135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:13]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að umfjöllunarefni dagsins er frumvarp til fjárlaga, frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra hefur ákveðið að miða við þær forsendur að stóriðjuuppbyggingu í landinu sé nú lokið, að hér muni ríkja stöðnun í kjaramálum á næstunni, að hér sé að hægja á hjólum hagkerfisins og hér komi allt af sjálfu sér með fallegum haustlitum.

Þessar aðstæður gefa ríkisstjórninni svo möguleika á allt að 20% aukningu ríkisútgjalda ef miðað er við reynslu liðinna ára um gang mála frá fyrsta fjárlagafrumvarpi til lokaniðurstöðu ríkisreiknings. Nýjar vinnureglur meiri hlutans sem setja á í framhaldi af Grímseyjarferjumáli gætu lyft þessari tölu enn ofar. Framkvæmdarvaldið boðar líka skattalækkanir á kjörtímabilinu og útgreiðsla á kosningavíxlum tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins er hafin. Hikandi á köflum en hún er hafin.

Það eru sem sagt sannkölluð kreppufjárlög hér til umræðu. Einhvern tímann boðuðu sjálfstæðismenn að það yrði í landinu kreppa ef samfylkingarmenn kæmust til valda, en þetta er heldur um of mikill bölmóður fyrir minn smekk.

Ég heyrði að hv. formaður fjárlaganefndar hafði líka efasemdir og kem kannski aðeins að þeim á eftir.

Það er vond blanda, bölmóður og dramb saman, og þeir sögðu, þeir gömlu, að dramb væri falli næst og það eru að verða orð að sönnu í sögu Sjálfstæðisflokksins sem fékk síðasta vetur glæsilega kosningu og tókst svo að innlima heilan krataflokk í regnhlíf flokksins austur í Valhöll. Flokkurinn telur sig því hafa öll ráð í hendi sér, ekki bara ofurmeirihluta á þingi heldur líka alla fjölmiðla landsins undir krumlu sinni og engan andstæðing utan litla stjórnarandstöðu hér í þingsalnum og kannski einn eldri mann í húsi við Sölvhól — sem hver tekur þar lengur mark á? Að minnsta kosti þykir mér hæstv. fjármálaráðherra ekki gera það með sínu innspýtingar- og þenslufjárlagafrumvarpi.

Á liðnu sumri kom upp á yfirborðið að hæstv. fjármálaráðherra hafði í svokölluðu Grímseyjarferjumáli ráðstafað fé gróflega á skjön við lög um fjárreiður og þar með á skjön við þá þrískiptingu valds sem stjórnskipan okkar og stjórnarskrá byggja á. Stjórnarskráin, það er þetta gamla plagg sem við sverjum trúnað okkar við, en sleppum því í bili, það er máske úrelt að tala um slíka hluti í landi þar sem vel helmingur ráðherra landsins hefur orðið efasemdir um fullveldi Íslands. Og vitaskuld eins og hver önnur leiðindi að vera að tala um að fjármálaráðherra megi ekki ráðskast með ríkissjóð að vild. Við þann sjóð hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokks nú setið allt frá því að okkar góði Möðruvellingur Ólafur Ragnar Grímsson stóð þar upp 1991, enda styggðist fjármálaráðherra mjög við athugasemdir Ríkisendurskoðunar og sýndi okkur nú hvers megnugur flokkur hans er. Og ekki þurfi einhverjir smástrákar úr Firðinum að vera með uppsteyt.

