135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:32]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Við upphaf máls míns vil ég þakka hæstv. fjármálaráðherra greinargott yfirlit um frumvarp til fjárlaga næsta árs og sömuleiðis taka undir þær þakkir sem bornar hafa verið fram hér úr ræðustóli til allra þeirra starfsmanna ríkisstofnana sem komið hafa að verki við samningu frumvarpsins.

Frumvarpið ber með sér að staða ríkissjóðs er afar sterk en ljóst er að umræðan á hinu háa Alþingi virðist ætla að verða með hefðbundnu sniði, þ.e. stjórnarliðar verja frumvarpið og þær áherslur sem þar er að finna en stjórnarandstaðan leitar að veikum blettum í röksemdafærslu stjórnarliða. Þessu fylgja síðan að venju margar lærðar tölur um skattamál, fjármál og efnahagsmál.

Þetta umræðuefni er í eyrum margra fremur tyrfið og illskiljanlegt nema þá helst þeirra sem lifa og hrærast í þessum veruleika dag hvern. En allir landsmenn verða hins vegar varir við, hver þó á sinn hátt, hvort fjármál ríkissjóðs eru í góðu fari eður ei. Þeir finna það á eigin skinni, aðbúnaði öllum og samfélagsþjónustu, að íslenskt samfélag hefur á síðustu árum notið þeirrar gæfu að fjármál hins opinbera hafa verið í afar traustri umsýslu. Undir forustu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórnum þessa tíma hefur efnahagur landsins tekið algjörum stakkaskiptum og er nú svo komið að Ísland skipar sér á bekk meðal þeirra þjóða heims sem búa þegnum sínum hvað best lífsskilyrði.

Breytingar á viðskiptalöggjöf landsins lögðu grunninn að þeim árangri sem náðst hefur. Efnahagslífið er nú að mestu frjálst, laust við þrúgandi hömlur ríkisforsjárinnar sem áður drap allt í dróma og skerti kjör fólks. Við búum við frjálsa verðmyndun, litlar sem engar hömlur á innflutningi, einstaklingum og fyrirtækjum er frjálst að fjárfesta og fleira mætti eflaust nefna. Þessar skipulagsbreytingar íslensks hagkerfis á undanförnum árum ásamt aukinni þátttöku í alþjóðlegu efnahagsstarfi leiddu af sér gríðarlega öflugt hagvaxtarskeið sem byggist á mun fjölbreyttari og öflugri atvinnustarfsemi en áður var. Landsframleiðslan hefur margfaldast og svo hefur verið búið um hnútana að meira er til skiptanna en áður var, kakan hefur með öðrum orðum stækkað ár frá ári.

Þannig hefur ríkissjóður haft svigrúm til að auka velferðarþjónustu svo mjög að óvíða er velferð meiri en hér á landi. Þrátt fyrir þau útgjöld sem fylgja uppbyggingu á þessum sviðum hefur á sama tíma tekist að greiða niður skuldir ríkisins og fjárlög landsins eru hallalaus. Samhliða þessum árangri hefur svo lífeyriskerfi þjóðarinnar verið byggt upp með miklum myndarbrag.

Staða ríkisfjármála er til fyrirmyndar og endurspeglar fjárlagafrumvarp ársins 2008 ágætlega vel þá stöðu. Ekki þykir mér ástæða til neins annars en að fagna því. Líkt og komið hefur fram í umræðum í dag, og einnig í gær og fyrradag, snúast hugleiðingar þingmanna meðal annars um áhrif frumvarpsins á verðbólgu, vaxtastig og viðskiptajöfnuð, samspil og áhrif fjárlaga ríkisins á aðra þætti í efnahagslífi landsins.

Undanfarin ár hefur mikill afgangur verið af rekstri A-hluta ríkissjóðs. Árið 2006 nam hann 82 milljörðum kr. og árið 2005 var hann 113 milljarðar kr. Sá afgangur skýrist einkum af auknum skatttekjum og öðrum rekstrartekjum vegna þenslu í íslensku efnahagslífi undanfarin ár sem skilar sér í hækkun flestra skattstofna. Einnig hafa komið til tekjur vegna eignasölu, einkum þó árið 2005 eins og áður hefur komið fram, þegar hlutabréf í Landssíma Íslands voru seld. Afkoma ríkissjóðs á árinu 2006 var mun betri en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir og við sjáum þess stað í greinargerð með fjárlagafrumvarpi ársins 2008 að fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir tæplega 60 milljarða kr. meiri afgangi ríkissjóðs á árinu 2007 en fjárlög þess sama árs ætluðu.

