135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, varaformanns fjárlaganefndar, hvað varðaði mikilvægi þess að styrkja stöðu þingsins í vinnu þess við fjárlagagerð og mat á efnahagsforsendum, þróun efnahagsmála og fjármála. Við getum horft til þess hversu mikill stuðningur okkar er af Ríkisendurskoðun sem var jú stofnuð og tekin út úr fjármálaráðuneytinu á sínum tíma og gerð að sjálfstæðri stofnun. Það er því ekki verið að deila á neinn þó svo að mikilvægi þess sé ítrekað.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann muni ekki einmitt stuðla að beinum aðgerðum í því efni sem hefur einmitt fólgist í því meðal annars að við samþykkjum að koma á efnahagsstofu þingsins til þess að fjalla um þessi mál. Ég veit að hann hefur stýrt sveitarfélögum vítt og breitt um landið og þekkir mjög vel mikilvægi áætlanagerða og mikilvægi forsendna fyrir fjárhagsáætlun og þess háttar. Þar þýðir ekkert að segja á miðju ári: Æ, mér sást yfir 10 milljarða. Það gengur ekki upp í rekstri sveitarfélaga en hæstv. fjármálaráðherra kemst upp með að segja að þetta sé allt í lagi.

Þess vegna spyr ég, um leið og ég óska eftir góðu samstarfi í fjárlaganefnd, sem ég þykist viss um að verði með jafnreyndan mann vanan rekstri sveitarsjóða, hvort hv. þingmaður muni ekki styðja það mál okkar að styrkja stöðu þingsins með efnahagsstofu.