135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:39]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hæstv. fjármálaráðherra, út af því að verið var að kalla eftir því áðan að hæla honum, að óska honum til hamingju með að hafa lagt fram fjárlagafrumvarpið og starfsmönnum fjármálaráðuneytisins fyrir þá vinnu sem þeir hafa lagt í gerð þess svo og starfsmönnum allra annarra ráðuneyta og stofnana.

Eins og þingheimur veit liggur að baki gerð fjárlagafrumvarpsins hverju sinni gríðarleg vinna og þrátt fyrir að það séu hugsanlega ólíkar skoðanir um innihaldið hverju sinni líkt og fram hefur komið í ræðu talsmanns Vinstri grænna í ríkisfjármálum, hv. þm. Jóns Bjarnasonar, þá er það hins vegar svo að við sem störfum hér á þingi og sitjum m.a. í fjárlaganefnd verðum að horfa til þeirrar miklu vinnu sem lögð hefur verið í gerð frumvarpsins. Tugir ef ekki hundruð starfsmanna ríkisins hafa komið að þessu mikla verki og þið þekkið það sem hafið verið hér á þingi lengur en ég að allir hafa lagst á eitt við að kappkosta að halda sig við tíma- og verkáætlanir við gerð frumvarpsins.

Tíma- og verkáætlunin er sett þannig upp að það er mjög snemma á þessu ári sem menn fara af stað í þá vegferð að draga saman heildarmyndina í frumvarpinu og á þeim tíma eru menn m.a. að vinna með tekjuspá sem er hugsanlega örlítið önnur en hér hefur komið fram. Þess vegna má segja að fjárlögin hverju sinni séu kannski ekki eins og ákvarðanir hjá einkafyrirtækjum sem hugsanlega eru jafnvel teknar á einum, tveimur dögum eins og gerðist í gær hér á landi þar sem menn geta mjög fljótlega hent upp nýrri tekjuáætlun eða útgjaldaáætlun og tekið stórar og miklar ákvarðanir. Hér byggjum við auðvitað á stjórnarskrárákvæðum og ákvæðum um fjárreiðulög um hvernig verkinu vindur fram hverju sinni.

Hv. þm. Jón Bjarnason, félagi minn og vinur úr fjárlaganefnd sem hefur setið með mér í allt sumar og rætt um framkvæmd fjárlaga, vék að því í andsvari sínu við hæstv. fjármálaráðherra að það væri lítið að marka fjárlögin. Ég vil einfaldlega segja við þennan ágæta hv. þingmann að auðvitað er mikið að marka frumvarp til fjárlaga hverju sinni. Hins vegar geta verið ólíkar skoðanir um innihaldið. Það er auðvitað það sem við eigum að ræða um hverju sinni frekar en að vera að gera lítið úr þessu mikla verki sem ég hef vikið að í inngangi mínum.

Hvað varðar hins vegar trúverðugleikann verður hver að eiga það við sjálfan sig hvernig hann kemur fram. Það má vel vera að mönnum finnist menn ekki vera trúverðugir í þessum hlutum en ég verð hins vegar að segja að það er hlutverk okkar sem komum að hinum opinbera rekstri, hvort sem það er hjá ríki eða sveitarfélögum, að leggja upp með varfærnar tekjuspár og að sama skapi að leggja upp með raunsannar útgjaldaáætlanir. Það á að vera leiðarljósið óháð því hvort við höfum mismunandi skoðanir á innihaldi tekjuhliðarinnar og/eða útgjaldahliðarinnar.

Fjárlagafrumvarpið byggir að þessu sinni, eins og ég sagði áðan, á ákveðinni verk- og tímaáætlun sem fór af stað á fyrri hluta ársins. Líkt og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á þegar hann svaraði talsmanni Framsóknarflokksins í ríkisfjármálum, hv. þm. Bjarna Harðarsyni, þá er auðvitað mjög margt í frumvarpinu sem búið var að taka ákvarðanir um á fyrri hluta ársins. Farið hefur verið yfir það í kynningum og hugsanlegt að ég geti komið að því í ræðu minni án þess að tiltaka það sérstaklega af því að þar eru auðvitað mjög margir góðir hlutir eins og hv. þm. Bjarni Harðarson veit.

Það hefur verið góð afkoma af ríkissjóði mörg ár í röð og ef fjárlagafrumvarpið gengur eftir, líkt og stefnt er að, þá horfum við upp á 300 milljarða kr. tekjuafgang sl. fjögur ár. Inni í því er vissulega ákveðin eignasala sem átti sér stað 2005 en tekjuafgangur ríkissjóðs að þessu sinni er um 31 milljarður sem jafngildir 2,4% af landsframleiðslunni. Lánsfjárafgangur af fjárlögunum er góður því að það er lagt upp með það að hann sé 32 milljarðar og gert ráð fyrir að hrein staða ríkissjóðs verði jákvæð sem nemur 4,9% af landsframleiðslunni. Heildartekjuhliðin í frumvarpinu er um 460 milljarðar og gjaldahliðin er upp á 430. Ég mun rétt á eftir gera grein fyrir því í hverju helsti útgjaldaukinn er fólginn miðað við þá stefnumörkun sem lagt hefur verið upp með.

