135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

mótvægisaðgerðir.

[15:13]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Íslenskar sjávarbyggðir hafa trúlega aldrei glímt við eins alvarleg vandamál og nú um stundir í framhaldi af mjög umdeildri ákvörðun sem ríkisstjórnin tók um samdrátt í þorskveiðum Íslendinga. Það beið því mjög metnaðarfullt verkefni nýlegrar ríkisstjórnar um að taka á þeim miklu vandamálum og þar hefði þurft að vanda mjög vel til verksins. Það er því undarlegt að ríkisstjórn sem gefur sig út fyrir að vera ríkisstjórn samræðu og samráðs skuli hafa viðhaft það verklag sem raun ber nú vitni. Ekkert samráð hafði ríkisstjórnin við útvegsmenn, við sjómenn, við fiskvinnslufólkið, hvað þá við sveitarfélögin, sjávarbyggðirnar sem glíma við stærstu vandamál í sögunni.

Hæstv. forseti. Ekki skorti á yfirlýsingarnar hjá hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni um þær mótvægisaðgerðir sem átti að kynna áður en þing kæmi saman, þær yrðu flottar. En að öllum öðrum ólöstuðum átti hæstv. iðnaðarráðherra mestan þátt þar í máli með mjög digrum yfirlýsingum á sumarmánuðum. Það átti að flytja 80 opinber störf á Vestfirði. Glæsilegustu mótvægisaðgerðir Íslandssögunnar. Hvar eru þessi 80 störf í dag? Hafa þau litið dagsins ljós? Hvað með aðra landshluta sem glíma við sambærileg vandamál og Vestfirðir? Eiga þau svæði ekki rétt líka á því að opinber störf verði sett í viðkomandi byggðarlög?

Hæstv. forseti. Það er ljótur leikur sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur leikið. Hann hefur nefnilega vakið upp væntingar í hinum dreifðu byggðum. Ríkisstjórnin hefur svikið sjávarbyggðirnar. En hverjar eru hinar raunverulegu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar? Jú, Samfylkingin er að vinna að því með samþykki sjálfstæðismanna að gera tillögur sem eru alger uppgjöf fyrir vandanum. Það á að borga fólki fyrir að flytja úr sjávarbyggðunum. Það á að borga fólkinu, alger uppgjöf fyrir vandanum. Og hvað kemur svo í ljós í fjárlagafrumvarpinu sem hin nýja glæsilega ríkisstjórn hefur kynnt? Það á að afnema flutningsjöfnun á olíu og bensíni. Hvers lags skilaboð eru það til hinna dreifðu byggða? Flutningsjöfnunarsjóður hefur greitt bensín Þórshafnarbúa niður um 3,30 kr. Þó er verðið þar miklu hærra en á höfuðborgarsvæðinu. Dísilolíuna niður um 2,20 kr. Var verðið á eldsneyti á landsbyggðinni ekki nógu hátt fyrir? Hvers lags aðgerðir eru þetta sem ríkisstjórnin er að boða hér? Sem þingmaður allrar þjóðarinnar, landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins get ég ekki setið þegjandi undir þessu. Við getum ekki aukið óréttmætið og gliðnunina á milli þjóðfélagshópa hér með þeim hætti sem raun ber vitni. Og það er í raun og veru ótrúlegt að ný ríkisstjórn skuli telja að það eigi að vera forgangsmál að hækka eldsneytisverð á landsbyggðinni.

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra kom í umræðuna og sagði að Framsóknarflokkurinn hefði vantrú á landsbyggðinni. (Gripið fram í: Fjármálaráðherra.) Tillögur Framsóknarflokksins á mótvægisaðgerðum, raunverulegum mótvægisaðgerðum sýna að Framsóknarflokkurinn hefur trú á landsbyggðinni. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar mikla vantrú á þeirri ríkisstjórn sem nú er að hefja störf.