135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:51]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2008 en það er eitt helsta tæki ríkisstjórnarinnar í hagstjórninni. Í því birtast áherslur stjórnarinnar bæði að því er varðar umgjörð og umfang ríkisfjármálanna en einnig um innbyrðis forgangsröðun verkefna milli málaflokka og innan málaflokka. Í fjárlögum endurspeglast stefna stjórnvalda, m.a. í skattamálum og tekjujöfnunarmálum, og afkoma ríkissjóðs hefur að sjálfsögðu áhrif á aðra þætti efnahagsstjórnarinnar eins og peningamálanna. Þannig eru fjárlögin gríðarlega áhrifamikið stjórntæki.

Talsmaður okkar vinstri grænna í ríkisfjármálum, hv. þm. Jón Bjarnason, hefur nú þegar farið yfir helstu sjónarmið okkar hvað varðar frumvarpið eins og það blasir við við 1. umr. Ég mun því ekki fara frekar inn á þau mál enda tíminn takmarkaður heldur beina sjónum að nokkrum atriðum öðrum sem mér eru sérstaklega hugleikin.

Það er sérstök ástæða til að fjalla hér um fjármál og stöðu sveitarfélaganna enda eru þau mikilvægur og ört vaxandi hluti í þjóðarbúskapnum. Á undanförnum árum hafa sveitarfélögin í landinu verið að taka við auknum verkefnum. Í sumu tilvikum hefur verið um samkomulag að ræða á milli ríkis og sveitarfélaga og samið um tilflutning tekjustofna í leiðinni. Í öðrum tilvikum hefur ríkið einhliða sett verkefni til sveitarfélaga sem hafa kostað þau umtalsverðar upphæðir án þess að fá aukna tekjustofna til að sinna þeim. Þá hafa breytingar í skattaumhverfi sömuleiðis skert stöðu sveitarfélaganna. Má þar nefna að fjölmargir launþegar hafa kosið að stofna einkahlutafélög og fært þannig skattbyrði sína til og lækkað hana. Á því hafa þeir hagnast og ríkið hefur hagnast á því sömuleiðis en sveitarfélögin hafa blætt. Þau hafa orðið af útsvarstekjum en ríkið fengið í staðinn aukinn fjármagnstekjuskatt og tekjuskatt frá lögaðilum. Þess vegna hafa sveitarfélögin reist kröfuna um hlutdeild í fjármagnstekjuskatti sem er réttlætismál því að þeir sem einungis greiða fjármagnstekjuskatt eiga að leggja sitt af mörkum til þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin sinna. Af hverju skyldu þeir ekki greiða sína hlutdeild í leikskóla og grunnskóla fyrir börnin sín eins og allur almenningur gerir?

Frá 1993 og til ársins 2009 er uppsafnaður halli á rekstri sveitarfélaganna samkvæmt þjóðhagsspá um 50 milljarðar kr. Aðeins fjögur ár af þessum sautján árum hafa sveitarfélögin skilað tekjuafgangi sem segir ekki alla sögu því að afkomu sveitarfélaganna er afar misskipt eins og við þekkjum og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vék að í sínu máli. En ég vil þó bæta því við að það er ekki vandi í sjálfu sér heldur verkefni að takast á við hvernig væntanlegum, vonandi, tekjuauka sveitarfélaganna verður skipt á milli þeirra.

Þetta er grafalvarleg staða sem blasir við sveitarfélögum sem er að sjálfsögðu hluti af vanda hins opinbera og ríkið verður að hætta að velta verkefnum og vanda yfir á sveitarfélögin og berja sér svo á brjóst yfir því hve vel gengur hjá ríkissjóði. Meðal þess sem sveitarfélögin hafa tekið við en ekki fengið bætt með tekjustofnum eru alls konar tilskipanir í gegnum EES-samninginn en talið er að sveitarfélögin beri meginhluta kostnaðar við innleiðingu EES-tilskipana, jafnvel allt að 75%. Má þar nefna að kostnaður sveitarfélaga við að innleiða svonefnda fráveitutilskipun Evrópusambandsins er talinn nema um 20 milljörðum kr. og engir nýir tekjustofnar hafa komið þar á móti og er hér aðeins nefnd ein tilskipun af mörg hundruð sem hafa komið frá Brussel.

