135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:28]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er svolítið ráðvilltur því að hv. varaformaður fjárlaganefndar hóf ræðu sína á því að segja að fátt hefði komið honum á óvart í ræðu minni en hún vekti honum furðu. Og nú velti ég fyrir mér hvort það sé eitthvað í tungutaki minna mætu vina í Eyjafirði sem ég kann vel að meta, og samstarfið við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur verið skemmtilegt, sem ég ekki skil.

En við skulum ekki hengja okkur í smáatriði. Mér þótti vænt um að heyra það að hv. varaformaður fjárlaganefndar hafi áhyggjur af valdi fjárlaganefndar og ég kalla eftir áliti hans og viðbrögðum við þeim fyrirætlunum sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu, þar á meðal í tilvitnaðri 7. gr., í ákvæðinu sem ég las upp úr áðan, og þeim fyrirætlunum sem eru uppi um að auka möguleika ríkisstofnana til lánsheimilda og aukið, að ég vil túlka sem svo, frjálsræði í ríkisfjármálum sem ég hef miklar áhyggjur af.