er auðvitað sú að byggja upp þorskstofninn til framtíðar, til þess að byggðarlögin í landinu, útgerðarstaðirnir, sjómennirnir og landverkafólkið, geti haft örugga atvinnu af þessu þegar fram líða stundir. Menn taka hér á sig tímabundna fórn.

Þá vaknar spurningin: Hver er þörfin fyrir mótvægisaðgerðir? Hugmyndin með þeim er auðvitað sú að þessir aðilar geti bjargað sér með slíkri aðstoð í gegnum þá erfiðleika sem nú eru fram undan næstu 2–3 árin, að gerðar séu ráðstafanir til að þessir aðilar og þessi byggðarlög koðni ekki niður á meðan. Síðan er þess vænst að þorskstofninn rétti sig af og þá fái þessir aðilar á ný möguleika á að blómstra. Þá er auðvitað mjög mikilvægt að þeir sem nú færa fórnir og missa aflaheimildir fái þær til baka þegar ástandið batnar. Þess vegna var ákveðið að ráðast í þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hafa verið. Þær eru kannski svolítið öðruvísi en Framsóknarflokkurinn hefði viljað. Ég sé það í fréttatilkynningu Framsóknarflokksins að hann vill frekar vera upp á gamla móðinn í þessu, stofna sjóði og rétta mönnum aura með beinum hætti eins og stundum var gert á árum áður með hörmulegum árangri.

Hvers vegna var ákveðið að ráðast í þessar mótvægisaðgerðir? Það er vegna þess að án aðkomu stjórnvalda hefðu verið meiri líkur á því að þessar aðstæður hefðu getað riðið byggðarlögunum að fullu. Með aðgerðum stjórnvalda er verið að auðvelda þeim að komast í gegnum þessar þrengingar. Jafnframt eru þessar aðgerðir lagðar upp á þann hátt að það er ekki tjaldað til einnar nætur, heldur haft að markmiði að styrkja stöðu sjávarbyggðanna til framtíðar og skjóta fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið, m.a. með því að byggja upp vegi og fjarskipti.

Samtals verður um 6,5 milljörðum varið á næstu þremur árum til fjölmargra nýrra verkefna sem ætlað er að styðja atvinnulíf í sjávarbyggðunum og koma til móts við sjávarútvegsfyrirtæki og sveitarfélög vegna tímabundins samdráttar í tekjum. Þar til viðbótar verður framkvæmdum í samgöngum fyrir ríflega 4 milljarða kr. flýtt og verða þær unnar á næstu þremur árum til viðbótar við þá miklu aukningu sem er í fjárlagafrumvarpi næsta árs vegna samgöngumála og ég hygg að fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins þekki mætavel til. Næsta ár, miðað við fjárlagafrumvarpið, verður algjört metár í samgönguframkvæmdum.

Auðvitað er ljóst að þessar aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt sem mótvægisaðgerðir koma ekki nákvæmlega í staðinn fyrir 60 þús. tonn af þorskafla en þær eiga til lengri tíma litið að stuðla að því að byggðirnar standi styrkari eftir en áður með fjölbreyttara atvinnulíf. Ég vil nota þetta tækifæri til að skýra aðeins nánar frá helstu aðgerðunum sem þarna er um að tefla. Aðgerðum til skamms tíma er ætlað að koma til móts við fyrirsjáanlegt tekjutap útgerðar og sveitarfélaga. Veiðigjald vegna þorskveiða næstu tveggja fiskveiðiára, samtals um 550 millj. kr., er fellt niður og ég fagna undirtektum hv. þingmanns við þeirri ráðstöfun. Létt verður á skuldum Byggðastofnunar um 1.200 millj. kr. og stofnunin verður því betur í stakk búin til að liðsinna sjávarútvegsfyrirtækjum í þessum byggðarlögum í samvinnu við lánastofnanir þeirra.