Í aðdraganda kosninganna í vor var því heitið, a.m.k. af hálfu Samfylkingarinnar, að fjárhagur sveitarfélaganna yrði bættur. Meðal annars sagði í kosningastefnuskrá flokksins að auka ætti hlutdeild sveitarfélaganna í skatttekjum. Það sem rataði inn í stjórnarsáttmálann í þessu efni er að endurskoða eigi tekju- og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að efla sveitarstjórnarstigið. Þessa sér hins vegar hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu. Sveltistefna Sjálfstæðisflokksins gagnvart sveitarfélögunum heldur áfram og það kemur einnig fram í svokölluðum mótvægisaðgerðum vegna aflasamdráttar. Sveitarsjóðir og hafnarsjóðir eiga að fá 250 millj. á ári í þrjú ár vegna tekjusamdráttar. Svo vill til að hafnarsjóðirnir einir verða af u.þ.b. 150 millj. kr. tekjum á ári og líkur benda til að sveitarsjóðir geti orðið af tekjum á bilinu 200–300 millj. kr. á ári og er það líklega varlega áætlað. Þetta bætist ofan á hjá sveitarfélögum sem mörg hver eru afar illa stödd fyrir en þurfa að sjálfsögðu að halda uppi fullri þjónustu eftir sem áður. Því miður hefur ríkisvaldið hingað til ekki verið reiðubúið að tryggja tekjugrundvöll sveitarfélaganna til frambúðar og það eru engin teikn á lofti í þessu fjárlagafrumvarpi um að þar verði breyting á. En því get ég hins vegar heitið hæstv. fjármálaráðherra að honum verður haldið við efnið hvað varðar stöðu sveitarfélaganna og mikilvægi þess að styrkja og breikka tekjustofna þeirra og við væntum að sjálfsögðu liðsinnis þeirra fjölmörgu sveitarstjórnarmanna sem sitja nú á Alþingi og m.a. við þessa umræðu. Horfi ég þar sérstaklega á félaga mína, formann og varaformann fjárlaganefndar, í því efni.

Herra forseti. Það er mikilvægt að fjárlögin séu virt og eftir þeim farið og það er brýnt að fjármálaráðuneytið taki fjárlögin alvarlega og fylgi fjárreiðulögum, annars eru fjárlögin lítils virði.

Nú í sumar og haust hefur mikil umræða farið fram um málefni Grímseyjarferju og meðferð fjármuna og fjárheimilda ríkisins í því sambandi og langt í frá að þar séu öll kurl komin til grafar. Ýmsir hafa haldið því fram að í því máli hafi ráðuneytið farið afar frjálslega með heimildir sínar og jafnvel sniðgengið fjárreiðulögin. Ég skal ekki fullyrða hér að svo sé. Það eru stór orð og mikil ábyrgð fylgir því að fullyrða slíkt. Hins vegar er full ástæða til að fara í saumana á vinnulagi og það gengur auðvitað ekki að stjórnsýslan, framkvæmdarvaldið, hafi allt annan skilning á heimildum sínum en löggjafarvaldið sem einnig fer með fjárveitingavald. Ég get nefnt hér lítið dæmi sem ég tel fulla ástæðu til að skoða gaumgæfilega. Það er hin auglýsta sala ríkisins á eignum sínum í Hvalfirði. Í fjárlögum er heimild til að selja landið en þá tekur ráðuneytið sig til og hyggst selja allt sem á landinu er, hús, mannvirki og bryggju. Þarna er farið frjálslega með heimildir fjárlaganna að mínu mati fyrir utan að það er fullkomin óvissa um skipulag á þessu svæði, verðmat á eignum liggur ekki fyrir og svo virðist sem ráðuneytið hafi ekki tekið tillit til álits umboðsmanns Alþingis sem fór fram á það árið 2001 að við ráðstöfun á eignum ríkisins væri fylgt ákvæðum reglugerða þar um. Þá virðist eins og tilteknar upplýsingar úr ástandsskýrslu um eignirnar hafi verið ritskoðaðar burtu og þær ekki birtar en það eru upplýsingar um kostnað við endurbætur, niðurrif og fleira á þeim mannvirkjum sem verið er að selja. Þetta eru satt að segja ótrúleg vinnubrögð, herra forseti, og að mínu mati ekki vel haldið á hagsmunum ríkisins fyrir utan að sveitarfélagið sem hefur skipulagsvaldið á svæðinu er algerlega sniðgengið.