Í stað þess að taka gagnrýnina til greina boðar fjármálaráðherra krók á móti bragði og einhvers konar sjálftöku stofnana úr ríkissjóði, lántökur og fleira sem hvergi hefur komið fram hvernig samrýma á stjórnarskrá þessa lands. Við sem sitjum í fjárlaganefnd höfum reyndar ekki fengið meira að vita um þetta en það sem ráðherra þóknast að segja í fréttablaðsviðtali fyrir nokkrum dögum og svo eftirfarandi setningu úr 7. gr. fjárlagafrumvarpsins sem lendir þar fyrir augum okkar þingmanna, jafnt fjárlaganefndarmanna sem annarra, án nokkurrar undangenginnar umræðu — það eru samræðustjórnvöldin, hæstv. samgönguráðherra — og þarf svo sem ekki vitnanna við, með leyfi hæstv. forseta:

„Að heimila sjúkrahúsum að taka þátt í eða eiga samstarf við fyrirtæki sem vinna að vísindarannsóknum og þróun nýjunga á sviði heilbrigðismála …“ — Allt er þetta gott og blessað. Síðan kemur og það mun kæta gróðaöfl samfélags okkar:

„Samningar, sem fela í sér fjárskuldbindingar, skulu lagðir fyrir ráðherra“ — takið eftir, ráðherra, þá flokksbræðurna, það stendur reyndar ekki, þetta um flokksbræðurna í fjárlagafrumvarpinu, ég bætti því hér inn innan hornklofa — „heilbrigðismála og fjármála til staðfestingar.“

Það þarf ekkert að ræða það neitt við þingið, ekki við fjárlaganefndina. Stofnað verður til útgjalda á heilbrigðissviðinu, stórkostlegra útgjalda, í gegnum þessa litlu grein þannig að Grímseyjarferjumálið verður kirfilega grafið undir enn stærri skriðuföllum árása framkvæmdarvaldsins á þrískiptingu valdsins, á fjárveitingavald Alþingis. Þetta er leiðin í Grímseyjarferjumálinu.

Ég kallaði síðast í fyrradag eftir viðbrögðum samfylkingarmanna, hæstv. samgönguráðherra og hv. þingmanna Samfylkingarinnar. — Fleirtala á kannski ekki við. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmann um að ávarpa forseta en ekki einstaka þingmenn eða ráðherra.)

Ég tek það til greina.

Ég kallaði síðast í fyrradag eftir viðbrögðum samfylkingarmanna við þeirri hægri stefnu sem nú skal keyrð yfir heilbrigðismál okkar lands og ég ítreka þá fyrirspurn mína hér. Hæstv. forsætisráðherra hefur látið þau orð falla um heilbrigðiskerfið að við sem viljum standa vörð um velferðina höfum áhyggjur af. Ég veit að fjölmargir af kjósendum Samfylkingar deila þeim áhyggjum með okkur. Kannski á þetta þó ekki við um þá samfylkingarmenn sem nú verma ráðherrastóla.

Umræðuefni dagsins er það háttalag fjármálaráðherra að telja að hægt sé með þessum hætti og þeim sem hann boðaði í fréttablaðsviðtali að ganga nú skipulega á skjön við fjárreiðulög og þrískiptingu valdsins. Líklega var það þetta sem meiri hluti fjárlaganefndar átti við þegar nefndin hafði orð á því í yfirlýsingu um Grímseyjarferjumálið að skerpa þyrfti á reglum svo að ekki komi til ágreinings að nýju milli Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytis.

Það var ekkert sagt í þeim yfirlýsingum meiri hluta fjárlaganefndar um hvernig þessar reglur skyldu lagaðar en einfaldasta og skilvirkasta leiðin er vitaskuld að flytja einfaldlega allt vald til ráðuneytanna sem Sjálfstæðisflokkurinn ræður í dag og telur sjálfsagt að hann muni ráða um alla framtíð með sínum 40%, flytja allt vald ráðuneytanna. Ég held reyndar að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lengi haft vel völd við kjörfylgi og í dag miklu meira.

