135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:49]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einhver greip fram í og sagði að þetta væru sömu spurningar og formaður fjárlaganefndar hefði fengið í kjölfar ræðu sinnar og ég skal glaður taka þátt í að svara því. Ég er alveg tvímælalaust talsmaður þess að styrkja tekjugrunn sveitarfélaga og hef enga ástæðu til að bakka neitt með það. Vandræði okkar hins vegar varðandi þá styrkingu er hversu breytileg staða og gerð sveitarfélaga er í landinu. Við erum að tala um sveitarfélög af stærðinni 60 íbúar og upp í 115 þúsund eða guð má vita hvað við erum komin í hér. Það segir sig sjálft í því ljósi að ekki er auðvelt að færa yfir á einn hátt tekjur til allra þessara gerða sveitarfélaga þannig að við látum þau njóta sem mest þurfa.

Ég hef verið talsmaður þess að jöfnunarsjóðurinn ætti að taka til þeirra sveitarfélaga sem við mest vandræði eiga að etja, taka bara af skarið í því og gefa sér svo sem þrjú ár í það og betur stæðari sveitarfélögin geta þá reynt að þola það með einhverjum hætti. Í þessu fjárlagafrumvarpi er verið að leggja drög að því að það komi aukið fé inn í jöfnunarsjóðinn með vaxandi skatttekjum ríkisins og jafnframt eru beinar greiðslur fyrirhugaðar til verst stöddu sveitarfélaganna sem mest eiga undir högg að sækja upp á 1.400 millj. Að því er verið að vinna nú um stundir að koma á.

Mesti batinn fyrir sveitarfélögin sem í þessum vanda eiga er þegar vöxtur verður í atvinnulífi og við höfum mjög gleðilegt dæmi af Miðausturlandi, á Reyðarfirði í Fjarðabyggð, sem hefur gerbreytt fjárhagsgrunni þess sveitarfélags og ég veit ekki annað en flokkur fyrirspyrjanda hafi verið andvígur þeirri aðgerð. Vonandi náum við saman í þeim málaflokki líka þegar fram líða stundir eins og við munum standa saman um að bæta tekjugrunn sveitarfélaga í landinu.