135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

mótvægisaðgerðir.

[15:34]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það vekur athygli mína við þessa umræðu að enn gerist það að hæstv. sjávarútvegsráðherra fær ekki að tala. Hér situr hann hjá. Þeir forsætisráðherra mættu hvorugir þegar mótvægisaðgerðirnar voru kynntar. Ég hef haldið því fram að hann, drengurinn af Vestfjörðum, hafi orðið undir í ríkisstjórninni. Hann trúði því að gerðar yrðu ákveðnar mótvægisaðgerðir sem mundu gagnast til að koma til móts við byggðirnar. Þetta vekur athygli.

Það er rétt sem hér hefur komið fram, hæstv. forsætisráðherra, það fer engum vel að vera í fýlu og vondu skapi og ég vona að ég sé það ekki en ég er að tala hér um dauðans alvöru, mikið mál sem mun bitna á byggðunum. Eins og mér fer það illa að vera í vondu skapi fer hæstv. forsætisráðherra mjög illa að snúa út úr. Það er ekki réttur svipur. Hann reyndi að hæða tillögur Framsóknarflokksins en þar segir: „Beinar aðgerðir til stuðnings sjómönnum og launafólki, nám á launum.“

Hefur forsætisráðherra heyrt áður um nám á launum? (Iðnrh.: Hver var ráðherra ...?) Nei. Þá gæti það gerst í þeim efnum, hæstv. byggðamálaráðherra, að starfsmaður, sjómaður, fiskverkafólk, og fyrirtæki sæju sér leik á borði að fresta uppsögn, notaði fjórar vikur til að fara til náms á einhverju sviði eða í endurmenntun. Þetta eru ekki einhverjar gamaldags aðgerðir, forsætisráðherra, þetta er þekkt aðferð í nútímanum og hluti af tillögum ríkisstjórnarinnar miðar líka að endurmenntun. Þetta er því hreinn og beinn útúrsnúningur, hæstv. forsætisráðherra, sem fer illa í svona umræðu. Ég bið þig um að lesa þetta, þetta er upp á 1,2 milljarða og 150 milljónir til að fólk geti farið á námskeið.

Ég vil hins vegar þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hans innlegg í þessa umræðu. Ræðan var að hluta til málefnaleg. Hann virti þá viðleitni okkar framsóknarmanna að koma með konkret tillögur sem eru 4 til 5 milljörðum hærri og margar ganga til beinni verka, hefðu róað útgerðarfyrirtækin, fólkið í byggðunum og komið að verulegu gagni. Ég þakka fyrir þessi ummæli. Um leið segi ég náttúrlega við hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. ráðherra var að grobba sig af því að hann hefði fundið 49 milljarða óvænt, tekjurnar væru slíkar, og það flóði upp úr öllum döllum hjá hæstv. fjármálaráðherra. Byggðasvæðin sem nú eiga í miklum erfiðleikum í tvö, þrjú ár valda því ekki þenslu, hagvöxtur er í mínus í þessum byggðarlögum. (Gripið fram í: Arfleifð Framsóknar.) Nei, þorskurinn er ekki arfleifð Framsóknar. Þess vegna hefði verið auðvelt að koma að með meiri og myndarlegri hætti og ég er að hvetja ríkisstjórnina til þess.

Ég spái því að hæstv. sjávarútvegsráðherra eigi líka eins og hvað hvalamálið varðar, þegar hann sneri frá því, eftir að snúa frá þessari vitlausu ákvörðun og tilkynna það, vonandi, að staðan í sjónum sé betri en útlit er fyrir og hann eigi eftir að auka þessar tillögur upp í 150 þús. tonn. Það mun hjálpa okkur í ýsuveiðum og ufsaveiðum eins og ég hef getið hér og það mundi hjálpa byggðarlögunum mjög.

Ég ætla ekki að fara að karpa hér við hinn glaða hæstv. byggðamálaráðherra sem telur lífið skemmtilegt, sem það er, en mér finnst samt sem áður að menn geti ekki talað af gáleysi um svona stórt mál. Við erum öll sammála um að okkur er mikið í mun að halda landinu í byggð, öllum sem hér erum, og þess vegna hélt ég að hæstv. (Forseti hringir.) ríkisstjórn mundi leggja mikið á sig. Því miður eigum við framsóknarmenn ekki lýsingarorðin sem nú blasa við í öllum fjölmiðlum. Það eru sjálfstæðismenn, (Forseti hringir.) jafnaðarmenn, sveitarstjórnarmenn og útgerðarmenn (Forseti hringir.) sem eru undrandi og hryggir yfir tillögum ríkisstjórnarinnar. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að lokum að endurskoða þessar tillögur og gera þær öflugri.