Það er rétt að vekja athygli á því sem ég sagði hér í gær, að vegna breytinga í fjármálaumhverfinu og einkavæðingar bankanna eru bankarnir í dag allt aðrar stofnanir en þeir voru og miklu betur í stakk búnir til að koma til móts við viðskiptavini sína úti á landi í þessum tímabundnu erfiðleikum. Þessu til viðbótar verður 750 millj. kr. varið til að koma til móts við minnkandi tekjur sveitarfélaga vegna aflasamdráttar. Megináherslan er hins vegar lögð á að efla grunnstoðir atvinnulífsins í sjávarbyggðunum þannig að þær verði betur í stakk búnar til að bregðast við óvæntum tímabundnum ytri áföllum í framtíðinni. Það er lögð áhersla á að auka tækifæri í menntun og að bæta stöðu þeirra sem hingað til hafa haft takmarkaða möguleika á vinnumarkaði. Framtíðarmöguleikar einstakra staða byggjast mjög á því að þar búi fólk sem aflað hefur sér menntunar og náms- og starfsþjálfunar. Það helst í hendur við að þar geti orðið til störf í nútímasamfélagi. Þess vegna verður ráðist í sérstök átaksverkefni til að treysta atvinnuuppbyggingu á þessum svæðum, m.a. gert með auknum framlögum til atvinnuþróunarstarfs og atvinnuþróunarfélaga í einstökum landshlutum og þar m.a. byggt á því ágæta starfi sem fyrrverandi iðnaðar- og byggðamálaráðherra hafði frumkvæði að, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir.

Það skiptir miklu að efla nýsköpun í starfandi fyrirtækjum og að auðvelda nýsköpun á meðal frumkvöðla. Það verður þó ætíð að hafa hugfast að árangur af aðgerðum stjórnvalda á þessu sviði hlýtur að byggjast mjög á frumkvæði heimamanna.

Góðar samgöngur og fjarskipti eru mikilvægar forsendur fyrir nútímaatvinnustarfsemi á þessum svæðum. Það er m.a. vegna þess sem vegaframkvæmdum verður flýtt og sömuleiðis verður uppbyggingu í fjarskiptaþjónustu hraðað, jafnt farsímaþjónustu sem háhraðatengingum, og var þó þegar ákveðið verulegt átak í því efni eins og þingmenn þekkja. Fjarskiptasjóður hefur unnið mjög ötullega að því máli eftir að honum var komið á laggirnar þegar búið var að einkavæða Símann.

Það verður líka gert sérstakt átak í viðhaldi opinberra bygginga. Það er þekkt að vinnuaflið sem þar á í hlut er gjarnan menn sem ella hefðu kannski verið á sjó og þess vegna er þetta vel til fundin aðgerð við þessar aðstæður.

Einnig verður efldur stuðningur við jarðhitaleit á þeim svæðum sem hingað til hafa verið talin köld. Náðst hefur góður árangur víða vegna slíks átaks og við í fyrrverandi ríkisstjórn beittum okkur fyrir þessu og því verður haldið áfram með sérstökum viðbótarfjármunum. Ég vil síðan geta þess sem fram kom í upphafi máls míns að stjórnvöld hafa þegar lagt línurnar að eflingu hafrannsókna og þess mun sjá stað í fjárlögum næsta árs, vænti ég, nái fjárlagafrumvarpið fram að ganga. Jafnvel þegar á þessu ári má gera ráð fyrir að gerð verði tillaga um viðbótarfjármuni í fjáraukalögum. Jafnframt fær hópur sérfræðinga það verkefni að leggja mat á veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og það verður farið yfir fyrirkomulag togararallsins og gerðar tillögur um úrbætur og að sjálfsögðu hlustað á alla sem hafa eitthvað fram að færa hvað það varðar. Þeir eru margir sem þekkja vel til á þessu sviði.

Af þessu má ljóst vera að mótvægisaðgerðir stjórnvalda hafa breiða skírskotun og ná til allra þeirra þátta sem mestu skipta til að treysta sjávarbyggðir og auðlindir þjóðarinnar í hafinu. Það skýtur því skökku við þegar þingflokkur framsóknarmanna telur að aðgerðir ríkisstjórnarinnar gangi ekki nærri nógu langt og þær gagnist ekki þeim sem fyrir mestum áföllum verða. Hins vegar hafa aðrir aðilar í þjóðfélaginu gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að ganga of langt í þessum efnum og fyrir að vera yfir höfuð með aðgerðir af þessi tagi þegar ekkert atvinnuleysi er í landinu. Ég tel mig hafa útskýrt hvers vegna þetta eru nauðsynlegar aðgerðir og við teljum að við höfum einmitt náð að setja saman markvissan pakka með aðgerðum sem gagnast mest þeim sem þarna eiga hlut að máli og munu gera það hratt og örugglega og séu hæfilega víðtækar án þess þó að valda þenslu í efnahagslífinu og séu innan skynsamlegra marka að því leyti til.