135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:06]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér við 1. umr. fyrstu fjárlög nýrrar ríkisstjórnar þar sem stefna ríkisstjórnarinnar birtist, eins og stjórnarandstaðan hefur réttilega bent á. Þó vil ég taka fram strax í byrjun, sem hefur kannski vantað inn í umræðuna sem hingað til hefur farið fram, og vekja athygli á því að þó að ríkisstjórnin hafi starfað á fimmta mánuð og hafi lagt fram skýra stefnuskrá þá kann að vera of snemmt að telja upp einstök atriði sem ekki hafa komist inn í þessi fjárlög því að við höfum ætlað okkur fjögur ár til að standa við þau loforð sem gefin voru.

Eins finnst mér mjög forvitnilegt að heyra í umræðunni þegar verið er að rukka um einstök atriði úr stefnuskrám ríkisstjórnarflokkanna. Ríkisstjórnin er mynduð af tveimur flokkum og hefur birt stefnu sína í sameiginlegri stefnuskrá. Það á að vera verkefni stjórnarandstöðunnar jafnt og okkar sjálfra að leggja mat á með hvaða hætti við stöndum við þær yfirlýsingar og þau stefnumál sem við höfum sett fram. Það skiptir auðvitað mjög miklu að við fáum slíkt aðhald. Ég vona að í framhaldinu verði fylgst vandlega með því hvort við stöndum við það sem í stefnuskránni er.

Þær áherslur sem eru hér í fjárlögum, sem eru með mikinn tekjuafgang, eru m.a. á samgöngumál, á bætta stöðu byggðar í landinu með bættum samgöngum og fjarskiptum. Lögð er áhersla á almannatryggingar, velferðarmál og heilbrigðismál. Menn geta ekki sagt með neinum sanni að það sé í andstöðu við stefnu ríkisstjórnarflokkanna og allra síst í andstöðu við stefnu Samfylkingarinnar.

Það er jafnljóst þegar við leggjum fram fjárlagafrumvarp að gera verður grein fyrir þeirri óvissu sem fylgir slíkri framlagningu. Það hefur komið berlega í ljós þegar menn skoða væntanlega niðurstöðu á þessu ári og spána um tekjur á næsta ári. Það hefur reynst erfitt að spá nákvæmlega fyrir um tekjur, þær hafa reynst mun hærri en áætlað hefur verið. Þess vegna verður að hafa allan fyrirvara á tekjum eins og áður. En það er auðvitað hlutverk okkar að fara varlega í tekjuspána en vanda þeim mun meira vinnuna við útgjaldaliðina. Það er líka óvissa sem fylgir því að eftir á að ganga frá tilfærslu á milli ráðuneyta og auðvitað verður að leggja í þá vinnu í fjárlaganefndinni að færa til í fjárlagafrumvarpinu í samræmi við þær ákvarðanir sem þar verða teknar.

Það hefur vakið athygli mína þegar menn ræða launa- og kjarasamninga að það er eins og sumir talsmenn stjórnarandstöðunnar hafi átt von á að kjarasamningar yrðu leystir í fjárlögum. Eftir að hafa verið í sveitarstjórn í yfir áratug kannast ég ekki við að hafa gert spá um útgjaldaliði vegna launaliða inni í fjárhagsáætlunum. Það hefur heldur ekki verið gert í fjárlögum en auðvitað verða menn að reikna með því að gerðir verði kjarasamningar sem hafa áhrif á niðurstöðu fjárlaga.

Í síðasta lagi hefur verið bent á þá óvissu sem fylgir því að ekki er sundurliðun á öllum smáatriðum á mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem er þó stór liður og skiptir miklu máli.

Ef við snúum okkur að því sem er jákvæðast í þessu frumvarpi og ég vil vekja athygli á þá ber fyrst að nefna þann stóra samgöngupakka sem hér er settur inn, þær miklu framfarir og þeim framkvæmdum sem flýtt er í sambandi við samgöngumál þar sem tugum milljarða er bætt í framkvæmdafé, hvort sem er í nýframkvæmdum á vegum, flugvöllum eða höfnum. Einnig verður aukning í viðhaldi vega þó að auðvitað hefði mátt gera betur þar enda eru þau verkefni gríðarlega stór, einkum á landsbyggðinni.

Við sjáum líka í mennta- og velferðarmálunum að efla á háskólastigið og menntun og rannsóknir á háskólastigi en ekki síður á framhaldsskólastigi. Í velferðarmálunum sjáum við verulega breytingu í sambandi við málefni geðfatlaðra bæði hvað varðar rekstur en einnig varðandi húsnæði en þar eru að vísu að koma til símapeningarnir, sem var búið að ráðstafa af fyrrverandi ríkisstjórn í þann málaflokk. Við sjáum líka í frumvarpinu, af því að menn eru að telja upp hverjum af stefnumálunum hefur verið komið í gegn, að aukinn þungi er settur í málefni barna og ungmenna. Sú þingsályktun sem samþykkt var á vorþinginu er að koma til framkvæmda og við sjáum það þarna inni. Við sjáum jafnframt fram á eflingu símenntunar.

