135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

mótvægisaðgerðir.

[15:30]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin sá hvorki fyrir það alvarlega ástand sem skapaðist á landsbyggðinni þegar hún ákvað að fara að mjög svo hæpnum tillögum Hafrannsóknastofnunar um niðurskurð á þorskafla um 60 þús. tonn á nýbyrjuðu fiskveiðiári né að uppsagnir fiskvinnslufólks hæfust á fyrstu mánuðum fiskveiðiársins.

Formaður Samtaka fiskvinnslustöðva segir að hátt í þúsund manns verði sagt upp störfum á næstu 6–12 mánuðum í sjávarbyggðunum. Svokallaðar mótvægisaðgerðir koma að sáralitlu leyti því fólki til góða sem missir vinnuna, þ.e. sjómönnum og fiskvinnslufólki. Í þjónustugreinum sjávarútvegs dregur einnig úr þjónustu og störfum heldur áfram að fækka hjá iðnaðarmönnum í vélsmiðjum, tækja- og rafmagnsverkstæðum, slippum og dráttarbrautum. Landsbyggðarfólki hefur nú verið boðinn flutningsstyrkur til að flytjast búferlum frá sinni heimabyggð í stað þess að efla atvinnu á stöðunum. Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, landsbyggðarmaður og þingmaður Norðvesturkjördæmis, kjördæmis sem mest hefur átt undir högg að sækja um þessar mundir, stendur nú fyrir fólksflutningum frá landsbyggðinni með ótrúlegri ákvörðun um 130 þús. tonna þorskafla. Sveitarstjórnir vítt og breitt um landið hafa ályktað um að þessar svokölluðu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar gerðu sáralítið gagn og minnst gagnvart því fólki sem er að missa vinnuna, sjómönnum og fiskvinnslufólki.

Í fréttum Ríkisútvarpsins um daginn sagði að það vantaði 20 þúsund manns á höfuðborgarsvæðið þar sem allt er að springa vegna þenslu og stórfelldra íbúðabygginga. Húsin spretta upp og það vantar fólk í þau. Er ríkisstjórnin e.t.v. að bregðast við þeim vanda? Styrkir það byggðir landsins að greiða fólki fé fyrir að flytjast þaðan, er þetta hin nýja byggðastefna ríkisstjórnarinnar? Hefur ríkisstjórnin hugleitt hvar það fólk er statt í lífinu sem þarf að flytjast búferlum frá heimahögum sínum bæði vegna rangra ákvarðana stjórnvalda í fiskveiðistjórn og aðgerðaleysis í atvinnumálum?

Íbúðarhús þessa fólks og aðrar eignir á stöðunum seljast ekki á raunvirði og á nýjum stað sem ríkisstjórnin vill að fólkið verði flutt til þarf það að byrja upp á nýtt eins og landnemarnir í Vesturheimi forðum. Framkoma ríkisstjórnarinnar gagnvart fólkinu í sjávarbyggðunum vítt og breitt um Ísland er ósanngjörn og ómanneskjuleg á allan hátt. Fyrrum sjávarútvegsráðherrar, þeir Lúðvík Jósepsson og Matthías Bjarnason, svöruðu á sinni tíð tillögum fiskifræðinga um að þorskstofninn væri að hruni kominn efnislega á þá leið að það stæði ekki til að drepa fólkið og friða þorskinn. Sömu afstöðu tók Halldór Ásgrímsson haustið 1983, að sjávarbyggðirnar yrðu að halda velli og þess vegna yrði ekki farið að ýtrustu kröfum fiskifræðinga þá varðandi niðurskurð þorskafla.

Aðeins sjávarútvegsráðherrar síðustu ára, þeir Þorsteinn Pálsson, Árni M. Mathiesen og nú Einar Kristinn Guðfinnsson, fara þessa leið. Niðurskurðurinn undanfarin ár hefur engum árangri skilað. Við höfum ekki notið ávaxtanna af þeim niðurskurði sem sjávarútvegsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa ákveðið. Þar má byrja á að rifja upp niðurskurðinn í þorskveiðunum á árunum 1992–1995. Staðreyndin er sú að það eru aðrar ástæður, m.a. mjög illa hannað kvótakerfi sem vegur að þorskstofninum og vegur að byggðum landsins. Við verðum að snúa af þeirri braut og við verðum einnig að tryggja að þorskstofninn hafi nægjanlegt æti. Þá mun okkur farnast betur.