135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:58]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ekki tilgangur minn að sýna hæstv. fjármálaráðherra neina sérstaka ósanngirni eða stjórnarliðinu yfirleitt. Ég var einungis að ræða hlutina á þeim nótum sem mér finnst þeir liggja fyrir og velta upp þeim vandamálum sem eru til staðar og koma í veg fyrir að okkur takist að vinna fjárlagafrumvarpið rétt og byggja það á réttum forsendum. Það skiptir líka máli þegar við erum að horfa til þess hvernig við tökum á hinum einstöku málum sem snúa að landsbyggðinni sérstaklega. Nánast allar sveitarstjórnir vítt og breitt í kringum landið, sérstaklega í sjávarbyggðunum, hafa sent okkur mörg erindi um það sem þau telja að þurfi að koma til til að styðja við þróun byggðar og atvinnumöguleika þar á komandi árum með tilliti til þess sem ríkisstjórnin hefur ákveðið. Við heyrum síðan spádóma annarra manna, sem ég vitnaði til, en þeirra sem eru í ríkisgeiranum um að það stefni í aðra átt en lagt er upp með í fjárlagafrumvarpinu.

Ég vil mótmæla því að ég hafi sýnt fjármálaráðherra einhverja sérstaka ósanngirni eða stjórnarliðum. Ég hélt að ég hefði verið að ræða málin á mjög málefnalegum nótum. Það getur vel verið að síðar komi að því að ég sýni fjármálaráðherra ósanngirni en þá skal ég gera það mjög hressilega.