135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:06]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst að fyrri spurningunni um hina sjálfstæðu efnahagsstofu. Það má vel vera að þeir þingmenn sem hér voru með hv. þingmanni á síðasta þingi og fylltu þann hóp sem Samfylkingin var með hafi unnið að þessu máli með hv. þingmanni þá en ég kom hins vegar ekki að þeirri vinnu. Ég var ekki að skjóta neitt út af borðinu, hv. þingmaður, heldur var ég einfaldlega að benda á það að forgangsatriði okkar í þessari vinnu snúa að rammafjárhagsáætlunargerðinni, framkvæmd fjárlaga og að breyttu verklagi við fjárlagagerðina. Það eru forgangsatriðin sem á að skoða á þessu stigi og ég held að hv. þingmaður sé eiginlega sammála mér í meginatriðum varðandi öll þau þrjú atriði.

Ef við hins vegar skoðum tekjustofna ríkis og sveitarfélaga þá þekkja menn það og vita að ég hef verið talsmaður þess á umliðnum árum að styrkja beri tekjustofna sveitarfélaga og ég ætla ekkert að víkja mér undan þeirri umræðu. Ég hef m.a. bent á að það séu ákveðnir tekjustofnar sem sveitarfélögin geti hugsanlega horft til. Það er í gangi vinna á milli Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisins að skoða þá hluti. Á sama hátt erum við með nefnd í gangi, ríki og sveitarfélög, varðandi endurskoðun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Ég vil benda ágætum þingheimi á það að framlög til jöfnunarsjóðsins hafa verið að aukast ár frá ári því þau tengjast veltunni. Hins vegar hafa margir bent á að það er að skapast ákveðin yfirjöfnun í jöfnunarsjóðnum og þær aðgerðir sem sjóðurinn getur gripið til þurfa ekki endilega að henta öllum sveitarfélögum því ákveðin sveitarfélög hafa ekki tekjur úr jöfnunarsjóði og hafa ekki haft á umliðnum árum. Þetta er því í raun tvíþætt umræða, en að lokum bendi ég á að framlög til jöfnunarsjóðs eru einnig að koma í gegnum mótvægisaðgerðina og sérstök aukaframlög sem samþykkt voru á vorþingi.