135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:26]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit svo sem ekki hvort ég get bætt miklu við fyrri athugasemdir eða ábendingar mínar varðandi kjaramálin. Gert er ráð fyrir 1% raunhækkun á launum á næsta ári og það er rétt hjá hv. þingmanni að miðað er við einhverjar prósentutölur. En menn verða að bíða og sjá hvað kjarasamningarnir hafa í för með sér. Innlegg ríkisstjórnarinnar í þá umræðu er alveg klárt, það á að draga úr og eyða launamun kynjanna og bæta stöðu umönnunarstétta. Það eru skilaboðin sem ríkisstjórnin gefur varðandi kjarasamningana. Hún mun standa á bak við það að því leyti sem hún kemur að kjarasamningum. Ég treysti því að hún hafi það til grundvallar.

Mér finnst óvarlegt að spila meiru út á þessu stigi og ég treysti á að menn skilji að ekki er hægt að segja með neinum nákvæmum hætti hvað kemur upp úr pottunum þegar að samningum kemur. Auðvitað geta einhver önnur mál — það þekkjum við úr kjarasamningum — fléttast inn í það og við skulum bara sjá hvað það hefur í för með sér.

Það er alveg rétt að í flestum málum erum við sammála en það er nú kannski ekki það sem hefur verið dregið fram hér í umræðunum þegar menn ræða fjárlagafrumvarpið. Kannski hefðu hv. þingmenn betur mátt gera það til þess að undirstrika sína eigin afstöðu. Það væri að mörgu leyti miklu eðlilegra að þeir tækju þá að minnsta kosti afstöðu og bentu á það sem þeir væru sáttir við og gerðu tillögur um með hvaða hætti þeir vildu standa öðruvísi að málum. Þannig hefði hv. þm. Bjarni Harðarson getað komið með góðar tillögur um það hvernig hafa hefði átt hækkunina minni en 20%, skera vel niður þannig að við ættum fyrir kjarasamningunum.