135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:02]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að öðru jöfnu er alltaf betra að fá skýr svör en loðin. Ég tek því undir þá skilgreiningu hv. þm. Jóns Bjarnasonar að við erum vissulega að fara fram á það við ríkisstjórnina, þegar við ræðum málin, að við fáum skýr svör. En jafnvel þó að við fáum skýrari svör en við höfum fengið er ekki þar með sagt að hlutirnir verki nákvæmlega eins, hvorki að því er varðar stóriðjuframkvæmdir né aðrar framkvæmdir. Ég tel að stóriðjuframkvæmdir á norðausturhorninu, t.d. á Húsavík, hefðu allt önnur áhrif en ef þeim væri bætt inn á þenslusvæðið á suðvesturhorninu. Ég held að þau hafi frekar áhrif til atvinnuuppbyggingar á svæðum sem eru í vanda eins og víða er á landsbyggðinni. Við þurfum því að hugsa hlutina út frá því að það skiptir máli í hinu tvöfalda hagkerfi okkar hvernig við stýrum fjármálum og framkvæmdum.