135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:29]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er allt að koma hjá hv. þm. Bjarna Harðarsyni, að taka til norðlenska tungutaksins og ég óska honum velfarnaðar í því. Ég vænti þess að hann muni læra það óðfluga í samstarfi okkar í vetur.

Það er rétt að ég deili að nokkru áhyggjum hans af völdum og áhrifum þingsins. Það er umræða sem er síkvik og á alltaf að vera uppi. Varðandi þær hugmyndir sem hann nefndi sérstaklega þá hefur verið opnað á að ræða breytingar og aðra útfærslu en tíðkuð hefur verið á 7. gr., heimildaákvæðum. Það kom m.a. fram hjá hæstv. fjármálaráðherra úr þessum ræðustóli hér.

Hv. þingmaður spurði um lánsheimildir ríkisstofnana en ég lít á þá tillögu sem hæstv. fjármálaráðherra hefur kynnt sem mjög gott innlegg í að breyta því ástandi sem hefur ríkt í þessum búskap. Ég tel gjörsamlega ólíðandi að við rekum ríkissjóð með þeim bravúr sem raun ber vitni á umliðnum árum en á sama tíma séum við með ríkisstofnanir sem keyra sig á yfirdrætti í bönkum svo nemur tugum eða hundruðum milljóna. Allar tillögur í þá veru að breyta þessu ástandi eru að mínu mati mjög góðar og æskilegar.