135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:02]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nefna tvö atriði vegna ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar.

Í fyrsta lagi varðandi sveitarstjórnarmálin. Hv. þingmaður brýndi aðra þingmenn, sveitarstjórnarmenn, til dáða í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Mér finnst ástæða til að segja það úr þessum ræðustól að ég tel að engan bilbug sé á okkur að finna, sveitarstjórnarmönnunum sem sitjum í fjárlaganefnd. Við skiptum ekki um skoðun þótt við séum komin á hið háa Alþingi varðandi það að að sjálfsögðu þarf að leiðrétta og endurskoða verkaskiptingu og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég hygg að fjárlaganefnd sé þannig skipuð núna að sex af ellefu nefndarmönnum eru fyrrverandi og sumir núverandi sveitarstjórnarmenn.

Varðandi hitt atriðið sem þingmaðurinn nefndi, með Sundabraut, þá á hv. þm. Árni Þór Sigurðsson að vita það jafn vel og sú sem hér stendur að ástæðan fyrir því að ekki er hægt að setja fjármuni til Sundabrautar á næsta ári er m.a. beiðni frá núverandi borgaryfirvöldum um að skoða frekar svokallaða ytri leið á Sundabraut. Við hv. þm. Árni Þór Sigurðsson höfum verið sammála um það í gegnum tíðina að ytri leiðin væri heppilegri en sú innri þannig að ég fagnaði því að núverandi borgaryfirvöld skyldu óska eftir því við Vegagerðina að hún verði skoðuð. Það gerir að verkum að sú leið þarf að fara í umhverfismat og bera þyrfti kostnað við hana saman við kostnað við innri leiðina. Þegar þeirri vinnu er lokið, væntanlega fljótlega, verður hægt að taka endanlega ákvörðun um hvort Sundabraut fer ytri eða innri leið. Sú ákvörðun liggur ekki fyrir en þegar Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafa komið sér saman um það verða að sjálfsögðu settir fjármunir í Sundabraut, enda er það löngu tímabært.