Ég vil einnig nefna að fjárlög ársins 2008 gera ráð fyrir 31 milljarðs kr. tekjuafgangi úr rekstrinum og jafnframt segir í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins að flest bendi til þess að fljótlega á næsta ári fari að draga úr þeirri þenslu sem ríkir nú um stundir í þjóðfélaginu. Fram undan sé tímabil meiri stöðugleika og jafnvægis í þjóðarbúskapnum og því fylgi þá minni hagvöxtur en verið hafi um nokkra hríð. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að verðbólga lækki þegar líða taki á árið og verulega dragi úr viðskiptahalla og hvort tveggja á þá að skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta.

Ég hef fyrirvara á þeirri spá manna að það dragi hratt úr þenslu í þjóðfélaginu. Sérstaklega tel ég litlar líkur á skjótum samdrætti á vaxtarsvæðinu við Faxaflóa. Í því sambandi er einnig rétt að vekja sérstaka athygli á þeim gríðarlegu áformum um fjárfestingu og framkvæmdir sem fjárlagafrumvarpið felur í sér. Ekki kæmi mér á óvart að öll þau verkefni sem þar eru ráðgerð verði ekki unnin á næsta ári í ljósi þeirrar stöðu sem nú er á íslenskum vinnumarkaði. Meðal annars af þeirri ástæðu tel ég þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins varðandi atvinnuleysi næsta árs upp á tæp 3% fremur svartsýna þar sem fátt bendir til annars en að eftirspurn eftir vinnuafli haldist, að minnsta kosti langt fram eftir næsta ári. Að þessu leyti tek ég undir þær hugleiðingar sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hafði uppi í umræðum fyrr í dag.

Ég vil að lokum við þetta tækifæri, fyrstu umræðu mína á þessum vettvangi, um fjárlög ríkisins, árétta skoðun mína varðandi meginskyldu og jafnframt meginréttindi þingsins. Fjárstjórnarvaldið, þ.e. valdið til að innheimta skatta og stofna til útgjalda á vegum ríkisins, er í höndum löggjafans. Það er ljóst af umræðu þingmanna hér í dag að margt má bæta. Við höfum líka tekið þá umræðu í fjárlaganefnd þingsins í tengslum við álitsgerðir sem við höfum verið að fara yfir frá Ríkisendurskoðun. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir framkvæmd fjárlagaársins 2006 kemur margt athyglisvert fram. Samkvæmt niðurstöðu ríkisreiknings stóðu 75 fjárlagaliðir, eða um það bil sjöundi hver, í halla umfram 4% í árslok 2006. Í árslok 2005 voru þetta 96 liðir sem höfðu halla umfram hin svokölluðu vikmörk.

Þó að færri liðir standi í halla umfram 4% í lok ársins 2006 en árið þar á undan hefur samanlögð staða hallaliða ekki batnað og þannig hefur það verið mörg undanfarin ár. Það er þá ljóst að í íslenska stjórnkerfinu er ríkjandi ákveðið umburðarlyndi gagnvart brotum á fjárlögum.

Í 41. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að ekkert gjald megi reiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Meginreglan er því skýr en 33. og 34. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, veita þó þröngar heimildir til greiðslna utan fjárlaga þoli þær ekki bið eða séu vegna nýgerðra kjarasamninga.

Ef maður lítur yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar með þetta í huga á framkvæmd fjárlagaársins 2006 þá kemur þar fram, og ég leyfi mér að vitna, með leyfi forseta, orðrétt í skýrsluna:

„Þegar á heildina er litið stóðu tveir af hverjum þremur fjárlagaliðum annaðhvort með ofnýttar eða vannýttar heimildir umfram 4% vikmörk um síðustu áramót. Ríkisendurskoðun bendir á mikilvægi þess að Alþingi fjalli sérstaklega um þessa fjárlagaliði í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008.“

Það er ljóst af þessum orðum að við þurfum að fara í gegnum skýrslu Ríkisendurskoðunar. Af umræðum innan fjárlaganefndar að dæma er fullur vilji til þess að fara mjög vandlega yfir þær athugasemdir sem gerðar hafa verið. Af fundi með starfsmönnum fjármálaráðuneytis að dæma er einnig ríkur vilji þar til að taka á í þessum efnum og við heyrðum það einnig í ræðu hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag að þar á bæ er mjög eindreginn vilji til þess að fara betur ofan í þessa þætti.

Það er bjargföst trú mín að styrkja þurfi þingið í starfi sínu og þá sérstaklega í þeim efnum er lúta að fjárlögum og eftirliti með framkvæmd þeirra. Ég veit að þessi atriði hafa iðulega komið til umræðu á hinu háa Alþingi og þá sérstaklega í tengslum við fjárlagagerð. Ég tel slíka umræðu af hinu góða, hún er í raun áminning til þingmanna um að rækja af alúð og skyldurækni það mikilvæga verkefni sem þeim hefur verið trúað fyrir.