135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:29]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eins og hv. stjórnarliðar haldi að þetta verði og eigi að vera einhver hallelújakór í sölum Alþingis í vetur, þeim finnst fagnaðarlætin láta á sér standa. Maður heyrði það hjá hæstv. fjármálaráðherra nú í morgun, honum fannst frumvarpinu sínu og sér ekki hrósað nóg. Og nú kemur hv. þm. Guðbjartur Hannesson og kvartar undan því að ekki sé nógu vel með Samfylkinguna farið. Menn eigi að sjá að Samfylkingin hafi sett mark sitt og muni setja mark sitt á fjárlögin og stjórnina.

Ég hef verið að leita logandi ljósi, virðulegi forseti, að því marki sem Samfylkingin ætlaði að setja á landsmálin með þátttöku sinni í ríkisstjórn, meðal annars í heilbrigðismálum. Ég er að leita logandi ljósi, hæstv. forseti, og hvað finn ég? Jú, ég finn að áætlað er að hækka tannlækningar um 42 milljónir vegna árlegrar aukningar. Ég vil spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson hvort Samfylkingin sé ánægð með að búið er í þessu frumvarpi að hækka sjúklingaskattana um 30%. Sértekjur í heilbrigðisgeiranum eru hækkaðar með þessu frumvarpi úr 3,8 milljörðum kr. í 5,1. Þetta er 30% hækkun og ég spyr: Er þetta það mark sem Samfylkingin setur á fjárlögin?

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að hækka komugjöldin almennt um 160 millj. kr. Til sérgreinalækna á að hækka um 100 millj. kr. og það á að hækka greiðslur frá vistmönnum á öldrunarheimilum um 90 millj. kr. Er það nema von að menn spyrji: (Forseti hringir.) Hverra erindi er Samfylkingin að reka í þessari ríkisstjórn?