135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:09]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er engu nær um þær spurningar sem ég bar upp. Það er kannski siðvenjan hér á þessum nýja vinnustað. (Gripið fram í.) En ég fékk einkunnir, já. Skilvirkni mætti hér vera meiri. Varðandi einkunnir um að ég fylgi ekki nógu dyggilega forustu míns góða foringja Guðna Ágústssonar þá bið ég hæstv. fjármálaráðherra að ræða það við iðnaðar- og byggðamálaráðherra sem hefur á móti sagt að ég fylgi mínum foringja algerlega í blindni. Ég æski þess að ríkisstjórn komi sér heim og saman um hver afstaða hennar í því máli er.

Ég skildi ræðu formanns Framsóknarflokksins ekki með sama hætti og hæstv. fjármálaráðherra. Það er aftur á móti afskaplega grunn og einföld gagnrýni á okkur sem höfum gagnrýnt að fjárlög séu of bólgin mitt í góðærinu, kreppufjárlög, að þar með höfum við ekki rétt til að leggja fram útgjaldaaukningu á einu eða neinu sviði. Ég minni á að á Íslandi ríkja nánast tvö hagkerfi, í öðru þeirra er mikill samdráttur, á landsbyggðinni. Þótt við teljum of mikla þenslu víða á höfuðborgarsvæðinu og það sé höfuðborgarbúum síst til hjálpar að auka þá elda er ekki þar með sagt að ekkert eigi að gera og við höfum með gagnrýni okkar algerlega komið okkur út af kortinu varðandi það að geta rætt um nokkur útgjöld.