135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

mótvægisaðgerðir.

[15:00]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Fyrir síðustu kosningar lofuðu allir stjórnmálaflokkar að jafna samkeppnisstöðu og kjör íbúa landsins óháð búsetu. Heilu byggðirnar hafa verið í þeirri stöðu að vera fyrst og fremst veitendur en ekki þiggjendur samfélagsins. Þar á ég við sjávarbyggðirnar vítt og breitt um landið þar sem vinnufúsar hendur, hugvit og kraftur einstaklinga og samfélaga í nálæg gjöful fiskimið hafa lagt grunn að því velferðarkerfi sem við búum við í dag.

En hvar eru loforðin? Hvar eru loforðin um strandsiglingar, um jafnrétti í fjarskiptamálum, jöfnun flutningskostnaðar, lækkun raforkuverðs sem ítrekað hefur verið lofað? Ég veit af fólki í ferðaþjónustu sem mátti búa við það að Síminn var bilaður í meira en tvær vikur um háannatímann. Það var búið að einkavæða Símann. Hann hafði engar samfélagsskyldur. Einkavæðing almannaþjónustunnar hefur bitnað hart á samfélögum í dreifbýlinu.

Vegaframkvæmdir voru skornar niður á síðasta kjörtímabili, liðlega 6 milljarðar kr., sérstaklega á Vestfjörðum og á Norðausturlandi. Vegna þenslu á suðausturhorninu var sagt. Nú eru það kallaðar mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á þorskheimildum að taka nokkuð af þessum niðurskurði til baka.

Ef rætt er um að flytja opinbert starf út á land eða byggja upp nýja þjónustu er spurt: Hvað leggur sveitarfélagið á móti? Er spurt að því hér?

Já, misréttið er alveg hrópandi. Álver sem varla er tekið til starfa býður íbúum á Vestfjörðum ókeypis flutning og flutningsstyrki. Það sama álver fær hins vegar raforkuna á liðlega krónu, eða hvað, meðan fiskvinnslan, þessi stóra atvinnugrein íslensku þjóðarinnar verður að borga fimm- eða sexfalt raforkuverð miðað við álverin. Er þetta jafnrétti? Og nú ætla stjórnvöld að hafa nákvæmlega sama háttinn á að bjóða fólki flutningsstyrk. Það hafa verið nefndar 200 þús. kr. til að yfirgefa allt sitt og flytja burt af þessum svæðum. Þegar flutningar til Vesturheims stóðu sem hæst, um 1880, voru dæmi um það að opinberir aðilar buðust til að greiða skipsfarið vestur um, sérstaklega þegar þeir óttuðust að fólkið lenti á sveit. Eru það þessir tímar sem eiga að koma aftur með þeirri ríkisstjórn sem nú situr hér?

Sveitarfélögin tóku frumkvæðið, sendu tillögur inn um aðgerðir sem þau vildu grípa til. Þau voru ekki virt viðlits. Sveitarfélögin á Norðurlandi vestra hafa beðið um starfshóp með ríkisstjórninni um málefni sín. Þau hafa ekki verið virt svars. Það þarf fullkomna hugarfarsbreytingu, frú forseti, hjá stjórnvöldum til atvinnu- og byggða- og búsetumála í landinu.

Mér kæmi ekki á óvart þótt forseti lýðveldisins hafi einmitt lesið svokallaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar og þær hafi gefið honum tilefni til ræðu hér sl. mánudag. Ákall forseta lýðveldisins til þingsins um að taka á málum byggðanna vítt og breitt um landið, hann kallaði á hugarfarsbreytingu. Þess er ekki að sjá stað hér og ekki að sjá stað í mótvægisaðgerðunum. Ég leyfi mér, frú forseti, að vitna til orða forseta lýðveldisins í ákalli til þingsins um þetta mál, um framtíð byggðanna, með leyfi forseta:

„Framtíð þessara byggða vítt og breitt um landið allt verður því aldrei hægt að meta á arðsemiskvarðann einan, né árangurinn aðeins mældur í ársreikningum. Hér er meira en fjárhagur í húfi — öllu heldur sjálfar rætur þjóðarinnar, uppruni okkar og eðlisþættir.“

Höfum þetta í huga, frú forseti.