Menn hafa réttilega bent á að ekki hefur verið komið að mörgum ákvæðum í sambandi við lífeyris- eða örorkumál og öldrunarmálin. En hins vegar er verið að vinna mjög skipulega og hratt að því að endurskoða almannatryggingakerfið og allir þeir sem til þekkja vita að það verður ekkert gert í einu vetfangi. Það er búið að stagbæta það kerfi nógu lengi og nú þarf að ná heildarsýn þannig að viðbætur á einstökum stöðum kosti ekki skerðingar annars staðar. Ég bind miklar vonir við þá nefnd sem er að starfi og mun skila vinnu sinni núna 1. desember. Vonandi tekst okkur að koma þar að einhverjum af málunum í lokaumræðunni um fjárlagafrumvarpið.

Það má sömuleiðis benda á að í félagsmálaráðuneytinu er unnið að húsnæðismálunum og er verið að skoða hvernig hægt verði að koma til móts við þá tekjulægri og þá sem eiga erfitt með að fjárfesta í nýju húsnæði.

Einn af þeim liðum sem hafa heldur ekki verið dregnir sérstaklega fram er stórhækkun á framlagi ríkisins til þróunaraðstoðar, bæði til Þróunarsamvinnustofnunar og til þróunarmála og hjálparstarfs hins vegar. Þarna er um að ræða um milljarð króna og fagna ég því sérstaklega að við höfum tekið hressilega á þeim lið.

Því hefur verið haldið fram að við ætlum að eyða fé í hernaðarmál. Mér fannst hv. þm. Jón Bjarnason tala svolítið frjálslega þegar hann fór að nefna upphæðir vegna þess að aukningin er þar að mestu í ratsjárstöðvar og öryggismál sem snúa beint að okkur sjálfum. Það er kostnaður sem fylgir því að herinn hvarf af landi brott.

Einn af stóru útgjaldaliðunum eru mótvægisaðgerðirnar. Það er rétt sem hefur komið fram að þær eru ekki sundurgreindar í smáatriðum, sem betur fer að mínu mati. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við eigum þar borð fyrir báru, getum fært til eða hliðrað til peningum þegar við sjáum hvernig niðurskurður á þorskafla kemur niður á sveitarfélögunum. Það verður örugglega með öðrum hætti en við reiknum með í dag einfaldlega vegna þess að enn er framsal á kvóta leyfilegt og við vitum aldrei hverjir verða með kvótann þegar kemur fram á næsta kvótaár. Við þurfum auðvitað að geta brugðist við jafnóðum.

Ég sagði í umræðunni í gærkvöldi, þegar við ræddum um stefnumál ríkisstjórnarinnar, að mér fyndist að menn þyrftu að setja upp ákveðin gleraugu þegar fjárlagafrumvarpið væri skoðað. Ég sagði þá að það ætti að setja byggðagleraugun upp. Það má kannski orða það með öðrum hætti og segja að það ætti að setja jafnréttisgleraugun upp við að skoða fjárlagafrumvarpið. Við höfum sett okkur það sem stefnumið að berjast fyrir jafnrétti, ekki aðeins milli kynja heldur líka milli byggðarlaga. Við eigum að vakta það að í öllum okkar ákvörðunum og gerðum verði þau sjónarmið mjög ofarlega. Það verður spennandi að sjá hvernig okkur hefur miðað. Við höfum sett okkur þau kláru markmið að reyna að útrýma kynbundnum launamun í samfélaginu. Þar treystum við á að menn standi saman um að reyna að ná því markmiði og sama gildir um að jafna stöðu byggðanna með betri samgöngum og aukinni menntun á landsbyggðinni. Þetta skiptir gríðarlegu máli.

Ég bind þær vonir við framhaldið á umræðunni að þessum samanburði við stefnumál ríkisstjórnarinnar verði stöðugt haldið gangandi en ég biðst undan því að talin verði upp einstök mál eins og námsbókakostnaður. Það liggur fyrir að taka á á námsbókakostnaði í framhaldsskólunum. Frá því var ekki gengið fyrir þessi fjárlög en það kemur þá vonandi ári seinna. Væntanlega hefur enginn búist við því að við gætum lokið þessu öllu á fyrsta ári þótt dugleg séum.

Sama gildir þegar verið er að ræða um kjarasamningana. Það mátti skilja menn þannig að þeir hefðu einhverjar væntingar um að þingið mundi leysa kjarasamninga á almennum vinnumarkaði með fjárframlögum núna í fjárlögum. Það er bara ekki þannig að ríkið semji eitt og sér um kjör í landinu. Mikið af þeim umönnunarstéttum, sem ég tek undir að þurfa að fá verulegar bætur í komandi kjarasamningum, hvort sem eru kennarar eða aðrir sem sinna uppeldis- og umönnunarstörfum, eiga eftir að semja um þau kjör. Vert er að taka skýrt fram að það er klárt í stefnu ríkisstjórnarinnar að þessar stéttir, kvennastéttirnar og umönnunarstéttir, að það er ósk ríkisvaldsins að horft verði sérstaklega til þeirra við gerð kjarasamninga.

Við förum núna í gegnum 1. umr. um fjárlögin en við eigum eftir að vinna mjög mikla vinnu í sambandi við afgreiðslu þeirra og ég treysti á að gott samstarf verði um það í fjárlaganefnd. Ég treysti einnig á að við verðum áfram undir stöðugu eftirliti með því að við stöndum við gefin fyrirheit en háttvirtir þingmenn verða líka að gefa okkur tíma til að standa við þau.