Ég vil minna þingheim á það og sérstaklega félaga mína í fjárlaganefnd að horfa til þess, svo og líka þá sem sitja í fastanefndum þingsins, að útgjöldin sem eru um 430 milljarðar skiptast þannig að langsamlega stærstur hluti liggur á sviði heilbrigðis- og tryggingamála, 36% eða tæpir 160 milljarðar af 430. Þar á eftir eru 12% í menntamál, 51 milljarður, og tæp 10% í félagsmál, 23 milljarðar. Það má því segja að um 60% af fjárlögum liggi á þremur afmörkuðum sviðum.

Vissulega er erfitt, eins fram hefur komið, að spá fyrir um tekjur hverju sinni og hv. þm. Jón Bjarnason vék að því. Hins vegar hefur hæstv. fjármálaráðherra boðað ákveðnar breytingar ásamt því sem við höfum rætt það í fjárlaganefnd gagnvart gerð fjárlaga hverju sinni. Það sem skiptir máli er það að við getum farið af stað með ákveðna endurrýni á fjárlagagerðina og horft til þess að fjárlögin verði hugsanlega raunsannari þegar líður á árið en nú er. Þá um leið hefur verið boðuð breyting er lýtur að rammafjárlagagerð. Ég get sagt fyrir mitt leyti að það er gríðarlegur styrkur fyrir þingið að geta komið að slíku verki. Hér er verið að horfa á það að á vorþingi verði samþykkt rammafjárlög fyrir árin 2009–2012. Þetta eru atriði sem þingheimur hefur kallað eftir í mjög langan tíma.

Þeir sem starfa í sveitarstjórnum þekkja það að um síðustu aldamót var sett í löggjöf um sveitarstjórnarmál að sveitarstjórnir þyrftu mánuði eftir fjárhagsáætlun hvers árs, sem er í raun hin eiginlega fjárlagagerð sveitarfélaganna, að leggja fram og taka til umræðu rammafjárhagsáætlun fyrir næstu þrjú ár þar á eftir. Þau 79 sveitarfélög sem starfa hringinn í kringum landið vinna eftir þessu vinnulagi. Þetta hefur þýtt að sveitarfélögin hafa getað lagt út ákveðna stefnumarkandi þætti í rammafjárhagsáætlunum. Á sama hátt mun það verða hægt hér þegar þingið samþykkir eða tekur til umræðu rammafjárlög fyrir fjögur árin þar á eftir að sjá hvert stefnir í einstaka málaflokkum.

Vissulega eru fjárlögin líka þannig til komin að gert er ráð fyrir að það verði meira jafnvægi í efnhagsmálum. Efnahagsforsendur frumvarpsins sem efnahags- og skattanefnd mun taka til skoðunar gera ráð fyrir því að hagvöxturinn verði 1,2%, hækkun verðlags verði 3,3% og aukinn kaupmáttur ráðstöfunartekna verði 1%. Gert er ráð fyrir því að atvinnuleysi á næsta ári fari upp í 2,9%. Ég hef tekið eftir því í umræðunni eftir að þessar forsendur voru kynntar, 2,9% atvinnuleysi, að mönnum virðist þykja vera mikil óvissa í þessum þætti á næsta ári. Ég get vissulega tekið undir það og ég held að þeir sem þekkja til í atvinnulífinu mundu gera það með mér að það er ekki að finna neinn staf í því, alla vega á þessum tímapunkti, um að atvinnuleysi muni aukast. Hins vegar er það svo og við þekkjum það öll að þegar breytingar verða gerast þær mjög fljótt varðandi atvinnuleysi og hugsanlega samdrátt.

Viðskiptahalli er áætlaður 8,8%. Það þýðir að við horfum fram á það að verðbólgan hjaðni og líkt eins og hæstv. forsætisráðherra kom að í umræðu á þriðjudagskvöldið að draga muni verulega úr viðskiptahallanum. Það hlýtur að vera jákvætt fyrir okkur öll að horfa fram á það og ég veit að hv. þm. Jón Bjarnason, talsmaður Vinstri grænna í ríkisfjármálum, tekur undir það sjónarmið með mér og okkur hinum.

Ég vil einnig minnast á að það eru ákveðin útgjaldatilefni sem eru nokkuð stór. Þar með talið er ákveðinn stofnkostnaður sem er farið í, þá sérstaklega í samgöngumálum. Það eru breytingar um 20 milljarða frá áætluninni fyrir árið 2007. Það eru einnig breytingar í almannatrygginga- og velferðarmálum um 10 milljarða, í heilbrigðismálum um 7 milljarða, í löggæslu- og öryggismálum um 3 milljarða og í fræðslumálum um tæpa 3 milljarða.

