135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:00]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra brást ekki þingheimi í því að svara með útúrsnúningum og tuði. Greinilegt er að það kom illa við hann að þurfa að svara fyrir trúverðugleikann. Það getum við í Vinstri grænum gert. Við getum svarað fyrir trúverðugleikann en ekki hæstv. ráðherra eins og við heyrðum hér áðan. Þetta er efnahagsvandinn, þ.e. skortur á trúverðugleika.

Ég velti fyrir mér hvernig hæstv. ráðherra hafi fengið fjárlögin í gegn, af því að hann minntist á að hann væri búinn að fá svo góðan nýjan samstarfsflokk. Hvað með skattleysismörkin sem var lofað fyrir elli- og örorkulífeyrisþega að ætti að hækka upp í 100 þús. kr. og grunnlífeyrir hækkaður? Þetta var loforðið sem Samfylkingin sagðist ætla að efna þegar að loknum kosningum. Þess sér ekki stað í frumvarpinu.

Hins vegar fékk hæstv. ráðherra Samfylkinguna til að samþykkja hækkun á komugjöldum á heilbrigðisstofnunum um 160 millj. kr. á næsta ári og 100 millj. kr. hækkun á gjöldum sjúklinga til sérfræðinga. Fékk fjármálaráðherrann Samfylkinguna til að samþykkja hækkun á komugjöldum til heilbrigðisstofnana, til sérfræðinga? Það kemur mér mjög á óvart. Ég man eftir því að við stóðum í þingsalnum í fyrra og börðumst gegn hækkun á komugjöldum á heilbrigðisstofnunum. Núna er þessu einfaldlega rennt inn í frumvarpið. Fékk fjármálaráðherra Samfylkinguna til að samþykkja það? Mér er spurn.

Ég ítreka spurningar mínar til hæstv. fjármálaráðherra: Getur hann gefið einhverja frekari tryggingu en fyrri ár varðandi trúverðugleika frumvarps síns? Við stöndum frammi fyrir kjarasamningum og hver vill semja við aðila sem veit ekki hvort hann hefur 30, 40, 50, 60 eða 80 milljarða kr. tekjur eða gjöld umfram áætlun? Hver semur við slíka aðila, sem ekki vita um hvað þeir hafa í bakhöndinni?