135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:54]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum mörg hver sem höfum farið í ræðustól undanfarna daga nefnt það alveg sérstaklega að hagkerfið í landinu virðist vera þannig að mikil þensla er á suðvesturhorninu en niðursveifla sums staðar annars staðar, neikvæður hagvöxtur og fólksfækkun. Ef eitthvað er mun frekar herða að hinum dreifðu byggðum við þann niðurskurð sem boðaður hefur verið varðandi þorskaflann. Þegar maður les svo grein eins og ég vitnaði í í löngu máli, þar sem fullyrt er af talsmanni öflugasta banka landsins að áfram verði þensla á byggingamarkaðinum, þá spyr maður sig, vitandi að bankarnir hafa ekki verið mjög viljugir að lána út á land og reyndar bara alls ekki lánað á suma staði, hvort þeir ætli þá að halda áfram að stuðla að miklum byggingarframkvæmdum á suðvesturhorninu. Menn hafa svo sem talið það upp hér hvað verið er að gera og hvað ætlunin er að gera í opinberum framkvæmdum, hvað einkafyrirtækin eru að gera og hvað Landsbankinn ætlar að gera með því að byggja splunkunýjar höfuðstöðvar í miðbæ Reykjavíkur. Fjármálaráðherra hefur sjálfur sagt að ríkisstjórnin og við í þinginu réðum ekki markaðinum. Það er rétt. Við ráðum ekki yfir peningastefnu bankanna. Við getum hins vegar velt því fyrir okkur hvert þeir stefna. Niðurstaða mín er sú, hæstv. fjármálaráðherra, þrátt fyrir svar þitt hér áðan, að verið sé að stefna í eina átt, að viðhalda þenslunni á þessu svæði en takast ekki á við þann vanda sem er í tvöföldu hagkerfi okkar með niðursveiflu á landsbyggðinni.