Segja má að umræddar mótvægisaðgerðir vegna aflasamdráttar og brotthvarfs varnarliðsins, vaxtagjöld, aukning á atvinnuleysi og stofnkostnaður sem hér var lýst skýri um 70% af hækkun útgjaldanna í hlutfalli við landsframleiðslu. Hér er auðvitað horft á það að verið er að fara fram með gríðarlegar framkvæmdir í samgöngumálum, í vegaframkvæmdum. Ég sé að hæstv. samgönguráðherra er að fara yfir þetta staf fyrir staf og er búinn að sitja hér sveittur frá því í morgun að velta upp hvað það er sem verið er að fara í. Ég vil meina að þarna sé annar óvissuþáttur í fjárlagagerðinni. Nú kunna kannski einhverjir að segja að ég tali tæpitungulaust en við höfum einfaldlega verið að horfa upp á það að verkefni á vegum hins opinbera, sveitarfélaga eða ríkis, jafnvel einkaaðila er varða fasteignir, er varða stofnframkvæmdir, að þau hafa farið hægar fram en ella. Gerist það vegna nokkurra þátta.

Í fyrsta lagi vegna þess að það er ekki til staðar nægjanleg fagleg hæfni til þess að vinna verkið. Ástæðan er einfaldlega sú að þeir verktakar sem hafa verið að vinna að þessum verkefnum eru og hafa verið upp fyrir haus. Síðan er orðið tímafrekara en ella að fara fram með verkefni í stofnframkvæmdum eins og vegaframkvæmdum en á árum áður. Koma þar til breytingar á skipulags- og byggingarlögum sem voru samþykktar og tóku gildi 1. janúar 1998, lög nr. 73/1997, en þau kveða á um að fram fer umfangsmikil samræða í sveitarfélögunum um þær breytingar sem fara á fram með. Við þekkjum líka löggjöf um mat á umhverfisáhrifum, löggjöf um fornleifarannsóknir og þessa þætti. Þar af leiðandi hefur vegagerð orðið mun tímafrekari í hönnun og undirbúningi en áður.

Ég horfi glaðbeittur á félaga minn, hæstv. samgönguráðherra, og veit að hann mun halda vel utan um þetta og við þingmenn allir styðja hann í því að ná þessum verkum fram því að hér eru verk sem að mig minnir allir stjórnmálaflokkar gátu tekið undir að mestu á vormánuðum. Auðvitað eru ólíkar skoðanir um einstaka verk en stóra myndin er hins vegar sú að menn gátu í þessum verkum tekið undir velflest þeirra en það verður mikið verkefni fyrir samgöngunefnd að fara yfir þessi mál.

Frú forseti. Ég vil að lokum benda þingheimi á það að annar óvissuþáttur er tiltekinn, með leyfi forseta, í skýrslu fjármálaráðuneytisins um þjóðarbúskapinn á síðu 32 er lýtur að launum á komandi árum. Þar sem kjarasamningar eru flestir lausir um næstu áramót og spenna ríkir enn á vinnumarkaði ríkir nokkur óvissa um þessa þætti og þar af leiðandi tekur fjárlagafrumvarpið nokkurt mið af því.

Ég vil einnig að sama skapi, til þess að létta um fyrir þingmönnum, benda þeim á síðu 22, með leyfi forseta, í sömu skýrslu en þar er fjallað um aðgerðir til að mæta niðurskurði í þorskafla. Þar er auðvitað verið að leggja út aðgerðirnar upp á árin þrjú og fjalla um þau hvert um sig. Þar sést hvernig tölurnar telja sig upp í þá 10, 11 milljarða sem hér hafa verið til umræðu.

Frú forseti. Að lokum vil ég ítreka þakkir til þeirra sem komu að gerð frumvarpsins því að eins og ég sagði í upphafi eigum við þingmenn að þakka því fólki fyrir sem hefur lagt á sig mikla vinnu við gerð þess þrátt fyrir að við höfum kannski ólíkar skoðanir á innihaldinu. Fjölmargir starfsmenn ríkisstofnana, ráðuneyta og ýmsir aðrir hagsmunaaðilar hafa komið með upplýsingar og unnið mikla vinnu, það sést einfaldlega á þessum gögnum.

Við höfum rætt um rammafjárlög, við höfum rætt um hugsanlegar breytingar á verklagi við fjárlagagerðina og að lokum vil ég ítreka að það er samhljómur á milli okkar í fjárlaganefnd um að annað af meginverkefnum fjárlaganefndar sé sá stóri þáttur sem lýtur að framkvæmd fjárlaga. Við höfum verið að taka upp ný vinnubrögð í þeim efnum og það er fullur hugur í fjárlaganefnd með vitund og vilja hæstv. fjármálaráðherra að þingið virki og sinni enn frekar eftirlitsstörfum sínum og við höfum á umliðnum vikum og mánuðum kallað eftir gögnum.

Ég vonast til þess að fastanefndir þingsins geti nýtt sér þá miklu vinnu sem við höfum farið í til þess að endurrýna og fara yfir fjárlagafrumvarpið á milli umræðna.