Ég hef, virðulegi forseti, lagt fram ítarlegar fyrirspurnir til hæstv. fjármálaráðherra til skriflegs svars um þetta efni en ég skora hér og nú á ráðherrann að fara í saumana á málinu og kynna sér málflutning og sjónarmið sveitarfélagsins sem í hlut á og fresta fyrirhugaðri sölu þar til málið hefur fengið viðunandi undirbúning.

Ég get ekki lokið umfjöllun við 1. umr. um fjárlagafrumvarpið án þess að nefna samgöngumálin og þá einkum og sér í lagi vegamálin. Það væri út af fyrir sig fróðlegt að fá frekari upplýsingar um uppbyggingu í fjarskiptamálum vítt og breitt um landið í samræmi við fyrirheit í fjarskiptaáætlun því að fjárlagafrumvarpið veitir engin sérstök svör í því efni. Vonandi gefst tækifæri til þess í meðförum frumvarpsins í samgöngunefnd.

Ég ætla aðeins að nefna að í umræðunni um fjárlagafrumvarpið, flýtiframkvæmdir og mótvægisaðgerðir, er mikið talað um stórfellda aukningu á fjármagni til samgöngumála. Vonandi fæst það staðist skoðun en er það samt ekki svo að hér er fyrst og fremst um að ræða að koma sér af stað í verkefni sem þegar var búið að fresta undanfarin fjögur ár eða svo vegna þenslunnar að sagt var? Og hvernig er með Sundabraut? Hverju sætir það að nú á að skera niður framlagið til Sundabrautar á árinu 2008 um a.m.k. 1,5 milljarða þótt ákveðið hafi verið í lögunum um ráðstöfun á söluandvirði Símans að setja um 4 milljarða í verkið á næsta ári? Eftir allan hamaganginn í ýmsum núverandi þingmönnum stjórnarflokkanna um Sundabrautina á undanförnum árum er engu líkara en leki nú úr þeim loftið og mér koma þá sérstaklega í hug hæstv. heilbrigðisráðherra sem er ekki staddur hér núna og ég hlýt að horfa á hv. formann samgöngunefndar í þessu efni líka.

Ég ætla líka að nefna hér stuttlega og vekja athygli á framlögum til Jafnréttisstofu. Það er ekki stór málaflokkur í fjármunum talið en mikilvægur m.a. í ljósi heitstrenginga, a.m.k. annars stjórnarflokksins, um aukið framlag, fjármagn og árangur í kynjajafnréttismálum. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir framlagi upp á 41,9 millj. kr. til Jafnréttisstofu en það er hækkun um 1,3 millj. frá fyrra ári. Það heldur engan veginn í við verðbólgu þannig að í raun er um lækkun framlags að ræða og við hljótum að spyrja hvort það sé metnaður hæstv. félagsmálaráðherra í þessum brýna málaflokki.

Þá væri líka hægt að nefna framhaldsskólann en því var heitið í kosningunum síðastliðið vor að námsgögn og kennsla í framhaldsskólum ætti að vera nemendum að kostnaðarlausu en þess sér hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu.

Herra forseti. Það væri áreiðanlega tilefni til að fara mun dýpra í ýmsa þætti fjárlagafrumvarpsins og hagstjórnarinnar almennt hér við 1. umr. en tíminn leyfir það því miður ekki. Hins vegar er bersýnilegt að margt í stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í stefnuræðu forsætisráðherra og í fjárlagafrumvarpinu hljómar ekki saman og nægir þar að nefna fullyrðingar um að þenslan sé á undanhaldi því að fjárlagafrumvarpið ber það ekki með sér nema síður sé.