135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi efnahagsstofu þá get ég upplýst að mig minnir að þetta hafi verið meginþorra þingmanna Samfylkingarinnar á fyrri þingum mikið áhugamál. Þarna er ekki verið að tjá neitt vantraust á það sem er í gangi hjá fjármálaráðuneytinu heldur að þetta sé eitt mikilsverðasta tækið til að styrkja trúverðugleika og starfsemi þingmanna, ekki bara stjórnarandstæðinga heldur allra. Ég vil ítreka það.

Frú forseti. Mig langar að beina annarri spurningu til hv. þingmanns sem er líka reyndur sveitarstjórnarmaður og er það enn ef ég man rétt hvað sem síðar verður hjá hv. þingmanni, en það hafa verið uppi mjög stór orð um að það þurfi að færa til fjármuni frá ríki til sveitarfélaga. Mörg sveitarfélög eru mjög skuldug. Verkefni sem hafa færst þangað yfir hafa ekki fengið fjármagn. Einnig hefur komið krafa um að sveitarfélögin fái beina hlutdeild í ákveðnum tekjustofnum ríkisins til að styrkja fjárhagslegan grunn sinn. En þess sér hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu, það eru hvergi neinar vísbendingar í þá veruna að styrkja tekjugrunn sveitarfélaganna, hvorki með beinum framlögum umfram það sem nefnt er í þessum svokölluðu mótvægisaðgerðum sem er bara smotterí, hvergi annars, né er heldur neitt vikið að því að styrkja eigi tekjustofnana með beinum hætti, t.d. með því að sveitarfélögin fái beina hlutdeild af tekjustofnum sem ríkið hefur núna — og virðist reyndar vera í vandræðum með.