Það er von að flokkur í þessari stöðu telji sig líka geta ráðið veðri og vindum í efnahagslífinu, geti bara slegið því föstu að þenslan sé nú að baki og sagt sisona: Stóriðjutímabilinu er lokið. Þessi sérstaka veðurspá í fjárlagafrumvarpinu á bls. 6, í litlu bókinni, þar sem fjallað er um stefnur og horfur, með leyfi forseta:

„Til að mæta væntum“ — ég hnaut um þetta orð, þetta ætti að vera væntanlegum en þetta er nafnorðið vænti í eintölu karlkyni — „samdrætti í þjóðarútgjöldum hefur verið ákveðið að auka útgjöld til fjárfestinga ríkissjóðs árið 2008. Þá er víða brýn þörf á úrbótum í innviðum efnahagslífsins, sérstaklega úti á landi. Aukningin er þó aðeins brot af fyrirséðum samdrætti í fjárfestingu atvinnuveganna við lok stóriðjuframkvæmda.“

Er atvinnulífið orðið eitthvert „skuespil“ sem ráðherrar ætla að stjórna hérna? Hver boðaði þessi lok stóriðjuframkvæmda? Ég veit það ekki.

„Í fjárlögum fyrir árið 2008 er gert ráð fyrir aðhaldsstigi sem er í samræmi við væntingar um hægari hagvöxt á árinu,“ segir enn fremur.

Í þessu sama riti er því slegið föstu að verðbólga fari lækkandi, atvinnuleysi vaxandi og þenslan er sem sagt á förum, ekki af því að eitthvað hafi gerst hér utan veggja þingsins eða stjórnvöld hafi gripið til einhverra sérstakra ráðstafana. Nei, því skyldi flokkur sem hefur öll völd ómaka sig af jafnmiklum hégóma og raunveruleikanum? Flokkur sem hefur tögl og hagldir og meira að segja hæstv. iðnaðar- og byggðamálaráðherra sem sérstakan talsmann. Slíkur flokkur hlýtur að geta stjórnað hagkerfinu með hugarórunum einum og þarf kannski ekki að láta sig raunveruleikann öllu varða.

Hann þarf ekki einu sinni að hafa minni nokkrar vikur aftur í tímann í þeim efnum, við fengum staðfestingu þess í umræðum í gær um mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar þegar hæstv. fjármálaráðherra fullyrti að það hefði verið haft mjög mikið samráð og aldrei meira um nokkrar aðgerðir eins og í mótvægisaðgerðum við sveitarfélögin í landinu. Ég kalla eftir því hvaða flokksbræður hæstv. fjármálaráðherra staðfesta þessi orð. Ég heyri frá þeim mjög mörgum — þeir eru margir í mínu nágrenni, mínu kjördæmi — að þetta er ekki þeirra upplifun af samráði um mótvægisaðgerðir.

En svona er raunveruleikinn mikill hégómi þegar maður er orðinn stór og sterkur.

Hæstv. iðnaðar- og byggðamálaráðherra ríkisstjórnarinnar hefur samsamað sig vel þessum veruleika. Meira að segja í fréttatilkynningu sem þeir stóðu saman að, hann og hæstv. fjármálaráðherra, um mótvægisaðgerðir var notuð alveg áður óþekkt aðferð til samlagningar. Hæstv. byggðamálaráðherra — það er svo langt að segja alltaf iðnaðar- og byggðamálaráðherra eins og mér skilst að sé réttur titill — bætti svo um betur í sumar og nú eru mótvægisaðgerðirnar sem ekki einu sinni Morgunblaðinu tókst að reikna upp í meira en nokkra milljarða og nema í reynd, í þeim veruleika sem fólk lifir við hér utan þingsalanna, 3–4 milljörðum, komnar í þingsal þessum í gær, ef mig brestur ekki heyrn á aftasta bekk, í 16,5 milljarða. Ég velti fyrir mér hvaða stærðfræðiaðferðir eru notaðar, hvort hv. stærðfræðingur stjórnarmeirihlutans hafi diffrað tölurnar saman. Ég veit það ekki.

Ég veit bara það (Gripið fram í.) — já, veldisvexti frekar. Þar sér nú hvað mér er farið að förlast síðan í stærðfræðideildinni í gamla daga. Ég veit bara að Sjálfstæðisflokki og foringjum hans er nú farið eins og kóngum vorum norrænna manna sem sumum hættir til að ofmetnast af valdi sínu og vildu sigla en gleymdu gjarnan að byr mun jafnan ráða.